Jöklar, einstaklingshyggja, loftslagið og fríríkið í Breiðárbragga

Kristín Helga Gunnarsdóttir sendir frá sér Fjallaverksmiðju Íslands, í jólabókaflóðið í ár. Kristín Helga hefur áður sent frá sér bækur líkt og Vertu ósýnilegur: Flóttasaga Ishmaels, sögurnar um FíuSól og ótal fleiri barna- og unglingabækur. „Ég skoða einstaklingshyggjuna í þessari bók, velti fyrir mér því rými sem henni er gefið í veröldinni og hver kostnaðurinn er,“ segir Kristín Helga og bætir við að Fjallaverksmiðjan sé á vissan hátt sjálfstætt og algjörlega óháð en eðlilegt framhald af Vertu ósýnilegur. „Heimsmynd okkar breytist hratt. Við göngum hátt í Alpafjöll með bakpoka og flýjum hversdagsleikann en mætum flóttafjölskyldum með plastpoka sem leita hversdagsleikans. Í  bókinni um Ishmael er undirliggjandi spurningin um það hverjir keyra í raun og veru áfram styrjaldir og hvernig þær brjótast út. Í Fjallaverksmiðjunni má spyrja sig hverjir keyra áfram neysluvélarnar sem kalla yfir okkur hækkandi hitastig á jörðinni, súrnun sjávar og hraðari bráðnun jökla. Kannski eru þau öfl býsna tengd. Alltént þarf að ræða það og skáldskapurinn er dásamlegt verkfæri til að reyfa stóra samhengið í veruleikanum.“

Hvað er Fjallaverksmiðja Íslands?

Fjallaverksmiðja Íslands er lauslegt hagsmunabandalag sjö ungmenna. Hvert um sig hefur mismunandi ástæður fyrir því að vilja staldra við um stund og ganga ekki inn í hefðbundið lífsmynstur sem bíður þeirra allra eftir skóla. Kannski er Fjallaverksmiðjan nokkurskonar “stikk” eða “borg” – tímabundið athvarf eða fríríki. Hún hefur afar ólíka þýðingu og vægi í hugum sjömenninganna. Sumir telja sig vera að breyta heiminum á meðan aðrir eru aðeins að upplifa óvenjulegar og ævintýralegar aðstæður um stundarsakir. En Fjallaverksmiðjan þróast og breytist á einu sumri. Hún verður upplifunarkostur og loks eftirsóknarverð söluvara, líkt og ganga eftir Jakobsvegi og gisting í strákofa á strönd. Og upplifunin verður annað og meira, felur í sér boðskap og tilfinningu fyrir ferðalang um að tilheyra um stundarsakir einhverju sem hann yfirgefur svo þegar draumi lýkur.

Hvaðan kemur hugmyndin að Fjallaverksmiðjunni?

Kristín Helga fyrir utan Breiðárbragga, sem spilar stóra rullu í bókinni.

Okkur þyrstir í að upplifa ævintýri, veljum okkur ævintýri sem hæfa löngun og getu. Þannig fer ég á fjöll, og þegar mér nægja ekki íslensk fjöll finn ég útlensk fjöll og draumurinn stækkar og breytist. Og hinir efnameiri leggja línur. Þeir finna sér munað sem fjöldinn sækist svo eftir. Þannig verður sá munaður að lokum hversdagslegur og þeir auðugu þurfa að finna sér nýjan munað sem aðskilur þá og skilgreinir. Og troðningur skapast á tindi Everest á miðvikudagsmorgni þar sem auðkýfingar standa í röðum með leiðsögumönnum sínum til að snerta himininn og guð í leiðinni. Og allir þurfa að komast allt. Þannig finnum við alltaf eitthvað nýtt til að sækjast í, verða sólgin í og æst í að upplifa. Manneskjan er neysludýr og neysluvaran þarf að hreyfa við öllum skynfærum. Þannig var spennandi að skoða í Fjallaverksmiðjunni hvort neysluvaran gæti líka verið hugmyndir, hvort hún gæti verið ein stelpa sem hreyfir heiminn með stórum orðum og jafnvel með sannleikanum, eins og Gréta Thunberg  gerir. Gæti það orðið neysluvara að fá að upplifa veruleika annarra um stund og hvernig myndum  við þá vinna úr þeirri neyslu? Hvert myndi það leiða okkur? Er allt til sölu? Líka draumarnir?  Þannig fæddist Fjallaverksmiðjan eins og hún er í bókinni, og auðvitað aðalpersónan Emma sem byggir sína hugmyndafræði mikið á málflutningi Grétu.

