Vættir í Reykjavík

Alexander Dan sendi frá sér bókina Vættir fyrir jólin árið 2018. Hann hefur áður gefið út bókina Hrímland (2018) sem var síðar þýdd yfir á ensku og gefin út af breska bókaforlaginu Gollancz. Alexander hefur lengi verið mikill baráttumaður fyrir furðusögum á íslenskum bókamarkaði.

Ég ætla ekki að leggjast í ítarlega greiningu á bókinni. Það hefur áður verið gert, til dæmis hér. Sagan fjallar í stórum dráttum um ungann mann sem greinilega er á aldrinum milli tvítugs og þrítugs, miðað við meðal áfengisdrykkju og partýstand sem fer fram í bókinni. Hann er augljóslega þunglyndur en býr þó við það lán að eiga tvo vini, Svenna og Aldísi, sem draga hann út á lífið. Hinn nafnlausi sögumaður er líka með stöðugan hausverk, á bak við vinstra augað, sem skiptir miklu máli. Hann býr í miðbæ Reykjavíkur sem er þó nokkuð ólík þeirri Reykjavík eins og við þekkjum hana. Á hverju horni eru vættir; stórar, smáar, krúttlegar, hræðilegar. Vættir sem einn daginn birtust bara upp úr þurru. Íbúar Íslands sjá vættina en ferðamenn streyma til landsins til að upplifa vættirnar, án þess að geta séð þær. Til að geta séð þær þarf maður að hafa dvalið í landinu í tvö ár. Og þar koma furðurnar til sögunnar.

Ádeilan í furðunum

Vættir er ekki hin klassíska furðusaga þar sem persóna ferðast til annars heims eða gerist í öðrum heimi, ótengdum okkar. Í bókinni er fremur eins og heimar renni saman. Heimurinn okkar og heimur vættana. Mennirnir eiga mjög erfitt með að takast á við þessar breyttu aðstæður. Til dæmis glímir sögumaður okkar við hausverk sem virðist á einhvern hátt tengdur vættunum. Alexander tengir líka gamla þjóðtrú inn í bókina. Sögumaðurinn á til dæmis óvart í ástarsambandi við hamskipting. Þannig að þótt að íbúar Íslands reyni að hunsa vættinar þá kemur í ljós að þær eru töluvert miklir áhrifavaldar. Í gegnum alla bókina skín í þá löngun eða þrá allra til þess að láta sem ekkert sé. Það sem íbúar landsins reyna að hunsa sækjast ferðamenn eftir og þar finnst mér Alexander deila örlítið á hræsnina sem er stundum í ferðamannabransanum. En minnir okkur líka á að maður sér sjaldnast fegurðina eða sérkennilegheitin í eigin landi.

Vel skrifuð bók

Bókin skilur eftir margar hugsanir og pælingar og eflaust er hægt að lesa alls kyns út úr bókinni. Hún var forvitnileg aflestrar en fyrir mér skiptir miklu máli að geta tengst persónum bókarinnar. Það átti ég mjög erfitt með í þessari bók. Mér var nokk sama um þær allar og náði aldrei að festast almennilega í söguheimi Alexanders. Bókin er þó afspyrnu vel skrifuð, rík í málfari og hugmyndum og grótesk á köflum – sem var mjög hressandi. Hún skilur mig eftir forvitna um Hrímland.

Fyrir hugmyndaauðgi og frumleika fær bókin fullt hús, en fyrir persónusköpun fær hún smá mínus. Kápa bókarinnar hefur einnig lengi angrað mig. Myndin á forsíðunni er grípandi en það þarf vel þjálfað auga til að sjá nafn bókarinnar, sem mér hefur alltaf þótt mjög óheppilegt.

Lestu þetta næst

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...

Ráðgátugleraugun

Ráðgátugleraugun

Í Ljósaseríunni koma út bækur sem henta börnum á yngsta og miðstigi í grunnskóla. Bækurnar eru...