Maður missir tökin á tilverunni

Þriðja skáldsagan eftir Jónas Reyni er nú komin út en hún var ein af fyrstu skáldsögum jólabókaflóðsins til að líta dagsins ljós. Margir biðu hennar í ofvæni þar sem hann er einn af þessum nýju rithöfundum sem býður alltaf upp á eitthvað nýtt og spennandi í skrifum sínum.

Dauði skógar fjallar um frekar venjulegan fjölskylduföður sem býr í smábæ úti á landi, hann Magnús sem vinnur ekki þar sem hann seldi fyrirtækið sitt með miklum gróða. Furðuleg atburðarrás veldur því að hann byrjar að missa tökin á raunveruleikanum, skógurinn sem foreldrar hans plöntuðu rennur niður hlíðina í jarðrofi og faðir hans deyr í kjölfarið. Enn versnar það því stuttu seinna finnur Magnús gamlar sprengjur sem hafa verið grafnar í hlíðina, af bretum í stríðunu líklega, en sjást nú í moldarbingnum. Fjölskylduvandamál hrjá hann einnig en sonur hans er að sýna óeðlilega hegðun í garð stúlku sem er með honum í bekk og er hann að verða hálfgerður eltihrellir. Þetta allt saman setur jafnvægi Magnúsar úr skorðum og úr verður örlítið furðuleg bók þar sem ekki er hægt að spá fyrir um hvað gerist næst.

Erfiðleikum sópað undir teppi

Það má segja að hér sé manneskjan og upplifanir hennar til umfjöllunar, hvernig hún bregst við áföllum og óþægilegum aðstæðum. Magnús hverfur meira og meira inn í sig, leynir mikilvægum hlutum frá konunni sinni og elur með sér þráhyggju fyrir dauða skóginum og sprengjunum. Á sama tíma hefur hann engin verkfæri til að eiga við vandamál sonar síns og forðast það að leysa þau. Eins og kona hans kemur vel að orði: „…þú sópar öllum erfiðleikum undir teppi. Farinn að safna leyndarmálum. Ég þarf að redda pössun fyrir þig á daginn.“ (bls. 151)

Líkingar stóðu upp úr

Í Dauða skógar er það ekki söguþráðurinn sem er í fyrirrúmi en söguþræðinum má kannski lýsa eins og óreiðukenndu krullunum sem prýða harðspjaldakápuna (og þónokkrar síður inni í bókinni). Það er mannshugurinn og textinn sjálfur sem er hér í aðalhlutverki en myndmálið og líkingarnar sem Jónas vefur inn í textann er það sem stendur upp úr eftir lesturinn: „Ég gæti aldrei lagað skóginn. Ég væri að gera að sárum hermanns sem hefur orðið fyrir skothríð, ekki í þeim tilgangi að lækna hann, heldur til að lappa upp á líkið fyrir útförina.“ (bls. 134-135) Eins og sjá má hér í þessu broti er húmorinn aldrei langt fjarri en margar lýsingarnar eru skondnar þó að efni bókarinnar sé alvarlegt.

 

Dauði skógar er óvenjuleg en vel skrifuð bók sem heldur manni í óvissu allan tímann. Allt fer úr böndunum hjá Magnúsi því hann kann ekki að eiga við vandamál sín á heilbrigðan hátt. Það er bæði sorglegt og stundum fyndið að fylgjast með lífi greyið mannsins en oftast getur hann sjálfum sér um kennt.

Lestu þetta næst

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...

Heillandi jóladraumar

Heillandi jóladraumar

Íslenski dansflokkurinn býður upp á Jóladrauma þessa aðventu. Um er að ræða danssýningu fyrir börn...

Næturbrölt

Næturbrölt

Í fyrra lásum ég og drengurinn minn bókina Tannburstunardagurinn mikli og vorum hæstánægð. Næsta...

Að ánetjast eldri konum

Að ánetjast eldri konum

Ég hef verið áðdáandi Evu Rúnar núna í þónokkur ár. Ljóðabækurnar hennar og örsagnasöfn hafa verið...