Ástaróður til Vatnajökuls á tímum hamfarahlýnunar

Sá Stóri Hvíti er afkomandi Íslands.

Þegar hann fer, deyr ekki aðeins hann út,

Ættarhöfðingi eyjunnar,

Heldur einnig allur ættbálkur hans.

Dimmumót er nýjasta ljóðabók úr smiðju Steinunnar Sigurðardóttir og kemur út á hálfrar aldar höfundarafmæli hennar, en fyrsta bók hennar, Sífelllur, kom út árið 1969. Ljóðabókin er stórkostlegt verk um náttúruna okkar á tímum hamfarahlýnunar, nýyrði sem Steinunn á heiðurinn af sem hefur hratt fest sig í sessi. Það er viðeigandi að umsögnin aftan á bókini er eftir Helga Björnsson jöklafræðing sem segir að “ljóðin…styrkja þá trú mína að það verði listamenn fremur en fræðimenn sem ná að koma vitinu fyrir jarðarbúa.” Helgi hittir þarna naglann á höfuðið en maður getur ekki annað en orðið meir og djúpt snortinn við lestur á bókinni.

Dimmumót samanstendur af um fjörutíu ljóðum en rauði þráðurinn í þeim öllum er hverfandi jöklar landsins og hamfarahlýnun. Fyrsta ljóðið stendur sjálfstætt og setur tóninn fyrir bókina:

Það líður hjá  Það gengur yfir

Rigningarskúrin  Barndómur  Fyrri og síðari

Óendanlegir dómar  Líka þeir  Líða hjá

Veturinn, meiraðsegja fyrir norðan, gengur yfir –

Og veturinn þar á eftir, þótt seint fari

Eins líður flensan hjá, ástsýki, hiksti

Og það sem ótrúlegast er, Eilífðarfjallið mitt ljósa, líður líka hjá

Þessi eyja á eyjunni sekkur í Grjóthafið

Þessi kastali úr snjóhvítu rósunum þiðnar

og verður að rambandi haug

Það er Fullkomnað  Endanlegt  Eilífðarlok

Við taka svo kaflarnir: Það kemur í ljós, Ísfjallið rambar, Raddir úr vatna-jökla-sveitum, Að vatni verður, Jöklabörn, Flæðisker og Það hverfur. Ljóðin eru sögð frá nokkrum mismunandi sjónarhornum en eru meðal annars með sjálfsævisögulegu ívafi þegar Steinunn lýsir æskuminningum í návist jökla og hvernig hún sjálf hefur upplifað áhrif hamfarahlýnunnar á æviskeiði sínu.

Þetta er tíunda ljóðabók Steinunnar og ber þess merki að vera skrifuð af reynslumiklu skáldi með einstaka þekkingu af íslensku máli, en titillinn Dimmumót er dreginn af skaftfellska orðinu yfir ljósaskipti (svo sagði Steinunn í viðtali á RÚV). Bókin er á persónulegri nótum en Steinunn er vön að skrifa á, og styrkir það tengsl lesandans við þau; Steinunn er ekki að tala á almennum nótum um áhrif hamfarahlýnunar á jökla, heldur um hvað hún hefur upplifað gríðarlegar breytingar á sínu æviskeiði. Ég tek undir með Rebekku Sif að það er undirliggjandi sorg í textanum, en einnig aðvörunartónn um að nú verðum við að bregðast við: í dag eru jöklarnir ekki eilífir.

Dimmumót er ljóðabók sem hægt er að mæla með bæði fyrir ljóðaunnendur, sem og þá sem sjaldan grípa í ljóð, myndmálið er aðgengilegt samtímis því að bera með sér þýðinarmikinn undirtón. Þetta var fyrsta ljóðabók Steinunnar sem ég las og hlakka ég mikið til að kynna mér fyrri verk hennar, sem og að njóta þess að glugga aftur í ljóðin í Dimmumótum og spá áfram í þau um ókominn tíma.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...