Í haust var fyrsta bókin um Artemis Fowl eftir Eoin Colfer endurútgefin af Forlaginu í tilefni af væntanlegri kvikmynd sem byggð er á bókinni. Hún var fyrst gefin út á íslensku árið 2001 í þýðingu Guðna Kolbeinssonar og varð fljótt geysivinsæl, og þá eins og nú mátti sjá á kápunni tilvitnun í núverandi forsætisráðherra sem mælir eindregið með henni. Ekki amaleg meðmæli það! Ég verð að viðurkenna að ég tel mig næstum þvi óhæfan til að fjalla um Artemis Fowl þar sem ég las þessar bækur svo í ræmur í barnæsku minni að þær líta nú út eins og lifaðar bókasafnsbækur. Bók númer tvö bar þess svo aldrei bætur að ég fór með hana í bað en ég var þá, um ellefu ára, ekki alveg með siðareglur baðbókalesturs á hreinu. En ég mun reyna að fjalla um Artemis Fowl án þess að nostalgía frá æskuárum hafi of mikið vægi.
Fagurfræði eða markaðsfræði?
En að öðru. Það sem er nýtt í þessari endurútgáfu er bókakápan. Mér finnst persónulega mjög erfitt að toppa upprunalegu bókakápuna þar sem tákn og myndir á kápunni bæði líta vel út og eru beintengd á fleiri vegu en bara táknrænan hátt við framvindu verksins. Þannig er kápan útlítandi eins og Bókin, forn fjársjóður sem Artemis leitar í upphafi. Einnig mátti sjá í gömlu útgáfunni álfarúnir efst og neðst á hverri blaðsíðu. Þetta tengist einnig sögunni beint og var fyrirtaks tilbrigði við hina hefðbundnu bókasíðu.
Eina breytingin milli útgáfa er kápan sjálf, enn er notast við sömu þýðingu Guðna Kolbeinssonar og hönnunin á blaðsíðunum fær blessunarlega að halda sér. Ef gamla bókakápan var hönnuð af myndlistarmanni með fagurfræði og dulúðleika í fyrirrúmi lítur nýja kápan út eins og hún hafi verið hönnuð af markaðsdeild. Þetta er þó ekki jafn neikvætt og það hljómar. Nýja kápan skartar aðalpersónum bókarinnar, teiknuðum í stíl sem er keimlíkur þeim sem notaður er í Fortnite – einum vinsælasta tölvuleik heims meðal barna og unglinga. Ég er nokkuð viss um að þessi nýja kápa sé söluvænlegri en sú gamla, hún nær athygli manns og myndirnar sem minna á Fortnite geta ekki skaðað. Til að draga þetta saman má segja að gamla kápan hafi vinninginn fagurfræðilega en nýja kápan höfðar líklega betur til ungmenna dagsins í dag.
Yfirnáttúra og raunsæi í eina sæng
Sagan hverfist um hinn írska Artemis Fowl. Artemis er nokkuð óvenjulegur 12 ára drengur því auk þess að vera afburðagáfaður er hann höfuð Fowlfjölskyldunnar, gamalgróinnar glæpafjölskyldu á Írlandi. Faðir Artemis, Artemis Fowl eldri, er talinn af eftir sjóslys við strendur Rússlands og nú er það undir hinum unga Artemis að endurheimta ættarauðinn en það ætlar hann að gera með því að stela gulli af álfum.
Sögurþráður verksins er frumlegur og spennandi en það er ekki síður stíllinn sem heillar mann við lesturinn. Sagan er skrifuð í hröðum, raunsæislegum stíl en með gamansömum tón. Skemmtilegt er hvernig umhverfisgagnrýni er sett fram með því að framandgera heim okkar með því að sjá hann í gegnum augu álfa. Þessi gagnrýni er nokkuð á undan sinni samtíð og ber að hrósa okkar manni Eoin Colfer fyrir að benda á loftslagsvána á tímum þar sem fáir kærðu sig slíkt tal. Framvindan er dálítið eins og í hefðbundinni njósnasögu en gerist þó í heimi sem inniheldur töfra, álfa, tröll og dverga eða eins og Katrín Jakobsdóttir segir í dómi sínum um bókina: „Blanda af James Bond og Harry Potter“.
Fyrst og fremst er Artemis Fowl skemmtileg. Það er sjaldan dauður kafli í bókinni og textinn líður liðlega áfram og orðfæri bókarinnar er nokkuð einfalt án þess að vera fátæklegt svo hún hentar vel fyrir fólk á öllum aldri. Persónur verksins eru frumlegar og þroskast og breytast gegnum söguna og í gegnum bókaflokkinn allan en sögurnar um Artemis Fowl eru nú orðnar átta talsins. Endurútgáfa Artemis Fowl er prýðisgóð hugmynd. Um tuttugu ár eru frá fyrstu útgáfu og heil kynslóð komin fram sem ekki þekkir söguna. Vonandi verður endurútgáfan og væntanleg kvikmynd til þess að ný kynslóð uppgötvi hinn töfrum slungna heim Artemis Fowl.