Meitluð og vönduð ljóðabók

Á síðasta ári kom út önnur ljóðabók Sigurbjargar Friðriksdóttur hjá bókaútgáfunni Skriðu. Ljóðabókin ber heitið Vínbláar varir og vakti áhuga minn þegar ég byrjaði að kynna mér útgáfuna Skriðu.

Bókin er fallegt prentverk, það er bókamerki úr bandi og stærðin er lítil og handhæg. Innsíðurnar hafa fölbleikan blæ og hvert ljóð fær að njóta sín á heilli opnu. Bækur Skriðu eru allar í þessum stíl og eru hönnuðurnir Snæfríð Þorsteins og Hildigunnur Gunnarsdóttir.

Sjónrænt myndmál

Vínbláar varir heillaði mig strax. Ljóðin eru svo meitluð og virkilega vönduð að ég lifði mig strax inn í bókina. Flestöll ljóðin eru stutt, aðeins ein síða, og viðfangsefnin eru fjölbreytt.

Myndmálið er ríkulegt og sjónrænt: „ekkert skiptir máli // nema minningarnar / sem svífa / í fallhlíf // fuðra upp / í lendingu“ (bls. 15) Finna má dæmi um þetta í nánast öllum ljóðunum.

 

Falleg nýyrðasmíði

Nýyrðasmíðin í ljóðabókinni er falleg og gengur einstaklega vel upp. Orð eins og „vonarbirta“, „skuggafjöll“ og „morgundrungi“ má finna á síðum bókarinnar. Orðavalið í ljóðunum ýtir undir upplifun lesandans.

 

Spunavefur

björt augu þín
daðrandi tunga
mjúkur faðmur

gljáfægðir draumar

myrk augu þín
niðrandi tunga
harður hnefi

blóðrispaðar martraðir

(Vínbláar varir, bls. 25)

 

Hér í ljóðinu „Spunavefur“ er andstæðum varpað upp þar sem manneskja umbreytist úr draumkenndum elskhuga í martraðakenndan óvin. Í ljóðinu má einmitt sjá dæmi um hversu mikið orðavalið skiptir máli en „gljáfægðir draumar“ og „blóðrispaðar martraðir“ eru einstaklega fallegar andstæður og er nýyrðið „blóðrispað“ einstaklega flott og lýsandi.

Taktföst áhrif

Eitt ljóð bókarinnar sker sig út úr hópnum en það er ljóðið „Þakkargjörð“. Það ljóð spannar margar blaðsíður og lýsir jarðarför með taktföstum hætti. Ljóðlínurnar eru eins og svipmyndir frá athöfninni og deginum sem eykur áhrif ljóðsins. Í því eru margar kristilegar vísanir ásamt vísunum í íslensk dægurlög.

 

Ljóðabókin hefur fallega heildarmynd og virkar á alla vegu. Fyrir mér hefði hún jafnvel mátt vera lengri. Bókin gæti verið tilvalin tækifærisgjöf, jafnvel í pakka með fleiri bókum frá útgáfunni.

Lestu þetta næst

Smáar sögur, stór orð

Smáar sögur, stór orð

Smásagan: skáldverk sem hægt er að lesa í einum rykk, við einn kaffibolla, í einni strætóferð, á...

Nútíma Agatha Christie

Nútíma Agatha Christie

Gestalistinn eftir breska spennusagnahöfundinn Lucy Foley kom út í íslenskri þýðingu í apríl 2022....