Hlaðvarp fyrir unnendur hins ritaða orðs

Nú er komið nýtt hlaðvarp fyrir elskendur hins ritaða orðs, Blekvarpið! Blekvarpið er kennt við Blekfjelagið sem er nemendafélag meistaranema í ritlist við Háskóla Íslands. Í ritlistinni kynnast upprennandi höfundar allskonar leiðum til að þróa textana sína áfram og þjálfa ritvöðvann.

Blekfjelagið hefur staðið fyrir öflugu starfi frá stofnun þess með fjölbreyttum viðburðum á borð við upplestrum, skriftarkvöldum, skáldakvöldum og forlagsheimsóknum. Sumir þessi viðburðir eru opnir fyrir almenning en í lok febrúar hefst viðburðarröð Blekfjelagsins í samstarfi við Hressingarskálann.

Kveikjan að Blekvarpinu

Elin Edda Þorsteinsdóttir hannaði þessa glæsilegu kápu.

Blekvarpið fæddist í lok síðasta árs þegar Hefðir – Jólabók Blekfjelagsins kom út (hún fæst enn í Eymundsson og Bókabúð Máls og menningar). Í henni má finna 30 örsögur sem eru allar nákvæmlega 93 orð. Þegar fyrsta jólabókin leit dagsins ljós voru þau 100 en á ári hverju dettur eitt orð út, sem þýðir að í fyrra var sjöunda árið sem bókin var gefin út.

Í desember komu út átta hlaðvarpsþættir þar sem sögur úr Hefðum voru lesnar af höfundum (í flestum tilvikum). Þessa seríu má enn finna á öllum streymisveitum.

Háleit en framkvæmanleg markmið

Þegar janúar gekk í garð var stjórn Blekfjelagsins með háleit markmið varðandi hlaðvarp sem fjallaði um skapandi skrif og yrði vettvangur fyrir ritlistarnema til að lesa upp nýja (og gamla) texta.

Loksins hefur þessi draumsýn orðið að veruleika og fyrsti spjall- og upplestrarþáttur Blekvarpsins er kominn út! Hann ber yfirskriftina Hvað er ritlist? en þetta er algeng spurning sem ritlistarnemar fá í fjölskylduboðum og á förnum vegi. Það er algengur misskilningur að ritlist sé skrautskriftarnám eða íslensku- og málvísindanám. Það gæti nú ekki verið fjær sannleikanum.

Því miður er undirrituð alfarið hæfileikalaus þegar kemur að einhversslags myndlist.

Í ritlist fær skapandi fólk rými til að þroskast sem höfundar og getur sótt fjölbreyttar smiðjur í allskonar stílum, það eru m.a smiðjur þar sem skrifuð eru ljóð, örsögur, smásögur, fjölskyldusögur, kvikmyndahandrit, leikrit, ferðasögur og sannsögur (þetta er ekki tæmandi listi!). Oft eru kennararnir starfandi rithöfundar en það er Rúnar Helgi Vignisson sem er yfir deildinni. Aðra merka kennara sem má nefna eru t.d. Kristín Helga Gunnarsdóttir, Steinunn Sigurðardóttir, Huldar Breiðfjörð og Hlín Agnarsdóttir.

Hverju mega hlustendur búast við?

Í fyrsta þætti Blekvarpsins ræða Rebekka Sif Stefánsdóttir, Marinella Arnórsdóttir og Þuríður Sóley Sigurðardóttir, ritlistarnemar, þær stóru spurningar: Hvað er ritlist? Af hverju erum við í ritlist? Hvað fær maður út úr því að fara í ritlistarnám á meistarastigi? Svo er lesin upp smásaga eftir Gunnhildi Jónatansdóttur sem áður hefur verið gefin út í bókinni Það er alltaf eitthvað sem kom út hjá Unu útgáfuhúsi vorið 2019. Í lok þáttarins er svo hljóðbútur frá skriftarkvöldi Blekfjelagsins sem hefur yfirskriftina „Látum blekið leka”, en þar heyrast verk í vinnslu eftir Vigni Árnason og Núma Arnarson.

Blekvarpið er hægt að nálgast inn á öllum streymisveitum sem hafa að geyma hlaðvörp, þar á meðal Spotify og Apple Podcasts.

 

Þess má geta að undirrituð er formaður Blekfjelagsins og einn af stjórnendum Blekvarpsins. Pistill þessi er því alls ekki hlutlaust mat og óskammfeilin sjálfsauglýsing. Hlustið á Blekvarpið!

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...