Múmínsnáðinn og vorundrið (eða Ragnhildur og búðarferðin)

Frá því að samkomubann vegna Covid-19 hófst hef ég reglulega ímyndað mér hvað þetta væri allt miklu auðveldara ef ég ætti ekki tveggja ára gamalt barn. Auðvitað er það tóm ímyndun og óskhyggja, ef ég þyrfti ekki að annast svona ósjálfbjarga og kröfuharðan einstakling væri ég líklega löngu hætt að sinna mínum eigin grunnþörfum. Ég væri lögst í eitthvert skelfilegt sinnuleysi í skítugum náttfötum og þætti það stórkostlegt afrek að hella seríósi í skál handa sjálfri mér. Ég minni líka sjálfa mig á að þetta séu engar raunverulegar hamfarir hvað okkur snertir, raunverulegar hamfarir væru ef heimili mitt hefði verið eyðilagt og ég aðskilin frá fjölskyldunni, en ekki öfugt. En það breytir því nú ekki að dagarnir líða ansi hægt. Ég held ekki að syni mínum leiðist alveg jafn mikið og mér, hann er jú á þeim aldri að finnast gamlar plastumbúðir í garðinum ansi áhugaverðar. En samt.

Eitt af því sem ég hef gert til að búa til áfangastað/tilgang í okkar daglegu tilveru var að fara einu sinni í bókabúð. Auðvitað eru flestir í heimsendingum þessa dagana og fá jafnvel sent beint frá útgefendum, en ég komst að því að ein heimsókn í bókabúð í samkomubanni er alger snilld. Mér þykir vænt um bókabúðir og þætti Reykjavík mjög sorglegur bær án þeirra. Þessi heimsókn lifir líka enn í minningu barnsins þremur vikum seinna og bókin sem sonur minn fékk að velja sér sjálfur hefur verið í sérstöku uppáhaldi alveg frá þessum mikla viðburði. Af einskærri tilviljun bar þessa heimsókn upp á alþjóðlegan dag barnabókarinnar, svo mér leið í kaupbæti eins og ég væri algert fyrirmyndarforeldri á menningarheimili, en ekki bara einhver fúl týpa að drepast úr leiðindum.

Þessa bók!

Velja þessa bók!

Ég var búin að segja syni mínum að hann fengi að velja bók í búðinni, en hafði reyndar ætlað að „forvelja“ eitthvað sniðugt sem hann gæti svo samþykkt. Til þess gafst enginn tími, við vorum ekki nema hálfnuð niður stigann í barnadeildina þegar drengurinn æpti kátur: Þeeeessssaaaaaa! Velja þessa bók!

Bókin sem hann valdi var Múmínsnáðinn og vorundrið, nýjasta viðbótin við seríu sem við höfum hingað til fengið lánaða á bókasafninu, þá sárasjaldan sem þessar vinsælu bækur eru lausar. Næstu daga skoðuðum við bókina um það bil 17 sinnum á dag svo ég get fullyrt að skemmtanagildi hennar er mikið fyrir tveggja ára og myndirnar heilla svo sannarlega. Sagan lifir líka greinilega í huga hans, því öðru hvoru byrjar hann að hafa yfir eitthvað úr bókinni og er þá greinilega staddur í miðri sögunni, þó við séum bara úti á róló.

Þessar bækur eru aðlaganir á söguheimi Múmíndals fyrir ung börn og mér sýnast þær teiknaðar og skrifaðar í Bretlandi. Myndhöfundar er ekki getið og það þarf að leita lengi til að komast að því að höfundur texta er Richard Dungworth. Þetta eru sætar og skemmtilegar sögur en byggja mjög lauslega á upphaflegu hugmynd Tove Jansson.

Einföld saga, flókin orð

Önnur skemmtileg bók úr sömu seríu

Þessi bók sækir reyndar mjög mikið í Vetrarævintýri í Múmíndal og sem mikill aðdáandi Tove Jansson verð ég að segja að mér finnst samanburðurinn Vorundrinu ekki í vil. Tikkatú er skyndilega orðin óskaplega hjálpsöm og góð og litli íkorninn deyr ekki harmrænum dauðdaga. Veturinn er heldur ekki neitt sérstaklega ógnandi. Auðvitað skil ég af hverju allt þetta var látið fjúka í aðlögun fyrir lítil börn, en með ógnunum hverfa líka töfrarnir sem búa í upphaflegu bókinni. Líklega varð þó ekki hjá því komist. En það sem mér finnst vera raunverulegur galli á þessum aðlögunum eru kynjahlutverkin. Í upphaflegu bókunum eru þau afar hefðbundin, enda kom fyrsta bókin út árið 1945. Í meðförum Tove Jansson eru þessi kynhjahlutverk samt alltaf dálítið gamansöm og hún gerir létt grín að öllu saman. Þannig tekst upphaflegu bókunum að vera allt annað en íhaldssamar, þrátt fyrir að hegðun persónanna sé stöðluð á yfirborðinu. En í þessari annars ágætu seríu verður það dálítið spes hvernig Múmínmamma er alltaf að elda, hún er í bleikum náttfötum og dreymir um rósagarða á meðan Múmínpabbi er í bláum náttfötum og dreymir um háskalegar siglingar.

 

Þessi flipabók er hins vegar alls ekki mjög skemmtileg!

En jæja, hvað um það, barnið hefur mjög gaman af bókinni og hún er prentuð á sterkan og góðan pappír. (Ég fylgist með því af hryllingi hvernig elsku drengurinn geymir fingurna upp í sér (endajaxlataka) milli þess sem hann flettir blaðsíðunum slefblautri hendi.) Ég er vön að segja honum sögu byggða á myndunum sem hann sér og les svo valda búta úr textanum. Ég held samt að það sé algerlega útilokað að hann skilji bofs í því sem ég er að lesa, því orðaval í textanum er í meira lagi flókið. Orðaforði á borð við húmið, sundlandi og hann þóttist vita er ansi fjarlægur málnotkun sonar míns. (Þegar hann byrjar að leika bókina, þá notar hann alltaf setningarnar sem ég bý til, ekki textann sem ég les.)

Mér þykir því forvitnilegt hvað foreldrar með eldri börn segja um þessa bók. Þetta er einföld og myndrík saga, en með flóknum orðaforða. Er það góð leið til að hjálpa börnum að ná taki á málinu? Eða þvælast þessi orð fyrir?

Þessi kemur frá sama útgefanda og er satt best að segja alveg glötuð.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Lestu þetta næst

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...

Sumarleg og fjörug sandkaka

Sumarleg og fjörug sandkaka

Nýlega kom út Mamma Sandkaka, lífleg og fallega myndlýst barnabók eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur....

Flugur á sad beige vegg

Flugur á sad beige vegg

Við erum stödd á fyrstu frumsýningunni á stóra sviðinu á leikárinu. Það er verið að fara sýna...