Eins og er sitja fleiri hundruðir Íslendinga lokaðir inni á heimilum sínum í sóttkví eða einangrun. Svo hafa samkomur verið bannaðar svo það er orðið fátt um fagra drætti í afþreyingu landans utan húss og nú hafa bókasöfnin lokað dyrunum. Hafi verið erfitt að nálgast lesefni í sóttkví eða einangrun verður það enn erfiðara núna þegar meira að segja sendillinn, sem hefur hingað til séð um að bera í þig lesefni, kemst ekki einu sinni á bókasafnið til að sækja bækurnar (það er að segja ef hinn innilokaði hætti á að lesa lánsbækur yfirhöfuð).
En eins og svo margir hafa uppgötvað síðustu vikuna þá er tæknin til margra hluta nytsamleg. Heilu ráðstefnurnar eru haldnar í gegnum netið og gímandi skrifstofurýmin standa tóm þar sem starfmennirnir fjartengjast að heiman og funda á netinu. Það hlýtur þá að vera hægt að nálgast bækur á einhvern hátt!
Búir þú svo vel að eiga Kindil (Amazon Kindle) þá er úrval rafbóka á íslensku orðið töluvert. Bókabúð Forlagsins er með síðu á Amazon þar sem hægt er að nálgast mikið úrval rafbóka. Það er líka vel hægt að kaupa rafbækur beint af vefsíðu Forlagsins. Ef börnin og unglingarnir heimta lesefni sem hentar þeim þá er Bókabeitan með mjög gott úrval rafbóka fyrir börn og unglinga á Amazon.
Rafbókasafnið stendur alltaf fyrir sínu og auðvelt er að leigja rafbækur þar með venjulegu bókasafnskorti.
Ef þér líkar að vinna með höndunum á meðan þú hlustar á sögu þá eru hljóðbækurnar málið fyrir þig. Forlagið býður fólki þrjár hljóðbækur gefins vegna ástandsins. Bókunum er öllum hægt að mæla með. Storytel hefur rutt sér vel til rúms á Íslandi síðustu misseri. Einnig er hægt að nálgast hljóðbækur á Hlusta.is. Bæði Storytel og Hlusta.is eru háðar því að hlustandinn kaupi sér áskrift, en það er vel þess virði.
Bókaforlög hafa líka svarað kalli bókaþurfandi kaupenda og senda mörg hver frítt heim til fólks. Það er því engin þörf á að gefa bókalestur eða -hlustun upp á bátinn næstu vikurnar. Byrgjum okkur upp af bókum, sjónvarpsgláp verður leiðinlegt til lengdar.