Fjölbreytt mannlíf í Þingholtunum

Hús úr húsi er önnur bók Kristínar Marju Baldursdóttur og kom fyrst út árið 1997. Ég er ofboðslega hrifin af bókum Kristínar Marju og eru Mávahlátur og Karitasarbækurnar, sem við höfum áður fjallað um í Lestrarklefanum, þar fremstar í flokki. Kristínu Marju tekst alltaf að skapa áhugaverðar persónur og notalegt umhverfi. Mér líður oft eins og ég gæti hugsað mér að búa í skáldsagnaheimum hennar.
Hús úr húsi fjallar um hina tæplega þrítugu Kolfinnu sem tekur að sér að leysa ófríska vinkonu sína af við þrif hjá nokkrum mismunandi aðilum í Þingholtunum. Hún er tiltölulega nýflutt aftur í hverfið, heim til móður sinnar eftir sambandsslit og kemur þeim mæðgum ekkert allt of vel saman. Þrátt fyrir að vera að nálgast þrítugt hefur söguhetjan lítið gert yfir ævina. Hún kemst í kynni við alls konar fólk og nýjar upplifanir í gegnum þrifin.

Sniðugt sögusvið

Mér þótti mjög sniðugt af rithöfundi að láta aðalpersónu sína vinna við þrif og koma henni þannig í kynni við alls konar fólk sem hún hefði eflaust annars ekki kynnst. Einstaklingarnir fjórir sem hún þrífur hjá eru hver öðrum sérstakari: ellilífeyrisþeginn sem hefur lifað fögru lífi, daðrandi óperusöngkona, lögmaður sem vildi vera listamaður og fræðimaður sem nær að drasla til í öllu húsinu sínu í hverri viku. Þau eiga það öll þó sameiginlegt að vera einstæðingar. Kristín Marja fjallar oft um sambönd milli þeirra eldri og lífsreyndari og þeirra sem eru að taka sín fyrstu skref út í heiminn og er Hús úr húsi þar engin undantekning. Kolfinna er heltekin af því að skilja hvað ellilífeyrisþeginn Listalín meinar með því þegar hún segir að allt sitt líf hafi verið fagurt. Sögusviðið er einnig sniðugt, bókin gæti allt eins gerst í litlu sjávarplássi enda á öll atburðarásin sér stað innan Þingholtanna.

Góð persónusköpun

Heilt yfir fannst mér bókin góð lesning. Bókin er á köflum kómísk, sérstaklega þegar kemur að ástarmálum Kolfinnu, en einnig eru vel skrifaðar daprar stundir. Sögulokin komu mér svo rækilega á óvart. Bókin missti smá mark sitt við miðbikið en þá var atburðarrásin orðin ansi ótrúleg, hún náði sér þó klárlega á flug fyrir lokin. Persónurnar eru eins og kom fram ansi skrautlegar og verður fólkið sem Kolfinna þrífur hjá á tímabili að ansi miklum týpum. Mér fannst persóna Kolfinnu hins vegar vel skrifuð, hún er ómótuð í mikilli sjálfsleit og getur því gert lesandann ansi pirraðan á gjörðum hennar. Einnig var mikið lagt í persónusköpun móður hennar. Eins og oft í skáldsögum fær maður innlit í stuttan tíma í sögu aðalpersónunnar og hefði ég gjarnan viljað fylgja Kolfinnu lengur og fengið þannig ennþá betri skilning á hennar persónu og sambandi hennar við móður sína. Bókin slær ekki Mávahlátri eða Karitasarbókunum við að mínu mati en er engu að síður eins og bækurnar hennar Kristínar Marju eru þekktar fyrir; fallega skrifuð, notaleg bók sem tilvalið er að lesa undir teppi í páskahreti.

 

Lestu þetta næst

Heillandi jóladraumar

Heillandi jóladraumar

Íslenski dansflokkurinn býður upp á Jóladrauma þessa aðventu. Um er að ræða danssýningu fyrir börn...

Næturbrölt

Næturbrölt

Í fyrra lásum ég og drengurinn minn bókina Tannburstunardagurinn mikli og vorum hæstánægð. Næsta...

Að ánetjast eldri konum

Að ánetjast eldri konum

Ég hef verið áðdáandi Evu Rúnar núna í þónokkur ár. Ljóðabækurnar hennar og örsagnasöfn hafa verið...

Að syrgja er að elska

Að syrgja er að elska

Daníel Daníelsson er menntaður í sagnfræði og ritlist og hefur nú gefið út sitt annað skáldverk,...