Á faraldsfæti (e. The Accidental Tourist) eftir Anne Tyler kom út snemma á níunda áratugnum og vakti strax mikla athygli. Í kjölfar útgáfu var gerð samnefnd kvikmynd með William Hurt og Geenu Davis sem var meðal annars tilnefnd til Óskarsverðlauna. Þrátt fyrir vinsældir bókarinnar og kvikmyndarinnar á níunda ártug síðustu aldar hefur bókin að miklu leyti fallið í gleymskunnar dá. Eins og ég nefndi í nýlegum pistli er mjög gagnlegt að glugga í bókasafn eldri kynslóða og kynnast þannig bókum sem ef til vill eru ekki í kastljósinu, en þannig rakst ég á þessa ágætu bók um daginn og hafði gaman að því að kynnast þessari skáldsögu.
Engin innsýn í aðra menningu
Á faraldsfæti fjallar um Macon Leary, bandarískan mann á miðjum aldri sem vill að allt fari eftir föstum reglum í vinnu, sem og persónulega lífi sínu. Macon starfar sem ferðabókahöfundur en er alls ekki jafn ævintýragjarn og starfstitillinn gefur til kynna. Ólíkt Lonely Planet höfundum sem vilja kynnast lífsstíl innfæddra, þá ferðast hann til borga sem Bandaríkjamenn eru líklegir til að fara í viðskiptaferðir til og skrifar handbók fyrir þá svo að þeir geti tryggt að utanlandsferðin raski sem minnst daglegu lífi þeirra. Þannig tekur hann út hótel sem eru með amerískar dýnur, finnur nálægasta Taco Bell staðinn í evrópuríkjum, leitar eftir amerískum morgunmat, og svo lengi mætti telja. Bækurnar heita The Accidental Tourist enda eru þær ekki ætlaðar þeim sem vilja gerast alvöru ferðamenn. Á faraldsfæti er að sumu leyti ferðabók, enda ferðast Macon víða í bókinni, en veitir hún þó enga innsýn inn í menningu annars lands, því það ætlar Macon svo sannarlega ekki að gera.
Frábær sumarlesning
Við upphaf bókarinnar er Macon að skilja en hann og konan hans hafa nýlega misst einkason sinn tólf ára gamlan og eru bæði að ganga í gegnum sorgarferlið. Hann er komin með daglega rútínu til að forðast of mikla orkunotkun, hvort sem það er hjá sjálfum sér eða heimilistækjum sínum. Eina sem gengur ekki upp eins og skyldi er hegðun Edwards, hundsins hans. Macon kemst þannig í kynni við hundaþjálfarann Muriel og fella þau hugi saman. Muriel er andstæða Macon, hún er hvatvís, hress og óhrædd við nýjar aðstæður. Á faraldsfæti mætti í raun flokka sem ástarsögu en kjarni bókarinnar snýst um samband Macon og Muriel og hvernig það umbyltir hinu formfasta lífi Macon.
Heilt yfir þótti mér bókin ágætis lesning. Hún ber þess aðeins merki að vera komin á fertugsaldurinn, bæði varðandi orðalag og viðhorf persónanna til lífsins, en engu að síður fannst mér mjög kósý að lesa hana og naut húmorsins í henni vel. Ég viðurkenni það fúslega að ég er frekar mikill sökker fyrir bókum þar sem aðalpersónan lærir að meta lífið upp á nýtt og er Á faraldsfæti þar engin undantekning. Persónusköpunin er þó heldur einföld, Macon er skrifaður sem stereótýpa af hinum vansæla manni og Muriel minnir á aðrar kvenpersónur sem koma karlmönnum upp úr þunglyndi. Bókin hefði einnig mátt vera aðeins styttri en ég hugsa að hún spanni ágætlega langt tímabil til að breytingin á lífi Macons sé trúverðug. Á faraldsfæti er þó fínasta afþreying til þess að týnast í og lesa í leti í sumarfríi.