Bækur um veirur og sóttkví

Það getur verið svo gott og örvandi að sökkva sér ofan í annan heim og þá sérstaklega heim skáldskaparins, þegar maður óskar þess að flýja eigin veruleika. Stundum vill maður lesa eitthvað sem tekur mann algjörlega frá eigin veruleika, á sumum tímum finnst manni rosalega þægilegt og gefandi að lesa eitthvað sem maður tengir sjálfur við úr eigin lífi, og svo á öðrum tímum getur verið jafnvel gott að lesa skáldskap sem er svo mun  ýktari en raunveruleikinn að það veldur vellíðan.

Skáldskapur getur verið alls konar, hann getur verið mjög nálægt raunveruleikanum eða mjög fjarri honum. Við höfum dystópíska heima og útópíska heima. Skáldskap sem byggir á fortíðinni, á nútíð og svo skáldskap sem byggir á einhvers konar hugmynd um framtíð. Framtíðarsýnir höfunda geta verið skemmtilegar og jafnvel merkilegar eftir því sem þær eldast. Sumar geta jafnvel orðið nákvæmari en aðrar.

Það sem er furðulegt er að þegar eitthvað óvenjulegt gerist í raunheimum þá þykir okkur gott að hverfa í skáldaðan heim sem á einhvern hátt líkist þessu óvenjulega ástandi.

Plágur, farsóttir, sóttkví og veirur eru fyrirbæri sem hafa verið oftsinnis viðfangsefni rithöfunda fyrr og nú. Þá bæði hefur verið skrifað á sögulegan hátt um fyrri plágur og afleiðingar þeirra á samfélagið og einstaklinga og svo eru þær einnig vinsælar í framtíðarsýn höfunda um endalok heimsins eins og við þekkjum hann, sem tól í valdabaráttu eða hernaði og jafnvel hafa þær verið manngerðar í þágu framtíðar mannkyns og jarðarinnar.

[hr gap=“30″]

Ástin á tímum kólerunnar – Gabríel Garcia Marquez

Þetta er bókin sem kannski flestir vísa til á þessum tímum. Ástin á tímum kólerunnar er ástarsaga sem gerist í litskrúðugri hafnarborg við Karíbahafið undir lok 19. aldar og á fyrstu áratugum síðustu aldar. Sagan fjallar um Florentíno Aríza sem verður mjög ungur yfir sig ástfanginn af Fermínu Daza. Hún giftist því miður öðrum og hann bíður hennar í nánast hálfa öld í von um að leiðir þeirra liggi aftur saman. Fermína giftist Doktor Juvenal Urbino, sem vinnur við að reyna finna lækningu við kóleraveirunni. Hið einkennilega sambland raunsæilegrar frásagnar og óbeislaðs hugarflugs er áberandi í Ástinni á tímum kólerunnar.

 

 

[hr gap=“30″]

Plágan – Albert Camus

Plágan eftir heimspekinginn og nóbelsverðlaunaskáldið Albert Camus kom út árið 1947. Sagan fjallar um það hvernig samfélagið tekst á við farsóttir, um ofsatrú, upplausn og múgæsingu. Í sögunni er sagt frá hversdagslegu hugrekki einstaklinga og hvernig vinskapur getur myndast í óvenjulegum aðstæðum og hvernig samkennd verður til í óhamingju. Skáldsagan er talin vera byggð á kóleru-faraldrinum sem dró marga til dauða árið 1849 en sagan gerist þó árið 1940 í alsírsku borginni Oran. Atburðarrásin verður sífellt verri en smátt og smátt er bænum lokað af, póstþjónusta er tekin og símanotkun takmörkuð á meðan plágan hefur sín áhrif á einstaklinga í bænum. Margir reyna að flýja bæinn og algjör glundroði myndast.  Skáldsagan er sálfræðileg stúdía á því hvernig maðurinn og samfélagið bregst við áföllum og hvernig samfélagssviptingar verða þegar farsótt geisar.

