“Ef allt hefði orðið eins og hún hélt að það yrði”

Þetta hugsar Gríma Pálsdóttir, söguhetjan í Grímu eftir Benný Sif Ísleifsdóttur, með sér í miðri bókinni þegar raunveruleikinn hennar er orðinn allt annar en hún vonaðist til í upphaf sögunnar. Í þessari setningu kristallast viðfangsefnið í þessari sögulegu skáldsögu: vonir, draumar og raunveruleiki tveggja ungra kvenna í sjávarplássi á Austurlandi á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar. Sögusviðið er Fiskiþorp – ónefnt pláss á Austurlandi þar sem nýsköpunartogari kemur í þorpið og frystihús er í byggingu. Gríma og Anna eru bestu vinkonur á miðjum þrítugsaldri við upphaf sögu árið 1952, þær eru eins og svart og hvítt, önnur hávaxin og glæsileg en hin lítil og þétt; báðar eiga sér drauma um eiginmenn og fjölskyldulíf en Gríma ætlar sér alls ekki að verða sjómannskona. Hún stefnir hærra og dreymir um annað litríkara líf.

 

Ætlaði sér aldrei að verða sjómannskona

Bókin gerist á sautján ára tímabili frá árinu 1952 til ársins 1969. Hún byrjar á bjartsýnum stað: Grímu dreymir um heim utan við fiskiþorpið og fær í gegnum Önnu vinkonu sína að fara með í stutta ferð til Englands. Hún sér þorpið frá öðru sjónarhorni er þau sigla af stað í ævintýrin en fljótlega er hún komin á stað í lífinu sem hún ætlaði sér aldrei, orðin sjómannskona. Auk þess hefur slest upp á vinskap þeirra Önnu og hafa þær ekki lengur sama styrk af hver annarri og áður.

Höfundurinn fangar vel anda fiskiþorps um miðbik síðustu aldar í bókinni. Gríma byggir greinilega á mikilli rannsóknarvinnu, rithöfundurinn sagði í viðtali við Fréttablaðið að hún hefði sótt ýmsar sviðsmyndir í söguna úr æsku sinni í sjómannsfjölskyldu á Eskifirði, en það er ljóst að hún hefur kynnt sér blöð frá tímanum, útvarpsþætti og fleira til að tvinna inn í söguna. Málfarið er einnig klárlega frá þessum tíma en við lesturinn leið mér eins og ég væri að hlusta á talanda ömmu minnar sem er einmitt á svipuðum aldri og Gríma á að vera og kemur einnig úr fiskiþorpi. Bókin er mjög lýsandi fyrir þennan tíma í sögunni og sýnir svart á hvítu ískaldan raunveruleika íslenskra kvenna á þessum tíma, ég hafði til dæmis ekki áttað mig á því hversu mikið íslenskar sjómannskonur voru einar á þessum tíma; í bókinni er nefnt að ein áhöfn hefði dvalið í landi um tíu daga á síðastliðnu ári og getur maður vart ímyndað sér svoleiðis hjónasambönd, samanborið við það sem almennt tíðkast í dag. Þrátt fyrir að eiginmaður Grímu sé skipstjóri og skaffi vel sem slíkur þarf hann að vera jafn lengi í burtu og allir aðrir í áhöfninni og þolir hún það illa.

Þrjár bækur á rúmu ári

Gríma er fyrsta skáldsaga Bennýjar Sifjar en hún er þjóðfræðingur frá Háskóla Íslands og hlaut nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta vorið 2018 fyrir verkið. Hún gaf einnig út aðra bók í fyrra, barnabókina Jólasveinarannsóknina og núna er von á barnabókinni Álfarannsóknin. Benný Sif kemur á sjónarsviðið sem þroskaður höfundur og er bókin vel uppbyggð. Sagan er sögð frá sjónarhornum Grímu og Önnu og fleiri persóna í sögunni, sem auðveldar framvinduna. Skipting bókarinnar í tvo hluta, annar á sjötta áratug síðustu aldar og hinn við lok sjöunda áratugarins, býður líka upp á rými til söguframvindu bakvið tjöldin.

Mér fannst bókin mjög góð frumraun. Fyrri hluti sögunnar byrjaði á áhugaverðan hátt og kom vel til skila daglegu lífi í sjómannaþorpi. Mér þóttu þó frásagnir af óánægju Grímu við hlutskipti sín í lífinu verða heldur langdregnar undir lok hans. Við upphaf seinni hlutans fannst mér sagan komast á flug aftur en þá komu fram fleiri sjónarhorn sem lífguðu upp á frásögnina sem og fjölskylduleyndarmál sem hélt manni límdum við bókina fram að lokum hennar.

Djörf persónusköpun

Persónusköpunin er mjög raunsæ, þrátt fyrir að eiga sína drauma nær Gríma ekki að uppfylla þá eins og hún hélt að hún gæti, en það voru örlög flestra kvenna þess tíma. Gríma er mjög erfið persóna sem lætur illa af stjórn og er hún því ekki augljós aðalpersóna í sögulegri skáldsögu á þessum tíma, því tel ég það mjög djarft af Benný Sif að hafa valið að skrifa hana svona. Aðrar persónur eru einnig vel skapaðar og sýnir höfundurinn okkur í gegnum þær hvernig viðhorf samfélagsins var gagnvart konum og öðrum minnihlutahópum á þessum tíma. Ég hefði þó viljað sjá aðeins meira inn í hug fleiri persóna til að skilja þeirra lífsviðhorf, það var til dæmis sérstaklega ánægjulegt þegar höfundurinn gaf Guðrúnu dóttur Grímu orðið.

Ég mæli með Grímu fyrir þá sem vilja kynna sér betur hlutskipti kvenna í fiskiþorpum um miðja síðustu öld, ég tel að aðdáendur bóka Kristínar Marju Baldursdóttur um Karítas gætu haft sérstaklega gaman af henni. Svo verður að nefna að lokum að kápan eftir Arndísi Lilja Guðmundsdóttur er einstaklega falleg.

Lestu þetta næst

Glöggt er gests augað

Glöggt er gests augað

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði,...

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....

Fangelsi hugans

Fangelsi hugans

Hvað ef þú værir geimvera? Og geimskipið þitt hefði skilið þig eftir á jörðinni, í venjulegri,...

Anniemenni

Anniemenni

Anniemenni (e. Annie bot) eftir Sierra Greer  Annie er vélmenni. Hún er með hleðslustöð í hælnum,...

Með iðrun úti

Með iðrun úti

Þrjár stúlkur á sautjánda ári pyntuðu skólasystur sína og kveiktu í henni í rólega breska...