Hvernig verður heimsfaraldur til?

Það var eitthvað við alheimsástandið í mars og apríl sem gerði það að verkum að mér fannst ég þurfa að sökkva mér niður í enn verra ástand í huganum. Hvað er betra til þess fallið að lina kvíða og áhyggjur en að lesa bók um alheimsfaraldur uppvakninga? Ja, mér datt ekkert annað í hug svo ég dembdi mér í lestur á World War Z eftir Max Brooks í upphafi samkomubannsins í mars.

Satt að segja fékk ég upphaflega áhuga á því að lesa bókina eftir að höfundurinn var með AMA (Ask me anything) á Reddit þar sem hann benti á líkindi milli atburða í bókinni og útbreiðslu Kórónaveirunnar. Hungruð í hörmungar hóf ég þá lesturinn (eftir að hafa horft á myndina nokkrum dögum áður).

Engir hlaupandi uppvakningar

Það skal sagt strax að uppvakningarnir í bókinni eru ekkert eins og þeir í myndinni. Ég hef áður játað þá sakbitnu sælu mína að hafa sérstakt dálæti á heimsendamyndum og bókum. Dystópíur eru mitt uppáhald. Sjálfri hefur mér alltaf þótt það skemmtileg tilbreyting frá hinum klassíska uppvakningi að hafa hann hlaupandi líkt og þeir eru í bíómyndinni. En uppvakningarnir í bókinni eru hægfara hjarðdýr sem stjórnast algjörlega af frumhvötum. Eiginlega má segja að það eina sem sé líkt með bókinni og myndinni sé veiran sem breiðist út og nafnið. Þar líkur líkindunum.

Brooks hefur áður sent frá sér bókina Zombie Survival Guide og bókin um heimsstyrjöldina er nokkurs konar framhald af henni. World War Z gerist tuttugu árum eftir að veiran breiðist út. Rannsakandi á vegum bandarísku ríkisstjórnarinnar er sendur út í heim til þess að afla upplýsinga um útbreiðslu veirunnar með því að taka viðtöl við fólk sem var í lykilhlutverkum. Í gegnum viðtölin birtist lesanda mynd af útbreiðslu veirunnar, óttanum, örvæntingunni, fórnunum og baráttunni gegn ofurefli. Heimurinn er mjög breyttur frá því sem hann var áður. Lönd hafa sameinast, pólitík hefur breyst.

Rammpólitísk bók

Viðmælendur rannsakandans gefa góða mynd af ástandinu. Þótt allt sé skrifað í frásagnarstíl er nokkuð auðvelt að ímynda sér umhverfið sem frásögnin er sprottin úr. Það er enginn húmor í bókinni og ef hún vekur einhverjar tilfinningar þá eru það forvitni og spenna.

Brooks nýtir sér sömu viðmælendur (persónur) í nokkrum tilvikum. Það fór algjörlega framhjá mér allt of oft. Stundum vissi ég ekkert hver var að tala eða í hvaða aðstæðum ég var stödd. Bókin var því stundum ruglingsleg (ekki síst þar sem ég las hana sem rafbók og á erfitt með að geta ekki flett til baka stundum). Það væri því ekki vitlaust að nálgast hana sem nokkurs konar smásagnasafn sem skipt er upp í nokkra hluta; Upphaf útbreiðslu, viðbragð, baráttan, lífið í dag. Það passaði lestrinum mikið betur að lesa hverja frásögn sem smásögu og fyrir vikið varð heildarupplifunin betri – svona eftir að ég fattaði þann fítus. En það var ósköp ruglingslegt að hætta í miðri frásögn og ætla að hoppa inn í hana aftur, ekki síst þar sem blæbrigðamunur á milli talsmáta viðmælanda var mjög lítill eða enginn. Brooks hefði alveg mátt hafa ögn dýpri persónusköpun.

En bókin er óneitanlega áhugaverð, ekki síst fyrir þá sem hafa dálæti á hugmyndinni um heimsendi líkt og ég. Þá er bókin líka rammpólitíks og eflaust myndu einhver ríki vilja gera athugasemdir við það hvernig mynd er dregin upp af þeim. En mikið rosalega hefði ég viljað hafa hraða uppvakninga í bókinni líka.

Lestu þetta næst

Stormasamt hjónabandslíf

Stormasamt hjónabandslíf

Gift eftir Tove Ditlevsen er minningarbók sem segir frá hjónabandslífi danska rithöfundarins sem...

Ótrúlegt aðdráttarafl

Ótrúlegt aðdráttarafl

Sú hefð hefur skapast á mínu heimili að enda daginn alltaf á að lesa. Kvöldlestur er hluti af...

Ameríka er líka blekking

Ameríka er líka blekking

Fólk var hneppt í þrældóm frá mismunandi svæðum í Afríku nýlendutímans. Það var flutt í gegnum...

Júlían er fullkominn

Júlían er fullkominn

Aumingja Efia er bara átta ára og stjúpmamma hennar pínir hana til að lesa með sér barnabækur til...