 

[hr gap=“30″]

Tídægra – Boccacio

Tídægra var samin stuttu eftir pláguna miklu sem geysaði árið 1348 í Flórens. Boccacio missti föður sinn og stjúpmóður í plágunni en hann sjálfur lifði þessar hörmungar af og varð seinna meir eitt af fáum vitnum farsóttarinnar. Plágan hafði borist til Ítalíu frá Miðausturlöndum með kaupskipum frá Genúa og breiðst út eins og eldur í sinu um allan Ítalíuskaga á aðeins örfáum mánuðum.

Tídægra fjallar um það þegar sex konur og fjórir karlmenn hittast og ákveða að fara frá borginni í miðri plágunni og búa í tíu daga í eins konar sóttkví á afskekktum stað í sveit, til að endurheimta fyrri lífsgleði og lystisemdir í heimi þar sem allt er á hvolfi. Á þessum tíu dögum segir hvert þeirra tíu sögur, eina á dag, samtals hundrað sögur um skylt efni fyrir hvern dag.

Túlka má Tídægru sem tilraun til að endurreisa þjóðfélag frá grunni, með því að gefa eftirlifendum von um betri tíð og endurnýjun lífdaga. En plágan mikla hafði djúp félagsleg og efnahagsleg áhrif á sínum tíma.

 

[hr gap=“30″]

Inferno – Dan Brown

Inferno er fjórða bók höfundarins Dan Brown um pófessor Robert Langdon. Bókin byrjar á því að Robert Langdon vaknar upp á spítala með ekkert minni um hvernig hann lenti þar. Áður en hann veit af er einhver að veita honum eftirför og hann þarf að leggja á flótta um alla Flórens ásamt unga lækninum Siennu Brooks. Hann finnur lyfjaglas í vasa sínum sem er merkt sem líffræðilegur skaðvaldur. Robert er dreginn inn í atburðarrás sem tengist Dante Alighieri og einu frægasta verki hans, Inferno eða Víti og lífefnarannsóknum. Manngerð plága sem ætluð er til að drepa nógu marga einstaklinga til að draga verulega úr fólksfjölgun í heiminum er í lykilhlutverki í sögunni.

 

 

[hr gap=“30″]

Mánasteinn – Sjón

Mánasteinn gerist árið 1918 í Reykjavík þegar Íslendingar búa sig undir að verða fullvalda þjóð. Hún fjallar um drenginn Mána Stein sem þjónustar viðskiptavini í Öskjuhlíðinni. Hann lifir í kvikmyndum og dreymir um kvikmyndir sem síðan vefa sig inn í atburði í hans eigin lífi. Kötlugos hefst og spænska veikin geysar yfir og leggur þúsundir bæjarbúa á sóttarsæng og sviptir um hundrað manns lífinu. Máni fer að sinna hjúkrunarstarfi í félagi við lækni og unga stúlku. Bíóið, eða kvikmyndin er einskonar stef í gegnum allt verkið en í gegnum kvikmyndaástina öðlast Máni Steinn hæfileika til að lesa í eigið umhverfi. Myndmál kvikmyndarinnar er því allsráðandi.

 

 

[hr gap=“30″]

The Stand – Stephen King

The Stand er heimsendasaga sem fjallar um fall samfélags þegar banvæn inflúensu – veira er óvart leyst úr læðingi sem ætluð var til líffræðilegs-hernaðar. Veiran veldur mikilli upplausn í samfélaginu en hún nær að draga til dauða um 99 prósent af mannkyni. Við sjáum því algjöra upplausn í samfélaginu, nýja heimsmynd og stjórnvöld sem reyna að halda einhvers konar stjórn á ástandinu en mistekst hrapallega.

 

 

 

 

[hr gap=“30″]

Eyland – Sigríður Hagalín Björnsdóttir

Það væri hægt að skilgreina Eyland sem dystópíu eða vísindaskáldsögu. Sagan fjallar um Hjalta sem skrifar sögu sína í einangrun í Eyjafirði. Allt samband íslands við umheiminn hefur rofnað og erlendar netsíður eru óaðgengilegar, skip og flugvélar sem eru sendar erlendis snúa ekki heim aftur. Sagan fjallar því í raun um það hvernig Hjalti og íslenska þjóðin takast á við þennan nýja veruleika í einangrun. Bókin og um leið lesandinn veltir fyrir sér ýmsum spurningum um hvernig einstaklingur myndi haga sér í nýrri samfélagsskipan sem einkennist af glundroða. Myndi maður hugsa um eigin hag eða hjálpa samborgurum sínum?

