Þrúður tekst á við skrímsli í myrkrinu

Þriðja bókin um Þrúði hina átta ára, eftir Guðna Líndal Benediktsson, kom út fyrir jólin. Bækurnar um Þrúði heita jafnan ævintýralega löngum nöfnum og þessi bók er engin undantekning. Stelpan sem sigldi kafbát niður í kjalla (og lenti í sápufólki og smáninjum) er myndskreytt af Ryoko Tamura líkt og fyrri bækurnar.

Í Stelpan sem sigldi kafbát niður í kjallara fara foreldrar Þrúðar út að skemmta sér og skilja hana eftir í pössun hjá stóru systurinni. Það besta við þetta kvöld er þó að Þrúður fær tvo vini, Palla og Heiðu, í náttfatapartý. Stuttu eftir að náttfatapartýið hefst slær rafmagninu út og Jói hundur hverfur á dularfullan hátt. Að sjálfsögðu veldur myrkrið glundroða meðal vinanna, sem þó ákveða að vinna saman að því að koma rafmagninu á aftur og bjarga Jóa hundi. Vísbendingar um hrottalegt skrímsli með glampandi augu setur þó vinina enn frekar út jafnvægi og áður en þau vita eru þau komin í kafbát á leið niður í kjallara.

Ferðalagið með Þrúði um heim ímyndunaraflsins er alltaf framúrskarandi skemmtilegt. Teikningar Ryoko skapa ótrúlega dýpt í bráðskemmtilega sögu sem er bæði fyndin og spennandi í senn. Það er líka skemmtilegt að sjá hvernig Ryoko kemur Guðna og sér sjálfri að í teikningunum sem persónum og öðrum fígúrum. Það gerir bókina enn persónulegri og skemmtilegri. Þar að auki leynast leyndarmál á hverri síðu sem gerir það að verkum að hægt er að sitja með bókina tímunum saman (mínútunum saman þegar átt er við um börn) til að leita að einhverju nýju skemmtilegu smáatriði.

Til allrar hamingju fer allt vel að lokum hjá Þrúði og vinum hennar – þökk sé sápufólkinu sem hjálpar við stjórn kafbátsins og þrátt fyrir hinar bráðskemmtilegu smáninjur. Það kemur líka í ljós að stundum eru hlutirnir meira ógnvekjandi í myrkrinu, rétt eins og hugmyndir geta verið ógnvekjandi þegar maður skilur þær ekki. Fræðist maður þó, eða kveikir ljósið, kemur í ljós að það sem maður hélt að væri skrímsli er bara lúinn flækingsköttur.

Bókin hentar vel til aflestrar fyrir börn frá þriggja til átta ára og börn og foreldrar ættu að geta haft jafn gaman að bókinni.

Lestu þetta næst

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...