Stundum fær maður bók í hendurnar sem einhvern veginn höfðar ekki til manns á óútskýrðan hátt. Kannski er það titill bókarinnar, kápan eða letrið í bókinni sem virka fráhrindandi. Oft er það samt eitthvað sem maður veit ekki hvað er. Bókin bíður því í bunkanum í von um að þrátt fyrir allt komi eitthvað til með að vekja á henni athygli þannig að hún verði tekin upp og lesin, á endanum. Ég hef haft eina slíka bók í hillunni hjá mér í heilt ár. Bæði kápan og titilinn höfðu þau áhrif á mig að bókin færist alltaf neðar í bunkanum og rykféll og féll svo í gleymsku. Þar til að ég hitti konu á bókamarkaði sem bað mig um að redda sér þessari bók, hún hefði heyrt að þessi höfundur ”hefði allt”. Og þá var forvitni mín vakin. Bókin Móðir eftir Alejandro Palomas í þýðingu Sigrúnar Á. Eiríksdóttur var því grafin upp neðst í öllum bunkanum, rykið dustað af og ég fékk að kynnast þessari ótrúlegu fjölskyldu sem bókin fjallar um.

Það sem ekki má tala um.

Sögusviðið er Barcelona, Amalía er hálfsjötug þriggja barna móðir, fráskilin og einhleyp. Framundan er gamlárskvöld með öllum sínum sjarma og Amalía á von á börnum sínum og bróður, saman í kvöldverð í fyrsta skipti í langan tíma. Sagan spannar þessa einu kvöldmáltíð en síðan er farið aftur í tímann í endurminningar sögumanns en sagan er sögð frá sjónarhóli Fernandos eða Fer eins og hann er kallaður. Hann er yngstur af þessum þremur systkinum, samkynhneigður og nýskilinn við sambýlismann sinn sem skildi hann eftir einan með hvolp af tegundinni Stóri Dan. Eitt af öðru týnast matargestirnar inn um dyrnar; Silvía sem er elst systkinanna, Emma og sambýliskona hennar Olga og svo seint og um síðir gusast Eduardo, bróðir Amalíu inn um dyrnar.

Allar fjölskyldur hafa einhverskonar vandamál og þessi er engin undantekning. Undir niðri krauma óuppgerð mál  af allskonar tagi. Fjarvera föðursins og sú staðreynd að hann skyldi yfirgefa mömmuna og uppkomin börn sín í leiðinni setur óneitanlega mark sitt á fólkið með ólíkum hætti. Höfnun, eftirsjá, reiði, allt blandast þetta saman svo úr verður kokteill, bitur á bragðið sem skilur eftir sig sársauka og langvarandi óbragð.

Ómetanlegar persónur

En þrátt fyrir þessa dramatík alla er sagan full af hlátri. Mamman er óborganleg persóna og samskipti hennar við vinkonuna Ingrid eru slík að tárin renna niður kinnarnar á manni þegar lesið er um samtöl þessarra tveggja kvenna. Ingrid fáum við þó aðeins að kynnast í gegnum uppkomnu börnin sem eru óspör á skoðun sinni á þessari skrýtnu vinkonu. Bókin er ágætlega skrifuð, persónusköpunin er vel gerð og stendur þar upp úr móðirin sjálf sem er ótrúlega vel skrifuð sem og vinkonan Ingrid sem er þarna í bakgrunni án þess að koma nokkru sinni sjálf fram.

Þessi bók var fyrir mér eins og gott ferðalag sem maður vill ekki koma heim úr og gleði mín var því ósvikin þegar ég komst að því að hún er sú fyrsta í þríleik og bókin Hundur er þegar komin út.

Hvers virði er einn hundur?

Í þeirri bók er aðaláherslan á móður og elstu dótturina Silvíu, veikindi móðurinnar, fortíð hennar og samband hennar Silvíu.

Í báðum bókunum gegna hundar ákveðnu hlutverki, þeir sameina og eru verkfæri til að veita tilfinningum persónanna útrás, þegar samskiptin eru slík að erfið mál eru ekki rædd, tilfinningarnar ekki látnar í ljós. Það er jú alltaf öruggt að elska hund eða hata, hann gagnrýnir ekki, hefur ekki skoðun og dæmir ekki. Eða hvað?

Eins og í fyrri bókinni gerist sagan á einni kvöldstund þar sem systkini og móðir sitja á kaffihúsi og bíða eftir fréttum af hundinum hans Fer, honum R sem liggur lífshættulega særður á dýraspítala eftir að hafa orðið fyrir bíl. Sem áður er Fer sögumaðurinn, hann sýnir okkur leiftur út fortíðinni sem segja okkur magnaða sögu þessarar fjölskyldu, spurningum sem stóðu eftir ósvaraðar úr fyrri bókinni er svarað í þessari og nýjar spurningar vakna sem bíða lokakaflans úr bókinni Amor sem er ekki komin út þegar þetta er skrifað.  Persónusköpunin er ívið sterkari í seinni bókinni, sem fyrr er það móðirin sem stelur senunni, samtal hennar við afgreiðslustúlkuna á kaffihúsinu er óborganlegt og fyndið þó undir niðri glitti í veikindin sem eru langt í frá eitthvað til að grínast með. Silvía er svo sú persóna í þessari bók sem nær að fanga hug og hjarta lesandans, hlutverk hennar í systkinahópnum á æskuárum fær eflaust marga til að minnast sinna eigin æskuára.

Saga Silvíu er afskaplega raunsæ lýsing á æsku margra, hvernig eitruð samskipti foreldra geta smitað út frá sér og skemmt og brotið viðkvæm börnin sem þurfa svo að glíma við afleiðingarnar langt fram á fullorðinsár og jafnvel alla ævi.

Þessar bækur eru vel þess virði að lesa, textinn er lipur og grátbroslegur en verður þó kannski ekki talinn til bókmenntalegra stórverka. En virkilega góð afþreying engu að síður og margir gætu eflaust séð sig og sitt fólk í þessar fjölskyldu. Og því miður, margir sem eflaust geta samsvarað sig í þeim aðstæðum sem sögupersónur lifðu og hrærðust í. Gildir þá engu hvort um ræðir bernska systkinanna eða aðstaða móðurinnar sem bjó í vonlausu og niðurbrjótandi hjónabandi.

Að lokum verð ég að minnast á kápur bókanna, sem eru að mínu mati óspennandi og vekja ekki áhuga við fyrstu sýn.

 

Lestu þetta næst

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...

Sumarleg og fjörug sandkaka

Sumarleg og fjörug sandkaka

Nýlega kom út Mamma Sandkaka, lífleg og fallega myndlýst barnabók eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur....

Flugur á sad beige vegg

Flugur á sad beige vegg

Við erum stödd á fyrstu frumsýningunni á stóra sviðinu á leikárinu. Það er verið að fara sýna...