Bókin sem vill ekki láta lesa sig – Töfrafjallið eftir Thomas Mann

Það er almennt ágæt regla að henda frá sér bókum sem manni þykja leiðinlegar. Það er allajafnan lítill tilgangur í að böðlast áfram í einhverju sem maður hefur ekki gaman af, jafnvel þótt eitthvað skemmtilegt kunni að bíða á blaðsíðu 900. Þessa reglu sveik ég þó nýlega — eða ekki svo nýlega, miðað við þann tíma sem það tekur að lesa bókina — í tilfelli Töfrafjallsins (Der Zauberberg, 1924) eftir Thomas Mann. Nú herma nýjustu fregnir að þýðing á þessari bók sé í bígerð hjá Gauta Kristmannssyni prófessor í þýðingarfræðum við HÍ, og því er það tilvalið að fjalla aðeins um verkið, ekki beint í hefðbundum bókadómi (eftir slíkum er engin eftirspurn), heldur sem lestrarupplifun. Þar er hún allsérstök – allavega fyrir nútímalesandann – því sá hinn sami lesandi finnur fljótt að bókin er viljandi og af nokkurri festu að reyna að hrekja sig í burtu.

Fyrrum berklahæli í Davos, mjög líkt því sem Mann lýsir í bókinni.

Töfrafjallið hefur afar áhugavert sögusvið. Ég þurfti rétt svo að heyra því lýst til að heillast. Bókin fjallar um ungan, efnaðan og fremur bláeygðan Þjóðverja, Hans Castorp, sem kemur að heimsækja frænda sinn og vin, Joachim, í rándýru berklahæli einu hátt uppi í Ölpunum. (Þetta gerist snemma á 20. öld þegar enn var ekki búið að finna upp sýklalyfin og enn var reynt að lækna berkla með því að láta fólk anda að sér fersku fjallalofti – með afar dræmum árangri). Á berklahælinu finnur Hans skrautlegt samansafn persóna frá öllum hornum Evrópu, flest forrík, dekruð og hámenntuð, en líka misalvarlega berklaveik, með hita og hálfgert óráð, sem gerir fólkið viðkvæmt, óútreiknanlegt og áhrifagjarnt. Hans Castorp ætlar aðeins að heimsækja frænda sinn í þrjár vikur, en heillast af staðnum, er sjálfur greindur með berkla af læknunum á hælinu og endar á að dvelja uppi í Ölpunum í sjö ár.

Bókin er svokallað bildungsroman, bókmenntagrein þar sem hin bláeygða og skilningslausa aðalsöguhetja finnur sér lærifeður (sjaldnast lærimæður) og þroskast og vex sem manneskja undir tilleiðslu þeirra. Bókin tekur þetta konsept svo langt að það er greinilega verið að gera grín að forminu. Stór hluti verksins fer í að tveir berklasjúkir vitringar keppast um að uppfræða Hans Castorp um heiminn (annar er fulltrúi upplýsingarinnar og húmanismans, hinn alræðishyggjunnar og bókstafstrúarinnar). Þessir kaflar — sem eru gríðarlega langir — eru svo lærðir að ég hef aldrei séð annað eins í skáldsögu. Ég tek dæmi algjörlega af handahófi úr ensku þýðingunni sem ég las (eftir Helen Tracy Lowe-Porter), þar sem hinn húmaníski kennari Castorps, Settembrini, talar:

Humanism — had not Prometheus been the earliest humanist, and was he not identical with the Satan hymned by Carducci? Ah, if the cousins had only heard of that arch-enemy of the Church, at Bologna, pouring the vials of his sarcasm upon the Christian sentimentalism of the Romanticismo! Upon Manzoni‘s Inni Sacri! Upon the shadows-and-moonlight poetry of the romantic movement, which he had compared to „Luna, Heaven‘s pallid nun!“ Per Bacco, that was a joy to listen to!

Ég giska á að margir lesendur sem kjósa að berjast áfram í gegnum orðaflaum á borð við þennan til að byrja með gefist endanlega upp þegar kemur að mjög mikilvægum kafla í bókinni. Hans Castorp verður yfir sig ástfanginn af konu á hælinu (lýsingin á þessari konu, nota bene, er bæði oríentalísk og kvenfjandsamleg), en er of feiminn og siðmenntaður til að tala við hana. Á kjötkveðjuhátíðinni, hinsvegar, er öllu snúið á hvolf, fólk hættir að þéra (þéranir eru mikið þema í bókinni) og Hans nær loksins að rífa sig upp í að tala við ástina sína. Að þessu hefur verið mikil uppbygging í sögunni og lesandinn hlakkar þó nokkuð til. Þau taka loksins tal saman og — öll samræðan er á frönsku!

Já, hér nægir ekki að kunna einhver orð á stangli. Það þarf einfaldlega að vera sæmilega læs á frönsku til að skilja þennan algjörlega krúsjal kafla í bókinni. Þetta er út af fyrir sig raunsætt — karakterar bókarinnar eru evrópsk, fyrirstríðs-efristétt frá allskyns löndum sem notaði vissulega frönsku sem millimál á þessum tíma, rétt eins og við notum ensku í dag. En hér gerir bókin það líka skýrt að hinn tilætlaði lesandi á að vera af þessari hámenntuðu stétt sömuleiðis. Hann á að kunna bæði frummál bókarinnar og frönsku, hrafl í ítölsku, helst einhverja latínu (það er nóg af latínuslettum í bókinni); hann á að vita sitthvað um læknisfræði, enda er rætt um orsakir og afleiðingar berkla í líkamanum í löngu máli; hann þarf að vita ýmislegt um sögu Evrópu og hugmyndafræðilegar hræringar álfunnar allt frá því í fornöld fram að fyrri heimsstyrjöld…

