Ég var einstaklega spennt að opna loksins ljóðabókina Hérna eru fjöllin blá eftir Melkorku Ólafsdóttur. Hún kom út síðasta haust í samfloti með Sítrónur og náttmyrkur eftir Ragnheiði Hörpu Leifsdóttur hjá Svikaskáldum. Ljóðabókin hefur staðið fallega stillt upp í bókahillunni minni síðan hún kom út, beðið eftir mér. Ég segi hér og nú að ég hefði átt að lesa hana miklu fyrr, enda hefur hún að geyma myndræn og tilfinningaþrungin ljóð sem snertu mig gífurlega mikið.
Melkorka Ólafsdóttir er ekki aðeins ljóðskáld heldur tónlistarkona og dagskrárstjóri tónlistar í Hörpu. Tvö ljóðahefti hefur hún áður gefið út, Unglingsljóð (2000) og Ástarljóð (2004), ásamt því að vera hluti af ljóðakollektívinu Svikaskáld sem hafa gefið út þrjár bækur.
Óvæntar tengingar og myndir
Ljóðabókinni er skipt í fimm hluta og er hver einasti hluti mjög sterkur. Í upphafi kynnist lesandi fljótt stíl og rödd ljóðmælanda. Ljóðin eru uppfull af óvæntum tengingum og skapandi myndmáli. Í ljóðinu „Sendingar“ dregur Melkorka upp sterkar myndir sem verða enn áhrifaríkari með endurtekningunni:
Vinkonu minni finnst
að fjöllin
fjöllin og hann
muni éta hana kæfa hana
kæfa hana fyrst éta hana svo
svo hún breytir þeim í pappír
brýtur þau rólega í tvennt og svo fernt
(Hér eru fjöllin blá, bls. 10)
Persónugervingar, myndhverfingar og draumkenndar tilfinningar einkenna ljóðin, „nú rótar tunglið upp nætursvefninum / og svartþröstur sleikir sár mín / með ótímabærum haustsöng“ (bls. 11) Þetta er einmitt það sem er svo heillandi og dáleiðandi við þessa ljóðabók. Orðfarið og myndlíkingarnar framandgera lífið, eins og í ljóðinu „Baugalín“ þar sem kona „sleikir sultardropa undir snjóþökum / þæfir uppvask / í opinmynntum eldhúsglugga“ (bls. 12). Myndirnar eru hressandi og koma lesandanum ítrekað að óvörum.
Veruleiki kvenna
Bókin er femínísk og er meginþema hennar veruleiki kvenna eins og við sjáum í ljóðinu „Komdu vinkona“: „Á hálffullu tungli / milli eggloss og blæðinga / ríðum við af stað / með storminn í hárinu // eins og við höfum gert / um aldir og alltaf“ (bls. 17). Þó er gefið í skyn að þeir, mögulega karlmennirnir, séu „vonarspírurnar / flækjast um fætur okkar“ (bls. 17), þ.e. kvennanna. Frjósemin og kvenleikinn spila stórt hlutverk, „Stundum er ég draugahús / þéttofin bergfléttu / íbúar mínir frjósemisgyðjur / framstignar úr ryki feðranna / góðhjartaðar skessur allra kynja / kattardýr og draumdýr“ (bls. 22).
Nýyrðasmíðin í bókinni er einstaklega falleg og verð ég einfaldlega að telja upp nokkur orð sem renna fallega í munni og vekja upp sterk hugrenningatengsl, „munúðarmánaskin“ (bls. 22), „svefntár“ (bls. 23), „djúpsjávarniður“ (bls. 24), og „morgunspegill“ (bls. 24). Orðin eru enn fleiri en það er í hlutverki lesandans að leita þau uppi og njóta þeirra.
Persónuleg og átakanleg ljóð
Ljóðin eru persónuleg og þá sérstaklega í kafla bókarinnar sem ber titilinn „egg“. Þar er sorg verðandi móður sem missir lýst í átaknlegu ljóðunum „Kona“ og „Sterk: „Þetta er ekki barn / þetta er uppþemba / þetta er ekki barn / þetta er önnur blóðug vika / annað regnbúið stræti / önnur skel sem ekki nær til lands / samansaumuð æska / og leit að tilgangi / fyrir gamlan líkama“ (bls. 36). Hér dregur ljóðmælandi fram kjarna sársaukans við að missa fóstur, missa þennan dýrmæta draum um barn. Ljóðinu „Sterk“ ætla ég að leyfa að standa hér og tala fyrir sig sjálft.
Sterk
Undirleit
sé það drýpur
af mér allri
fölbleik
hafaldan hefur brotist út
um allar holur
hlaut að kom að því
ég þekki tárin
þau renna niður lærin
rokið tekur við mér
nú þegar ég er léttari
stíg ég huguð
inn í hviðuna
hnýti svuntuna við naflann
elda þessa dýrindismáltíð
(Hér eru fjöllin blá, bls. 37)
Í síðasta hluta ljóðabókarinnar „skurn“ hefur draumurinn ræst, „sonur minn dafnar í kviðnum / sonur okkar“ (bls. 62). Ljóðmælandi minnir þó á þöggunina sem konur þurfa að upplifa eftir fósturmissi „erindi okkar hulið undir tungurótinni / undir trjárótum jarðar sem við deilum / í nafnlausum gröfum“ (bls. 62). Síðasta ljóð bókarinnar er „Bæn til barns“ þar sem móðir lofar barni sínu að gefa sig alla og vera óhrædd, „Ég heiti því / að óttast ekki það í mér / sem er í þér / en hafa trú / ég veit að enga stærri gjöf / eða erfiðari / get ég fært þér“ (bls. 63).
Einstök ljóðabók
Í þessari einstöku ljóðabók er erfitt að staldra ekki við hvert einasta ljóð og greina það til hlítar, en því miður væri það efni í þrjátíu síðna ritgerð, ekki stuttan ljóðabókardóm. Ljóðin eru það vel unnin og myndræn að ótrúlegt er að þetta sé fyrsta ljóðabók Melkorku í fullri lengd. Bókin snertir djúpa strengi, hvert einasta ljóð er þrungið tilfinningum sem skera lesandann inn að beini. Ég hreinlega sé eftir því hversu lengi hún sat uppi í hillu að bíða eftir lestri. Ég mæli einlæglega með þessari ljóðabók, sérstaklega fyrir þau sem hafa upplifað þennan djúpstæða missi sem Melkorka yrkir svo fallega um.