En grunnurinn að Fjallaverksmiðjunni er samt sá að ég ferðast mjög oft með manni mínum í öllum veðrum norður í land. Stundum er ég veðurhrædd og þá prjóna ég til að róa taugarnar. Þannig fór ég að prjóna fjöll og jökla og nota íslenskan lopa eins og vatnsliti til að tjá upplifun af hinu og þessu landslagi. Prjónaði mig yfir heiðarnar á meðan eiginmaðurinn keyrði staðfastur.  Nú, það vildi svo til að þessir lopaskúlptúrar nýttust vel sem húfur og þar sem ég ruddi frá mér hálendishúfum fékk fyrirbærið fljótlega nafnið Fjallaverksmiðja Íslands. Þeir sem voru svo heppnir að fá jökul eða fjarskafjall, eldfjall eða álfhól úr Fjallaverksmiðjunni voru krýndir fjallverðir. Þetta var nú hálfgerður samkvæmisleikur þar til einhver stakk uppá að ég seldi fjöllin. Það þótti mér erfitt því mér fannst Fjallaverksmiðjan mín vera áróðursverksmiðja fyrir  náttúruvernd en ekki gróðamaskína. Svo fór fólk að tala um að láta prjóna fjöllin mín í Kína, en það þótti mér afleit hugmynd. Þó fór svo eitt sumar að þau voru til sölu í Þjóðminjasafninu og Fjallakofanum og líka í Hellisheiðarvirkjun. Við höfðum þau mjög dýr svo þau myndu ekki seljast og fengju að standa eins og skúlptúr og minna á hálendið. En þau seldust samt svo þá ákváðum við að hætta þessu, við mamma, því hún var orðin verksmiðjustúlka í þessari Fjallaverksmiðju. Svona getur byltingin étið börnin sín- og nú gerum við bara fjöll fyrir þá sem standa vörð um náttúruna og dýrðina.

Fyrir hvaða aldurshóp er bókin skrifuð?

Ætli þessi bók sé ekki ætluð þeim sem nennir að lesa hana. Ég hef alltaf átt mjög erfitt með að setja aldursmörk á verk mín. Mér finnst það vera neyslustýring sem ég tel mér skylt að sporna við, eða að minnsta kosti langar mig ekkert að auðvelda þannig markaðsstjórnkerfi að flokka sögurnar mínar í box. Að því sögðu finnst mér best þegar verkin mín leiða af sér samtöl um hitt og þetta og alls ekki verra ef þau samtöl geta átt sér stað á milli aldurshópa. Þess vegna skilgreini ég alltaf sögurnar mínar sem fjölskylduverk. Þessi saga er um krakka sem eru flestir nýskriðnir úr framhaldsskóla og eru um og innan við tvítugt. Svo er þarna einn fjórtán ára strákur líka og eitthvað af fullorðnu fólki, eða fólki sem á að teljast fullorðið. Auðólfur er til dæmis ósköp brotinn og lítill drengur þótt hann sé orðinn fertugur. En hvað varðar Fjallaverksmiðju Íslands þá finnst mér auðvitað skemmtilegast og gagnlegast að eiga samtal við ungt fólk sem er að fá þennan hnött í fangið, þarf að grípa, halda fast og hlaupa áfram. En ef einhver yngri en tólf ára nær að þræla sér í gegnum hana, svo ekki sé nú minnst á eldri en tuttugu og fimm ára, þá er ég alsæl. Það er alltaf gaman að brjóta niður markaðsmúra og eiga samtal við fólk án aldursmarka. Þannig á listin að vera. Markalaus og fljúgandi á milli fólks. Við erum bara manneskjur og þurfum sögur til að spegla okkur, ræða og finna fyrir sjálfum okkur.

Það eru mörg stór mál til umræðu í bókinni. Eru einhver skilaboð sem þú vilt senda til lesenda?

Jú, það eru mörg stór mál til umræðu í bókinni, bara eins og í lífinu. Kannski eru einhver skilaboð í sögunni og þá helst um samtal og upplýsingu. Þessi saga er auðvitað um náttúruvernd. Hún er um loftslagsmál og landgæði, en hún er líka um græðgi og völd og breyskleikann í mennskunni. Hún er um þessa sterku krafta sem keyra veraldarverkið áfram, en líka um það að trúa á vonina og kærleikann. Auðvitað eru örlög Emmu samtvinnuð örlögum jarðar. Þar má finna einhvern boðskap, en ég vona að ég nái að ganga hringinn í kringum málin, leggja fram sjónarmiðin og samtölin. Þarna eru mjög mörg samtöl sem ég hef sjálf hlustað á eða átt aðild að þar sem tekist er á um gildi og lífsviðhorf. Boðskapurinn er kannski fyrst og fremst að vekja til umhugsunar. Þannig langar mig ef til vill að Fjallaverksmiðjan geti verið verkfæri til samtals. Er það ekki líka tilgangurinn með skáldskapnum? Ein spurning verður áleitnari þegar ég les eða heyri sögur: Hvert er erindið við mig? Sumar sögur skilja mann eftir með nýjar hugmyndir. Stundum hafa gamlar hugmyndir breyst. Og svo kemur fyrir að sagan skilur við lesandann með galopna taugaenda. Það er gott. Allt sem hreyfir er gott.