Thomas Mann spyr: „Ertu alveg viss um að þú sért nógu menntaður til að lesa þetta?“

Í stuttu máli sagt er hinn tilætlaði lesandi hámenntaður efristéttarkarlmaður fæddur á 19. öldinni, eins og Thomas Mann sjálfur. Bókin gerir hreinlega grín að þeim sem ætla sér að reyna að lesa bókina án þess að hafa til þess mennta- og auðmagnstilkall. Einn karakteranna á hælinu, Frau Stöhr, gerir fátt annað í sögunni en að reyna að slá um sig með einhverjum fræðum en klúðrar alltaf vísuninni, svo menntamennirnir hlæja að henni. Nútímalesandinn fær að skammast sín rækilega þegar hann skilur ekki einu sinni hvað það var sem Frau Stöhr sagði sem á að vera svona hlægilegt!

Þetta er að sjálfsögðu óþolandi, og kynni lesandi þessa pistils að halda að ég sé hér að úthúða bókinni. En það get ég nefnilega ekki gert. Ég kunni þrátt fyrir allt nægilega frönsku til að sleppa í gegnum fyrsta stóra flöskuhálsinn, kaflann um ástarfundi Hans Castorps á kjötkveðjuhátíðinni, og eftir það var hlaupinn einhver þrái í mig. Ég ætlaði ekki að láta herra Mann komast upp með að flæma mig í burtu og las því af stakri þrjósku áfram í gegnum gígantískar rökræðurnar um skólaspeki miðalda og tengsl sjúkleikans og heilagleikans. Og skjótt uppgötvar maður að þetta hlýtur að vera tilætlan herra Manns, að búa til einhverskonar þrautabraut, seríu af sífellt þrengri flöskuhálsum, en síðan inn á milli birtast aðrir kaflar sem eru magnaðir, ótrúlega skrifaðir og áhrifamiklir (og ekki á frönsku). Þegar maður hefur sig út í að lesa dóma um bókina sér maður strax að enginn man mikið eftir löngu rökræðuköflunum en allir muna eftir og minnast á þessar senur — dauðasenu Joachims til dæmis eða storminn sem Hans Castorp lendir í á afar vanhugsuðu skíðaferðalagi.

Þetta er þannig bók sem ég lendi í vandræðum með að lýsa tilfinningum mínum gagnvart. Hún er meistaraverk, en á skilyrtan hátt: Hún er óþolandi og mögnuð til skiptis. Menntahrokinn og útilokunin drýpur af henni á sama tíma og hún fangar mann með fullkomlega ógleymanlegum senum. Ég hef aldrei lesið bók sem líkist henni. Ég get þannig svo sannarlega ekki sagt að ég sjái eftir lestrinum, en maður hlýtur að velta fyrir sér hversu breyttur heimurinn sé. Að útiloka lesendur svona er óhugsandi í dag þegar fáir höfundar þora að gera ráð fyrir því að selja mikið meira en hundrað eintök. En í þessum horfna heimi, Evrópu fyrir fyrri heimsstyrjöldina sem bókin teiknar svo harmræna táknmynd af þarna í Alpahælinu, voru reglurnar öðruvísi. Lestur prentaðra bóka og blaða var enn ráðandi afþreyingarform (þótt kvikmyndin væri að sækja á) og til var sæmilega stór stétt fólks sem lifði á fjölskylduarfinum og hafði tíma og tóm til að mennta sig til óbóta og lesa doðranta á borð við Töfrafjallið (á meðan ríkt fólk í dag líkist Donald Trump og les Ayn Rand, eða ekkert). Þessi sama stétt vildi ennfremur afmarka sig frá alþýðunni og lét sér það þannig vel líka þegar bækur gerðu ríkulegar menntunarkröfur: Aðeins elítan átti að geta klifið Töfrafjallið.

En smám saman áttar maður sig líka á því að þessi undarlegi heimur hinna forríku og firrtu er gagnrýndur í bókinni. Elítan dvelur þarna berklasjúk á hælinu, mörg þúsund metrum ofar hræringunum niðri á flatlendinu, í einhverskonar óráðs- og draumaheimi sem hún trúir ekki að muni nokkurntímann taka enda. En svo ryðst raunveruleikinn upp á Töfrafjallið: Heimsstyrjöldin brýst út, gamli heimurinn líður undir lok eins og hendi væri veifað og allir flýja rakleitt aftur til síns heima. Bókin er þannig bæði afurð þessa gamla heims en líka einskonar grafskrift yfir honum. Það er kannski ekki að furða að bók sem tekur að sér annað eins umfjöllunarefni sé eins og hún er.

Ég er í það minnsta svo heillaður eftir lesturinn, þótt hann hafi verið óþolandi á köflum, að ég hef pantað mér aðra enska þýðingu á verkinu og ætla að lesa bókina aftur á meðan ég bíð ég spenntur eftir íslenskri þýðingu Gauta Kristmannssonar. Þó er manni spurn: Verður kaflinn á kjötkveðjuhátíðinni áfram á frönsku?

Lestu þetta næst

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...

Sumarleg og fjörug sandkaka

Sumarleg og fjörug sandkaka

Nýlega kom út Mamma Sandkaka, lífleg og fallega myndlýst barnabók eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur....

Flugur á sad beige vegg

Flugur á sad beige vegg

Við erum stödd á fyrstu frumsýningunni á stóra sviðinu á leikárinu. Það er verið að fara sýna...