 

 

 

[hr gap=“30″]

Dauðinn í Feneyjum – Thomas Mann

Dauðinn í Feneyjum fjallar um rúmlega fimmtuga rithöfundinn Gustav sem þjáist af ritstíflu og ákveður að heimsækja Feneyjar til að frelsast af stíflunni. Hann verður í fyrstu mjög hugfanginn og síðar ástfanginn af ungum strák sem hann sér og fær eins konar þráhyggju fyrir honum, á sama tíma þá geysar upp kóleru faraldurinn og hann veikist.

 

 

 

 

 

[hr gap=“30″]

Stúlkan með náðargjafirnar – M.R. Carey

Sagan gerist í dystópískri framtíð og fjallar í grunninn um það þegar stærstum hluta mannkyns hefur verið útrýmt vegna smitsjúkdóms. Þeir sem eru smitaðir verða fljótt árásagjarnir, missa vitið og nærast á holdi annarra heilbrigðra manneskja. Sjúkdómurinn breiðist hratt út með blóði og munnvatni. Þeir fáu heilbrigðu sem eftir eru lifa á afmörkuðum og vernduðum svæðum. Sagan fjallar um ungu stúlkuna Melanie  sem er sýkt af sjúkdómnum og er í haldi á herstöð sem vinnur að því að rannsaka sjúkdóminn.

 

 

 

 

[hr gap=“30″]

Station Eleven – Emily St. John Mandel

Station Eleven hlaut Arthur C. Clarke verðlaunin þegar hún kom út árið 2014. Í bókinni hefur 99% af mannkyninu dáið af hræðilegri veiru. En ólíkt mörgum heimsendabókum þá fylgist lesandinn ekki með hörmungunum heldur því sem gerist eftir á. Tuttugu ár hafa liðið frá falli samfélagsins. Mandel veltir upp spurningum um mennskuna í bókinni. Hvað verður um samfélagið þegar allt er fallið? Er fólk vont eða gott? Eru listir og menning nauðsynleg í dystópískum veruleika?

 

 

 

 

[hr gap=“30″]

Koparborgin – Ragnhildur Hólmgeirsdóttir

Í Koparborginni hefur plága geysað og skilið mörg börn eftir munaðarlaus. Bókin fjallar um drenginn Pietro sem finnur samastað, eftir að hafa þurft að yfirgefa heimili sitt, í Víxlarahúsinu þar sem aðeins börn hafa leitað skjóls í gegnum aldirnar. Bókin er leyndardómsfull og æsispennandi. Koparborgin hlaut Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar árið 2016, en fyrir síðstu jól kom út sjálfstætt framhald sem á sér stað í sama heimi en á öðrum tíma, Villueyjar.

 

 

 

 

[hr gap=“30″]

Urðarmáni – Ari Jóhannesson

Á síðasta ári kom út bókin Urðarmáni eftir lækninn og rithöfundinn Ara Jóhannesson. Sögusvið bókarinnar er Reykjavík árið 1918 þegar spánska veikin geysar yfir landið. Aðalsöguhetjan er landlæknir sem þarf að kljást við neikvæðar raddir í samfélaginu sem finnst hann ekki vera að standa sig í stykkinu í faraldrinum. Það er einnig rómantískt ívaf í þessari sögulegu skáldsögu en ung tilvonandi ljósmóðir kemur allt í einu inní líf læknisins og þau dragast að hvort öðru.

 

 

 

 

[hr gap=“30″]

Ef þig hungrar enn í sótt og veiru eftir lestur á þessum bókum þá er alltaf hægt að kíkja í hvaða uppvakninga (zombie) bók sem er. Þar er nóg af spennu og veirum sem dreifast hratt út. Góðan lestur!

 

Lestu þetta næst

Að syrgja er að elska

Að syrgja er að elska

Daníel Daníelsson er menntaður í sagnfræði og ritlist og hefur nú gefið út sitt annað skáldverk,...