Bókasafnið hans afa

Ég bý svo vel að því að vera umkringd lestrarhestum, bæði í fjölskyldunni og vinahópnum, sem eru afar duglegir að mæla með frábærum bókum. Ég hef nýlega áttað mig á því að eldri lestrarhestarnir hafa samt eitt framyfir þá yngri og það er að geta kynnt mig fyrir bókum sem komu út áður en ég fæddist, eða komst til vits og ára, og hafa í sumum tilfellum fallið í gleymskunnar dá.

Hinn tæplega níræði afi minn, Ásgeir, er þarna einna fremstur í flokki en hann heldur úti lánastarfsemi á við bestu bókasöfn á úr sínu safni sem er reyndar í bílskúrnum. Við afkomendur hans og vinir höfum í gegnum árin fengið lánaðar gersemar úr safninu en síðustu árin hefur hann einkum verið duglegur að ýta að mér ævisögum sterkra kvenna og get ég ekki  annað sagt en að þær bækur hafi uppskorið mikla lestraránægju.

Það búa ekki allir svo vel að eiga eldri lestrarhesta að og mig langar að nýta tækifærið hér og varpa ljósi á nokkrar af þeim skemmtilegu bókum úr bókasafninu hans afa sem hann hefur lánað mér undanfarið sem margir gætu haft gaman af að enduruppgötva.

Fyrsti kvendoktorinn sem gleymdist

Björg ævisaga Bjargar C. Þorláksson eftir mannfræðinginn Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur er stórmerkilegt fræðirit um fyrstu íslensku konuna sem lauk doktorsprófi. Sökum kynferðis hennar hlaut hún aldrei þá viðurkenningu í íslensku fræðisamfélagi sem við mátti búast í kjölfar doktorsnafnbótarinnar. Með þessari bók frá 2001 sem hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin sviptir Sigríður Dúna hulunni af óvenjulegri konu sem fór sínar eigin leiðir og trúði á sjálfa sig til að komast til mennta.

Ég rakst á bókina í bókasafninu hans afa og fékk hana að láni því mig langaði að fræðast um ævi Bjargar; ég vissi að hún hefði verið fyrst íslenskra kvenna til að ljúka doktorsprófi en lítið annað. Þar sem bókin vakti verðskuldaða athygli við útgáfu og Björg hefur verið í umræðunni síðan þá áttaði ég mig ekki á því að við útgáfu hefðu fáir þekkt sögu hennar og framlag á sviðum vísinda og fræða.

Heimskonan Sonja

Ævisögu Sonju Wendel Benjamínsson de Zorrilla fékk ég einnig lánaða úr safninu hans afa. En Sonja er líklega sú íslenska kona sem orðið heimskona á best við. Hún fæddist í Reykjavík árið 1916 en hugurinn leitaði hratt út fyrir landsteina.

Sonja fluttist erlendis þegar hún var ennþá á menntaskólaaldri. Fyrst fór hún til Danmerkur en fluttist þaðan til Þýskalands á valdatíð Hitlers, síðar fór hún til London þar sem hún lifði meðal annars vetrarlangt á Ritz hótelinu og við upphaf síðari heimsstyrjaldar bjó hún í París þar sem hún var Coco Channel málkunnug. Sonja slapp svo með naumindum frá stríðslogandi Evrópu til New York þar sem hún haslaði sér völl á Wall Street og átti í ástarsamböndum við heimsfræga menn, þeirra á meðal skipakónginn Aristóteles Onassis sem síðar giftist Jacqueline Kennedy. Þessi ævilýsing er ef til vill farin að hljóma eins og skáldskapur en svona ótrúlegt var lífshlaup Sonju sem Reynir Traustason ritaði. Þessi bók sem kom út árið 2002 hefur elst vel og get ég mælt með henni fyrir alla sem hafa gaman af lygilegum ævisögum.

Leyndarmál 30 kvenna

Þessi bók eftir Gunnar M. Magnúss er ein sérstakasta bókin sem ég hef fundið í safninu hans afa. Bók þessi kom út á áttunda ártugnum og segja þrjátíu þekktar íslenskar konur frá leyndarmáli en það er ekki gefið upp hver eigi hvaða sögu. Þetta eru ansi mismunandi sögur og sumar flokkast ef til vill ekki undir það sem maður myndi skilgreina sem leyndarmál. Ég kannaðist einungis við eina af þessum konum, Jóhönnu Kristjónsdóttur blaðamann, en það er einmitt hluti af upplifuninni að kynna sér hvers vegna þessar konur voru þekktar á sínum tíma og valdar til þátttöku í bókinni.

Þessar bækur eru einungis brot af þeim sem ég hef komist í kynni við með því að ræða við manneskjur af annarri kynslóð um þeirra uppáhalds bækur og meðmæli. Ég hvet þig því kæri lesandi, ef þú þekkir lestrarhest af annarrri kynslóð, að ræða við hann og fá meðmæli að bók sem þú hefur aldrei heyrt um áður, það gæti leitt þig á ótrúlegustu lestrarslóðir!

 

 

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...