Vetrargulrætur, nýtt smásagnasafn eftir Rögnu Sigurðardóttur kom út síðasta haust og fékk góðar viðtökur. Gagnrýnendur Kiljunnar sögðu bókina meðal annars með stærri tíðindum í jólabókaflóðinu 2019.
Vetrargulrætur er samansafn fimm sagna, bókin hefst með sögu í Reykjavík árið 2019 en fer svo aftur á bak í tímaröð þar til síðasta sagan gerist á átjándu öld. Sögurnar snúast um mismunandi einstaklinga, á mismunandi tíma og stöðum; Í Reykjavík týnir kona sem vinnur á frístundarheimili barni; ungur myndlistarmaður í Hollandi reynir að kveikja gleði í lífi kærustu sinnar á ný; myndlistarkona finnur sína leið í úthverfi Reykjavíkur á sjötta áratug síðustu aldar; flóttakona frá Þýskalandi birtist á heimili gamallar vinkonu sinnar í Reykjavík við upptök seinni heimsstyrjaldar. Í fimmtu og síðustu sögunni kemst unglingsdrengur á átjándu öld í Eyjafirði í kynni við ákveðið fyrirbæri í fyrsta sinn. Rauði þráðurinn í sögunum er að þær snúast um skapandi einstaklinga sem eiga það sameiginlegt að rækta drauma sína og skapa eigið líf.
Ragna Sigurðardóttir hefur sent frá sér sex skáldsögur, smásögur og ljóð og var hún tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir skáldsöguna Borg. Þetta smásagnasafn er hins vegar fyrsta verkið eftir hana sem ég les.
Smásögur eru að mínu mati eitt erfiðasta formið til að skrifa; þær fela venjulega ekki í sér byrjun, miðju og enda, heldur virka frekar eins og skjáskot inn í líf og tilfinningar aðalpersóna.
Rögnu tekst einmitt mjög vel til í þessu safni að gefa innsýn í sterkar tilfinningar í fjölbreyttum aðstæðum. Sögurnar eru í lengri kantinum eða u.þ.b. fimmtíu síður hver sem gefur lesenda tækifæri á að kynnast persónunum ágætlega. Það að staðsetja sögurnar (fyrir utan þá fyrstu) í fortíðinni braut upp formið og gaf lesendaupplifuninni meiri lit. Mér fannst sögurnar bara verða betri því lengra inn í bókina sem ég las. Ég hugsa að hver og einn lesandi muni eiga sínar uppáhalds sögur, fyrir mér stóðu þriðja og fjórða sagan upp úr; sögurnar sjálfar voru ekki einungis afbragðsgóðar, heldur fannst mér ég fá innsýn í tíma á Íslandi sem ég hafði ekki mikið pælt í áður. Síðustu söguna tengdi ég ekki jafn mikið við enda gerist hún á tíma sem hvorki ég né neinn sem ég þekki lifði. Mér fannst þó aðdáunarvert hjá Rögnu að hafa sögu í safninu sem gerist við lok átjándu aldar og finna jafn frumlegt umfjöllunarefni og hún gerði.
Smásagnasöfn geta verið frábær því það má alltaf kippa í þau og lesa sögu í einum rykk. Galdurinn við þau er að stundum situr meira eftir í manni eftir lestur á einni smásögu en eftir heila skáldsögu. Mér fannst það vera raunin við Vetrargulrætur. Ég tek undir þá gagnrýni að þetta sé með betri bókum sem komu út á liðnu ári og mæli ég með því að lesendur Lestrarklefans kynni sér hana. Svo skemmir ekki fyrir hvað kápan á bókinni er falleg, en Ragna, sem er menntaður myndlistarmaður, málaði myndina á henni.