Valdimarsdagur er söguleg skáldsaga og önnur bók Kim Leine. Látlaus bók og drungaleg yfirlitum og vekur upp hjá mér þá tilfinningu að ekki sé allt sem sýnist og þessa bók beri að nálgast með varúð. Sem ég og geri. Ég vel mér tímann til að lesa, mig grunar nefnilega að ekki komi ég til með að geta lagt hana frá mér fyrr en að lestri loknum. Spilar þar eflaust inn í upplifun mín af fyrri bókum Leine, sem allar höfðu þau áhrif á mig að lokka mig aftur að lestrinum og sitja svo fast í huganum að ég átti erfitt með að leiða hugann að öðru. Bókaútgáfan Sæmundur hefur gefið út bækur Leine og þýðingar Jóns Halls Halldórssonar þykja með ágætum.
Morð á fallegum degi
Valdimarsdagur olli mér ekki vonbrigðum. Leine segir hér sögu föðurafa síns Eriks. Hann er á þrítugsaldri, fráskilinn faðir sem að mjög vandlega íhuguðu máli myrðir manninn sem stal eiginkonu hans og barni. Erik mælir sér mót við hann í leiguherbergi sínu og þar framkvæmir hann verknaðinn fumlaust og yfirvegað, sest svo á bak reiðhjóli sínu til fundar við lögregluna í því skyni að gefa sig fram og játa verknaðinn. En ekkert verður úr því. Dagurinn er fallegur, það er sól og mannlífið einstaklega litríkt svo að Erik ákveður að ekkert liggi á, það verði nógur tíminn til að játa daginn eftir. Hann leggur því af stað og tekur stefnuna í áttina að heimahögum. Ekki líður að löngu þar til að líkið af mannræflinum í íbúðinni finnst og lögreglan setur af stað rannsókn, Erik er eftirlýstur um alla Danmörk.
Við fáum að fylgjast með Erik á leið sinni, smám saman opnast augu okkar þvílíkan mann hann hefur að geyma. Bernska hans litast af samskiptum hans við foreldrana í æsku, nöturleg uppvaxtarár þar sem trúarofstæki og ofbeldi réði ríkjum markaði þennan dreng sem hefur eflaust verið í upphafi eins venjulegur og önnur börn en umbreyttist í eitthvað annað með tímanum. Sagt er frá sambandi hans við systur hans, kynferðisleg samskipti hans við hana sem eru út fyrir öll mörk og svo síðar samskiptum hans við kvenfólk sem eru afbrigðileg og lituð ofbeldi. Rauði þráðurinn í sögunni er valdabarátta afans við foreldra, systur, kvenfólk, samreiðarfólk almennt.
Sjónarhorn gerandans
Endurlit inn í fortíð Eriks er á köflum ljóðræn og textinn, sem er napurlegur og kaldur vekur upp ruglingslegar tilfinningar lesandans sem veit stundum ekki hvort hann á að vera reiður eða dapur eða vantrúa eða allt í senn.
Við skyggnumst inn í huga manns sem beitir ofbeldi innan veggja heimilis og fáum að sjá sjaldgæft sjónarhorn þar sem gerandinn er í aðalhlutverki. Sem gerir ofbeldið í raun mun hryllilegra fyrir vikið.
Samhliða fáum við að fylgjast með rannsókn lögreglunnar á morðinu, ítarleg lýsing réttarmeinalögreglunnar á líkinu er í senn ógeðsleg og heillandi.
Þessi bók er í einu orði sagt, frábær en einnig líka hræðileg. Harkalegar lýsingar á vændi, nákvæm útlisting á morði í upphafi bókarinnar og nöturleg lýsing á mannlífi fátæks fólks í Kaupmannahöfn í upphafi 21. aldar þar sem almúgakonur höfðu ekki önnur ráð en að selja það eina sem þær áttu, líkamann, er sláandi.
„Konurnar í Hlandforinni svokölluðu vinna lengi frameftir og vakna seint. Hann þekkir taktskiptin í tilveru þeirra, sér þær oft á náttkjólunum og kotum og er strax búinn að læra hvað þær heita, Flóra, Lóló, Rósa. Og svo er ein ung og nafnlaus með ögrandi augnaráð, rauðan munn og nýjar tennur sem hún hefur eflaust fengið í fermingargjöf. Fyrir nokkrum dögum sá hann hana taka þær út úr sér og skola þær undir vatnsdælunni við brunninn. Síðan hrækti hún og stakk tanngarðinum aftur upp í sig. Hölt er hún líka, hægri fótleggurinn stífur eins og stólpi. En ung, föl fyrir fáeina túkalla…(bls „
Lýsing á aðstæðum fólks sýnir svo ekki sé um villst að Leine hefur lagt mikið á sig við að setja sig inn í tíðarandann. Bókin lifnaði við í huga mér. Ég sá fyrir mér ljóslifandi morðið í íbúðinni, ég sá ferðalag afans á hjólinu og í huga mér blossuðu allskyns myndir af endurminningabrotum hans. Sumt var svo erfitt að sjá að ég varð að leggja bókina frá mér og hvíla mig á lestrinum. Textinn er lipur og grípandi, laus við orðskrúð og óþarfa málalengingar, blákalt sagt frá án allra tilfinninga eða óþarfa dramatíkur.
Þessi bók hreyfir við lesandanum, hann verður ekki alveg samur á eftir. Þið, sem eruð þolendur heimilsofbeldis, farið varlega við lestur þessarrar bókar, hún á eftir að reynast sár og truflandi.