Möndulhalli – Súrrealískar sögur til sagnfræðilegra

Smásagnasafnið Möndulhalli kom út í lok maí. Í bókinni eru tuttugu smásögur eftir tíu höfunda. Höfundar eru nemendur í ritlist við Háskóla Íslands og ritstjórar bókarinna eru nemar í Hagnýtri ritstjórn og útgáfu við sama skóla. Samvinna á milli námsleiðanna tveggja á sér nokkra sögu en þetta er í annað skipti sem Una útgáfuhús sér um útgáfu á smásagnasafninu sem er afurð þessa samstarfs. Bókin Það er alltaf eitthvað kom út árið 2019 frá Unu útgáfuhúsi. Í spjalli við Jórunni Sigurðardóttur í Orð um bækur á Rás 1 kom fram að sumir höfundanna hafi skrifað inn í þema bókarinnar, en aðrir hafi látið smásögur sem þau áttu í handraðanum fylgja í safnið. Það er þó ekki að sjá á safninu að þar hafi sumir höfundar skrifað inn í þemað og aðrir ekki. Flestar sagnanna eru svolítið á skjön við raunveruleikann. Rétt eins og möndull jarðar er á skjön við sporbaug sinn.

Það er nokkrum vandkvæðum bundið að ætla að fjalla um smásagnasafn þar sem höfundar eru eins margir og í þessu safni. Í raun og veru væri ekki réttlætanlegt að fjalla um bókina nema með því að fjalla um hverja sögu fyrir sig, snúa henni á alla kanta og gefa svo upp dóm. Það yrði þó að ansi löngum og ólæsilegum pistli um mjög svo áhugaverða bók. Því verður hér aðeins stiklað á stóru yfir bókina og talað um hana sem heildarverk, þótt mig hefði gjarnan langað að kafa ofan í hverja sögu fyrir sig.

Sögur á skjön

Þema bókarinnar, þótt allir höfundar hafi ekki skrifað beint inn í það, þykir mér afskaplega skemmtilegt. Það gefur höfundunum tækifæri til að koma lesandanum á óvart, hrinda honum út fyrir þægindahringinn og fá hann til að hugsa aðeins út fyrir kassann. Sumt af því sem var á skjön kom mér skemmtilega á óvart og aðrar voru næstum óþægilegar.

Ég efast ekki um að margir þeirra höfunda sem eiga sögur í bókinni eigi eftir að láta að sér kveða í íslenskum skáldheimi á næstu árum. Það er greinilegur hæfileiki í mörgum sögunum, persónusköpun til fyrirmyndar og hugmyndaauðgin stórkostleg. Aðrar sögur áttu ekki eins mikið upp á borð hjá mér og mér fannst sumar jaðra við að vera tilgerðarlegur uppspuni um ekki neitt og óþarflega dramatískar. Sumar sagnanna eru húrrandi súrrealískar og hreint út sagt furðulegar og svo þrungnar myndmáli að það var nær ómögulegt að lesa þær. Aðrar eru mun aðgengilegri og liggja betur fyrir lesanda. Lesandi fylgist með safnverði á Endaþarmssafninu, fljúgandi vinkonu, ungu pari sem stelur af opnu húsi, ungu fólki í tilvistarkreppu, síðustu andartökum jarðar, ókræsilegum endalokum kattar, flöktandi loga í glugga, og síðustu andartökum reiðrar ungrar konu. Það kom mér á óvart hve fjölbreyttar sögurnar í bókinni eru, ekki síst þótti mér gaman að sjá smásögur í ætt við vísindaskáldskap í bókunum en það er bókmenntagrein sem þarf að fara að sækja í sig veðrið í íslenskri bókaútgáfu.

Tilvalin í sumarlesturinn

Að lokum verð ég að nefna gullfallega kápu bókarinnar, sem er hönnunn Elínar Eddu Þorsteinsdóttur. Á stafrænu formi nær hún engan veginn að skila til lesandans, því litirnir njóta sín best í beinni sjón. Því mæli ég með að lesendur næli sér í bókina í næstu bókabúð til að klappa henni, strjúka og njóta litanna í allri sinni dýrð.

Möndulhalli er tilvalin bók í sumarlesturinn, sögurnar eru vel flestar aðgengilegar, skemmtilegar, fróðlegar og vel skrifaðar. Þess utan er alltaf gott að hafa eitt smásagnasafn við höndina, til að geta lesið eina og eina sögu á milli bóka. Möndulhalli mun ekki valda vonbrigðum.

Lestu þetta næst

Aðferðir til að lifa af

Aðferðir til að lifa af

Gáfaða dýrið er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur en bókin kom út núna á vormánuðum 2024. Sæunn er...

Verur sem þjást

Verur sem þjást

Dani er venjuleg kona. Hún er komin níu mánuði á leið með dóttur sína Lotte, hún var að flytja...

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.