Sveinn Ólafsson er þrettán

Unglingasagan Þrettán er endurútgáfa af bókinni Góða ferð Sveinn Ólafsson sem kom út árið 1998 og fékk afar góða dóma. Bókin fékk Special Prix de Jury verðlaunin eða Sérstök verðlaun evrópskrar dómnefndar fyrir handrit að sjónvarpsmynd sem gerð bókinni. Höfundurinn Friðrik Erlingsson fékk þá bókina útgefna í Englandi og þurfti af því tilefni að breyta ýmsu hér og þar. Þær breytingar eru þó smávægilegar og breyta engu um söguþráð né innihald bókarinnar.

Þrettán fjallar um Svein sem er þrettán ára og býr hjá móður sinni. Sagan á að gerast á áttunda áratugnum áður en tölvur og snallsímar tóku yfir veröld barna og unglinga.  Móðir Sveins, sem er einstæð móðir, berst í bökkum og vinnur verkamannavinnu til að sjá fyrir þessari litlu fjölskyldu en faðir Sveins býr á Vestfjörðum ásamt nýju konunni sinni og ófæddu barni, og vinnur sem sjómaður á varðskipi í miðju þorskastríði.  Lífsbaráttan er hörð hjá þessari litlu fjölskyldu en barátta Sveins er að mestu leyti innra með honum sjálfum. Hormónarnir eru á milljón, tilvistarkreppan á háu stigi og ekki bætir úr skák þegar frænka hans flytur til þeirra en hún er á átjánda ári og í framhaldsskóla.  Sveinn verður fyrir aðkasti í skólanum og söknuður hans eftir föðurnum, höfnunin sem hann verður fyrir af hálfu pabbans; allt er þetta til þess fallið að valda sálarangist ungs pilts sem veit ekki hvort hann er barn eða unglingur.

Þessi bók er virkilega góð. Það er hressandi að vera laus við tækni nútímans í þessari sögu og sýnir okkur líka að þrátt fyrir allar þær framfarir í tækni og allar þær upplýsingar sem hægt er að ná sér í, þá eru áhyggjuefni barna og unglinga þau sömu og áður.

Sjálfsmyndin er brothætt og samskipti kynjanna einkennist oft af tilfinningakreppu og óöryggi, sér í lagi á árum áður, þegar ekki var hægt að eiga samskipti í gegnum samskiptamiðla eða fela sig á bakvið tölvuskjái.

Persónurnar eru virkilega áhugaverðar, Sveinn talar eflaust til margra drengja í hans sporum en ég var þó sérlega hrifin af vini hans, Pétri. Aðstæður Péturs eru um margt áhugaverðar og segir okkur svo ekki er um villst að ekki er alltaf að marka sem það sýnist á yfirborðinu.

Textinn í bókinni er allt í senn, kaldhæðinn, dapur og fyndinn, stundum svo fallegur og ljóðrænn. “Ég er stjarna, blikandi stjarna. Ég er ungbarn á grafarbakka og öldungur í vöggu, bæði fiskur á himni og fugl í sjó; ég er stelpa að innan en strákur að utan, saklaus á líkama, sekur í sálinni”(bls 1).  Þarna er unglingsárum og tilvistarkreppunni algjörlega rétt lýst.

Eini gallinn á bókinni að mínu mati er afgreiðsla höfundar á vanda Sveins í lok bókarinnar. Sveinn er kominn í vandræði í skólanum, upp kemst um skróp og hegðun sem ekki þykir sæma 13 ára gömlum dreng. Faðir hans kemur þá skyndilega til skjalanna og með símhringingu býður hann Sveini að koma og búa hjá sér og nýju fjölskyldunni.  Móðir Sveins sem alla bókina hefur unnið baki brotnu til að sjá drengnum fyrir mat og fallegu heimili er í uppgjöf og lausnin er að pabbinn sem alla söguna hefur hundsað drenginn sinn og sýnt honum fálæti er allt í einu kominn og bjargar málunum. Sem dæmi um fálæti gagnvart Sveini er kaflinn þar sem Sveinn rekst á pabba sinn af tilviljun í miðbænum og pabbinn býður Sveini upp á vöfflur og kakó á Hótel Borg en má svo ekki vera að því að sitja með drengum á kaffihúsinu, borgar því veitingarnar og skilur Svein aleinan eftir í veitingasalnum með vöfflurnar á disk. Að þessu sögðu finnst mér þetta ósanngjarn endir móðurinni til handa.

En heilt yfir litið, virkilega góð bók og eiginlega skyldulesning fyrir alla unglingsstráka. Og ég er virkilega hrifin af aldursmerkingunni á bókinni, 12+. Það er löngu tímabært að íslenskir höfundar unglingabóka fari að miða bækurnar við unglinga en ekki yngri krakka.

Lestu þetta næst

Aðferðir til að lifa af

Aðferðir til að lifa af

Gáfaða dýrið er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur en bókin kom út núna á vormánuðum 2024. Sæunn er...

Verur sem þjást

Verur sem þjást

Dani er venjuleg kona. Hún er komin níu mánuði á leið með dóttur sína Lotte, hún var að flytja...

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.