Tilfinningabyltingin er einn flottasti bókartitillinn í flóðinu að mínu mati. Svo fallegt og yfirþyrmandi orð í senn. Rithöfundinn Auði Jónsdóttur þarf vart að kynna en hún er meðal annars þekkt fyrir bækurnar Fólkið í kjallaranum, Ósjálfrátt og Stóra skjálftaHún er einnig vinsæll pistlahöfundur og hefur vakið athygli fyrir skrif sín um allan heim.

Í bókinni vinnur Auður með sannsagnaformið sem einnig má kalla skáldævisagnaformið. Þetta er vandmeðfarið þar sem höfundar vinna með mörk raunveruleikans og skáldskaparins, en formið er gífurlega vinsælt þessa dagana. Bækur á borð við Skegg Raspútíns eftir Guðrúnu Evu Mínevrudóttur og Týnd í paradís eftir MIkael Torfason (Hér má lesa enn frekar um sannsögur).  Í upphafi bókar er ítarlegur fyrirvari um innihald bókarinnar en þar segir m.a. „Sannsögu þessa skal lesa með gleraugum skáldskapar því hugurinn er þannig gerður að skálda lífið stöðugt eftir hughrifum og þörfum. […] Öll orðin hér eru, þrátt fyrir allt, skáldskapur. Við erum stöðugt að skálda lífið!“ (Tilfinningabyltingin) Því verður hér fjallað um Tilfinningabyltinguna með skáldskapargleraugunum.

Litróf tilfinninga

Tilfinningabyltingin fjallar um konu sem skilur við manninn sinn eftir 18 ára hjónaband. Þau eiga ungan dreng saman sem konan vill vernda með öllum sínum mætti. Líf hennar umturnast þegar hún tekur þá ákvörðun að ganga inn í framtíðina einhleyp og þarf að takast á við óöryggi, blygðun og jafnvel skömm. Litróf tilfinninga sem fylgja því að enduruppgötva sjálfa sig. „Að skilja við maka er að skilja við sjálfa sig. Því í hjónabandi verður til heimur og hjónin eru þessi heimur; að stíga út úr heiminum þýðir að stíga út úr sjálfri sér.“ (bls. 134) Sjálfsmynd konunnar byggist á þessu sambandi sem hún er nú að syrgja. Hún er einnig að syrgja horfið sjálf, því hver er hún nú? Hún hittir einkennilegan bisnessmann sem kemur inn og út úr lífi hennar á þessu umrótartímabili. Hann verður einhverslags pennavinur hennar og í gegnum skrifin til hans uppgötvar hún margt um sjálfa sig.

„Skyndileg unglingaveiki“

Konan endurnýjar kynni sín við gamlar æskuvinkonur sem margar hverjar eru skilnaðarsystur hennar. Hún líkir tilfinningarótinu við unglingaveiki eða maníu „Hún fylgdist með þeim sigla í gegnum svipað öldurót og hún; ýmist í örri maníu eða lamandi kvíða, ótta fyrir óvissunni eða eftirvæntingu yfir nýjum spennandi möguleikum. Allar að dansa, drekka, vinna frá sé vitið og troða marvaðann við að koma sér upp nýrri tilveru í skyndilegri unglingaveikinni.“ (bls. 161) Konan fer allt í einu að stunda djammið aftur og fær sér meira að segja á einum tímapunkti gulláskrift á Tinder, sem hún borgaði fyrir með kreditkorti systur sinnar. Mörg atvikin í bókinni eru skondin en það er þó sorgin og sársaukinn sem er gegnumgangandi þema, sagan verður oft á tíðum svolítið tragikómísk.

Barátta til að standa á eigin fótum

Tilfinningabyltingin fjallar einnig um baráttu – baráttu til að halda rödd sinni, halda í ástríðu sína til að lifa af. Konan hellir sér í verkefni sem hjálpa henni að halda í sjálfa sig, hún er enn rithöfundur, hún getur staðið á eigin fótum og unnið fyrir sér og syni sínum. Yfir henni vofir dómsmál þar sem henni var stefnt fyrir orð sín, en þetta mál kannast margir við úr fjölmiðlum. Sem lesanda líður manni eins og maður sé að kíkja „bak við tjöldin“ því í bókinni er stöðugt verið að vísa í samtímamál, mál sem voru í fréttunum og umræðunni. En! Skáldskapargleraugun verður að pússa vel til að týnast ekki í raunveruleikanum, en oft gleymir maður sér og byrjar að lesa bókina sem ævisögu. Það er spurning hvort það sé óheppilegt eða ætlun höfundar?

Tilfinningabyltingin er opinská, einlæg og kryfur til mergjar tilfinningarússíbanann sem fólk upplifir þegar það skilur við maka sinn til fjölda ára. Það er einnig svolítil ungæðisleg kátína og vandræðaleiki í bókinni sem gleður lesandann inn á milli dramatískari lýsinga og atburða. Spurning er þó hvort að það gangi upp að kalla svona mikla sannsögu, skáldsögu?

 

 

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...