Myndirnar sem marka kaflaskil ramma inn fegurð jöklanna. Hvaðan koma myndirnar?

Myndirnar í bókinni koma úr fjölskyldusafninu. Flestar þeirra eru í eigu dóttur minnar, Erlu Guðnýjar Helgadóttur, sem er jöklaleiðsögumaður og jöklafræðingur. Hún er í þeirri sérstöku aðstöðu að sjá vinnustaðinn sinn hverfa hratt. Þarna eru líka myndir af Breiðárbragga á Breiðamerkursandi. Hann er í eigu Jöklarannsóknarfélags Íslands. Ég yfirtók braggann í skáldsögunni með góðfúslegu leyfi formanns Jöklarannsóknarfélagsins en hef skilað honum aftur óbreyttum. Kollegi minn og vinur, Andri Snær Magnason, vitnar oft í Baba Dioum, skógarverkfræðing frá Senegal sem sagði: ,,Að lokum munum við aðeins vernda það sem við elskum. Við elskum aðeins það sem við skiljum. Við skiljum aðeins það sem okkur er kennt.” Þannig fór ég ung á fjöll með foreldrum mínum og lærði að elska hálendið, öræfaandann og einveruhljóðin- lærði að þarfnast þeirra. Því miðla ég svo áfram til minna. Fjallaverksmiðjan er því mjög persónuleg saga þótt hún fjalli um stóru málin í heiminum. Hún stendur mér og mínu fólki afar nærri og geymir flest af því sem við ræðum alla daga heima við eldhúsborðið og höfum gert svo lengi.

 

Hér fyrir neðan er örstuttur kafli úr bókinni:

Þyrlur lentu á jöklinum. Ferðamenn stigu frá borði. Auðkýfingar utan úr heimi, matreiðslumenn og fylgdarlið. Móri og Emma buðu fólk velkomið. Þau höfðu gengið upp jökulsporðinn með útbúnað og beðið eftir þyrlunum. Nú útdeildu þau ísbroddum og beltum fyrir stutta göngu á ís. Emma flutti kynningu um jöklana og hversu langt þeir hopuðu á örskömmum tíma, um það hvernig þeir voru og hvernig þeir verða, um árnar og allt þetta lifandi land. Hún hafði flutt þennan fyrirlestur oft en gerði það alltaf af sömu ástríðu.

– Jökullinn er vatnsgeymsla og forðabúr en hann geymir líka fegurðina, hjúpar eldstöðvarnar og hjarta landsins. Jöklarnir eru hitamælar. Þeir segja okkur best hvernig jörðinni líður, sagði hún í lokin og komst aðeins við, eins og hún gerði alltaf þegar hún talaði um náttúruna. Viðstaddir fundu það og hún snerti þá með orðum sínum.

Í kjölfarið fengu þau spurningar, sumar gáfulegar og aðrar ekki. Elskulegur auðjöfur frá framandi stórborg setti á sig ísbrodda. Hann tók nokkur hikandi skref.

– Eins og Armstrong á tunglinu, tautaði hann, en sneri sér svo að Emmu. Er ég að skemma og flýta fyrir bráðnun með því að ganga á jöklinum?

Hann spurði í fyllstu einlægni, hafði raunverulegar áhyggjur og vildi ekki að sporið hans skaðaði.

Stjáni hafði sérstaklega beðið Emmu að spara stóru orðin, sleppa því að ræða pólitík, fara á mjúkstillingu, eins og hann orðaði það. Augun í Emmu stækkuðu og nasavængirnir voru við það að þenjast út þegar Móri steig snarlega inn.

– Nei, alls ekki, sagði hann elskulega. Það er svo margt annað, stærra og meira sem eykur á bráðnun jökla.

– Já, þú meinar, svaraði ferðamaðurinn hugsi.

Emma og Móri sátu þögul á melnum. Á milli þeirra var rauðvínsflaska sem ferðamaður gaukaði að þeim áður en hann steig upp í þyrlu sem flutti hann ásamt föruneyti til borgarinnar. Þar beið einkaþota sem flaug áfram með hóp auðkýfinga á heimsferðalagi.

– Fáðu þér meira, sagði Móri og hellti rauðvíni í bolla Emmu. – Gerðist þetta? stundi Emma.
– Já, Móri hló við. Þetta var eitthvað.
– Eitthvað yfirgengilegt, andvarpaði Emma og saup á víni. – Ekki þamba. Þú færð aldrei aftur svona dýrt vín, sagði Móri og hellti í bollann. Þessi flaska kostar eins og flugmiði til London, fram og til baka, bætti hann við.

***

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...