Bergrún Íris, Sölvi Björn og Jón Viðar hlutu Íslensku bókmenntaverðlaunin

Íslensku bókmenntaverðlaunin voru afhent á Bessastöðum í gærkvöldi og fóru Bergrún Íris Sævarsdóttir, Sölvi Björn Sigurðsson og Jón Viðar Jónsson úr húsinu með verðlaunagripina.

Bergrún Íris hlaut verðlaunin í flokki barna- og ungmennabóka fyrir bók sína Lang-elstur að eilífu sem er þriðja bókin um ævintýri Eyju og Rögnvalds. Eyja þarf að takast á við dauða Rögnvalds, en það er níutíu ára aldursmunur á þessum bestu vinum. Í umsögn dómnefndar sagði:

Í bókinni Langelstur að eilífu er fjallað á hispurslausan hátt um elli, dauða og sorg. Þessu viðkvæma efni eru gerð afar falleg skil í bæði texta og myndum sem miðla sögunni í sameiningu. Þetta er áhrifarík en jafnframt hnyttin og skemmtileg bók um þarft umfjöllunarefni fyrir börn.

Bergrún Íris hlaut einnig Fjöruverðlaunin fyrir bókina og hefur verið tilnefnd til barnabókaverðlaun Vestnorrænaráðsins.

Sölvi Björn Sigurðsson hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fagurbókmennta fyrir bók sína Selta: apókrýfa úr ævi landlæknis. Í umsögn dómnefndar segir:

Frumleg og áhrifarík saga sem fer víða með lesandann í tíma og rúmi, yfir vötn og lönd en ekki síður innansálar. Hið ytra er frásögnin sett niður fyrir tveimur öldum en jafnframt rambar hún á barmi raunveru og hugarflugs. Sögunni er valið málsnið sem hæfir bæði sögutíma og frásagnaraðferð og sýnir höfundur þar fágæta stílsnilld.

Sagan gerist haustið árið 1839 og segir frá póstburðarmanninum Mister Undertaker sem finnur óþekktan dreng við Hjörleifshöfða. Landlæknir fær það hlutverk að vekja drenginn til lífs. Saman ákveða landlæknir og Mister Undertaker að leita uppruna drengsins og í þeirri leit heldur tvíeykið í mikið ferðalag með drenginn og lenda í ýmsum ævintýrum.

Jón Viðar Jónsson hlaut svo verðlaunin í flokki fræðibóka fyrir bók sína Stjörnur og stórveldi á leiksviðum Reykjavíkur 1925-1965. Í bókinni er nýstárlegum aðferðum beitt til að varpa ljósi á merkan kafla í íslenskri leiklistarsögu. Höfundur segir sögu allra helstu leikara tímabilsins, greinir frá sigrum þeirra og ósigrum jafnframt því sem hann gerir valdabaráttunni að tjaldabaki ítarleg skil. Hann hefur kannað ógrynni heimilda við undirbúning verksins og dregur fram í dagsljósið margt sem legið hefur í þagnargildi allt til þessa dags. Í umsögn dómnefndar sagði:

Hér eru helstu stjörnurnar í leiklistarsögu þjóðarinnar á fyrri hluta 20. aldar dregnar lifandi og skýrum dráttum og list þeirra gerð ítarleg og góð skil. Þrátt fyrir að bókin byggi á köflum um einstaka leikara og leiksögu þeirra, gefur hún jafnframt samfellda og skýra mynd af fyrstu árum reglulegrar leiklistarstarfsemi hér á landi, ekki aðeins á leiksviðinu sjálfu heldur einnig í útvarpi og á bak við tjöldin og er því mikilvægt framlag til leiklistarsögu okkar.

Tilnefndir höfundar og bækur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2019 voru:

Fræðibækur og rit almenns efnis:

Jón Viðar Jónsson
Stjörnur og stórveldi á leiksviðum Reykjavíkur 1925 – 1965
Útgefandi: Skrudda

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir
Lífgrös og leyndir dómar – Lækningar, töfrar og trú í sögulegu ljósi
Útgefandi: Vaka-Helgafell

Páll Baldvin Baldvinsson
Síldarárin 1867-1969
Útgefandi: JPV útgáfa

Sigríður Kristín Þorgrímsdóttir
Jakobína – saga skálds og konu
Útgefandi: Mál og menning

Unnur Birna Karlsdóttir
Öræfahjörðin – Saga hreindýra á Íslandi
Útgefandi: Sögufélag

Barna- og ungmennabækur:

Bergrún Íris Sævarsdóttir
Langelstur að eilífu
Útgefandi: Bókabeitan

Arndís Þórarinsdóttir
Nærbuxnanjósnararnir
Útgefandi: Mál og menning

Hildur Knútsdóttir
Nornin
Útgefandi: JPV útgáfa

Lani Yamamoto
Egill spámaður
Útgefandi: Angústúra

Margrét Tryggvadóttir
Kjarval – málarinn sem fór sínar eigin leiðir
Útgefandi: Iðunn

Fagurbókmenntir:

Sölvi Björn Sigurðsson
Selta – Apókrýfa úr ævi landlæknis
Útgefandi: Sögur Útgáfa

Bergþóra Snæbjörnsdóttir
Svínshöfuð
Útgefandi: Benedikt bókaútgáfa

Bragi Ólafsson
Staða pundsins
Útgefandi: Bjartur

Guðrún Eva Mínervudóttir
Aðferðir til að lifa af
Útgefandi: Bjartur

Steinunn Sigurðardóttir
Dimmumót
Útgefandi: Mál og menning

Lestu þetta næst

Aðferðir til að lifa af

Aðferðir til að lifa af

Gáfaða dýrið er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur en bókin kom út núna á vormánuðum 2024. Sæunn er...

Verur sem þjást

Verur sem þjást

Dani er venjuleg kona. Hún er komin níu mánuði á leið með dóttur sína Lotte, hún var að flytja...

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.