Ævintýraleg ævi Sonju de Zorrilla

Sonja Wendel Benjamínsson de Zorrilla er líklega sú íslenska kona sem orðið heimskona á best við. Hún fæddist í Reykjavík árið 1916 en hugurinn leitaði hratt út fyrir landsteina. Sonja fluttist erlendis þegar hún var ennþá á menntaskólaaldri. Fyrst fór hún til Danmerkur en fluttist þaðan til Þýskalands á valdatíð Hitlers, síðar fór hún til London þar sem hún lifði meðal annars vetrarlangt á Ritz hótelinu og við upphaf síðari heimsstyrjaldar bjó hún í París þar sem hún var Coco Channel málkunnug. Sonja slapp svo með naumindum frá stríðslogandi Evrópu til New York þar sem hún haslaði sér völl á Wall Street og átti í ástarsamböndum við heimsfræga menn, þeirra á meðal skipakónginn Aristóteles Onassis sem síðar giftist Jacqueline Kennedy. Þessi ævilýsing er ef til vill farin að hljóma eins og skáldskapur en svona ótrúlegt var lífshlaup Sonju sem Reynir Traustason ritaði. Þessi bók sem kom út árið 2002 hefur elst vel og get ég mælt með henni fyrir alla sem hafa gaman af lygilegum ævisögum.

Sonja – líf og leyndardómar Sonju W. Benjamínsson de Zorrilla hefst á setningunni “Konur vilja helst ráða sér sjálfar” og í fyrsta kaflanum lýsir Sonja því hvernig hún hefur haft þessi orð ömmu sinnar að leiðarljósi frá því að hún var unglingur og fer hratt yfir lífshlaup sitt. Restin af bókinni er sett upp í hefðbundnum ævisögustíl og lífshlaupi Sonju lýst frá upphafi til enda. Sonja var komin af efnuðu fólki og hafði því fleiri tækifæri en margir aðrir Íslendingar á þessum tíma til þess að mennta sig og fara út í heim. Engu að síður var hún frábrugðin íslensku vinkonum sínum sem voru með henni á húsmæðraskóla í Danmörku eða í námi í London, hún vildi vera sinn eigin herra og hafði enga löngun til að flytja heim.

Reynir skrásetti söguna ákaflega vel, við lok hennar líður manni eins og maður hafi raunverulega kynnst Sonju sem segir á hispurslausan hátt frá upplifunum sínum og samböndum. Það er sérstaklega merkilegt í ljósi þess að Reynir og Sonja hittust aldrei í persónu. Sonja var flutt til Íslands til að eyða þar ævikvöldinu þegar þau hófu samræður sínar sem síðar urðu hluti að bókinni. Það stóð alltaf til að þau skyldu hittast og ræða saman en Reynir lýsir því í eftirmála bókarinnar að eitt og annað hafi verið því til fyrirstöðu, eitt skipti sagðist Sonja til dæmis eiga eftir að fara í hárgreiðslu og því gætu þau ekki hist. Aldrei varð því að fundi þeirra, en þess í stað ræddu þau saman í síma í fimmtán mánuði, næstum daglega og stundum oft á dag.

Ég sökk djúpt í frásögnina af lífi Sonju og þótti sérstaklega áhugavert að lesa minningar Sonju um tímann á meginlandi Evrópu við uppgang seinni heimsstyrjaldinnar. Það eru fáar ef einhverjar íslenskar konur af hennar kynslóð sem höfðu möguleika og hugrekki til að elta drauma sína. Mér fannst bókin aðeins missa dampinn við miðbik hennar en svo fannst mér hún ná sér aftur á strik þegar Sonja lýsir ferðum sínum aftur til Íslands eftir hálfrar aldar fjarveru þegar hún fer að rækta tengsl sín við landið og fólkið sitt.

Ég naut þess verulega að lesa um líf Sonju, hún lifði einstöku lífi og var frumkvöðull. Mér þótti virkilega gaman að ræða bókina við mömmu sem hafði lesið hana skömmu eftir útgáfu. Bókin er raunar tilvalin til umræðu í bókaklúbbum, enda var Sonja mikill karakter og eflaust ekki allra. Samræður geta því orðið mjög líflegar. Áhugasamir lesendur gætu einnig haft gaman af því að horfa á viðtal við hana á youtube tekið árið 1994 til að heyra rödd hennar og talanda.

 

Lestu þetta næst

Ljóskastari ofan í moldina

Ljóskastari ofan í moldina

Sunna Dís Másdóttir hefur um árabil starfað sem rithöfundur og gaf hún meðal annars út ljóðabókina...

Bók um ást og hlýju

Bók um ást og hlýju

Núna á dögunum kom út bókin Ástin mín eftir Astrid Desbordes. Hún býr í París þar sem hún vinnur...

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...