Kærkomin endurútgáfa á gamalli klassík

Mikið svakalega gladdist ég mikið þegar ég sá bókina Gunnhildi og Glóa úti í bókabúð um daginn. Texti er eftir Guðrúnu Helgadóttur og myndir eftir Terry Burton og Úlfar Örn Valdimarsson. Bókin, sem kom upphaflega út árið 1985, var svo stór hluti af hugarheimi mínum í barnæsku að ég á erfitt með að lýsa því. Sagan um leiðu leikskólastelpuna Gunnhildi og myndirnar sem sýndu þennan vetrardag í lífi hennar, allt frá þunglyndum, grátandi bílum á skammdegismorgni yfir í glampandi hvítan snjóinn sem prýðir allt eftir því sem dagurinn fer batnandi, hafa setið einhvers staðar djúpt í undirmeðvitundinni hjá mér í hátt á þriðja áratug. Í sumar tók ég hana svo á bókasafninu fyrir son minn og dæsti mikið yfir því að ég gæti ekki bara keypt hana fyrir hann úti í búð. En nú er það sumsé hægt sem er mikið fagnaðarefni.

Töfrar (og leiðindi) hversdagsins

Það er töluvert mikið magn af texta í bókinni, fullmikið að minnsta kosti fyrir son minn sem er ekki orðinn þriggja ára. Á hinn bóginn er samspil mynda og texta og uppbygging sögunnar þannig að mér finnst mjög auðvelt að lesa bara hluta af bókinni án þess að það geri söguna ruglingslega. Sumar blaðsíður lesum við í heild sinni, annars staðar lesum við kannski bara tvær setningar. Bókin er mjög vinsæl hjá okkur mæðginum, þó ég verði að viðurkenna það að alltaf þegar ég les upphafssetningu sögunnar með viðeigandi leikrænum tilþrifum („Alltaf er einhver einhvers staðar að gráta“) má ég búast við því að heyra föður barnsins bæla niður hlátur í næsta herbergi. Það er nú svona, sumir eru kaldrifjaðri en aðrir og ekki jafn opnir fyrir fullum þunga sósíalrealismans.

Bókin fjallar um einn dag í lífi Gunnhildar, sem sennilega er eitthvað í kringum fjögra ára. Gunnhildur er einkabarn einstæðrar móður sem er alltaf svo þreytt og þær þurfa að flýta sér á leiðinni í leikskólann. Á deildinni hennar Gunnhildar ríkir svo ærandi hávaði þar sem allir eru að leika sér á mjög ærslafenginn hátt, hrista borð, detta niður af ofnum og púsla með hamri. Allir nema Gunnhildur, sem er bara að gráta. En svo koma töfrar ímyndunaraflsins til hjálpar: Til að þagga niður í krökkunum er dregin fram bók um álfa sem, án þess að Gunnhildur átti sig á því, endar á því að breyta öllu. Því þegar hún fer síðan út að leika hittir hún álfastrákinn Glóa sem sýnir henni geislasteinana sína og bendir henni á allt það fallega í heiminum.

Saga sem gæti (næstum því) gerst í dag

Þó ímyndunaraflið og þjóðtrú um álfa leiki svona stórt hlutverk í bókinni þá er hún fyrst og fremst raunsæissaga og það er ótrúlegt hvað hún hefur elst vel. Hvað textann varðar þá gæti hún allt eins skeð í dag, einu breytingrnar sem hafa verið gerðar í endurútgáfunni eru þær að orðunum dagheimili og fóstra hefur verið breytt í leikskóli og kennari, sem er hið besta mál. Bók um hversdaginn fyrir börn á leikskólaaldri á að nota orðaforða sem þeim er tamur. Í raun og veru er bara eitt í textanum sem hefur elst verulega illa, og það er hliðarsagan um ruslafötuna. Um morguninn er hún í vondu skapi af því að fólkið var sóðar og henti ruslinu beint í tunnuna, en um eftirmiðdaginn er hún glöð og ánægð því þá er hún „stútfull af rusli í snjóhvítum plastpokum“. Líklega væri jörðin mun hreinni í dag ef fleira fólk hefði haldið í þann sið að sleppa plastpokunum frá árinu 1985, en hvað um það. Hamskiptin á ruslatunnunni eru mjög myndræn og auðvelt að lifa sig inn í þau.

Eina breytingu hefði ég þó viljað sjá á textanum í endurútgáfunni en það er á bls. 7-8 þar sem krakkarnir eru að leika sér á leikskólanum. Textinn fylgir myndunum mjög nákvæmlega eftir á skemmtilegan hátt, fyrir utan það að þar er sagt frá tveimur krökkum að púsla þegar myndin sýnir bara einn, svo ég sleppi alltaf öðrum þeirra í upplestrinum. Í anda níunda áratugarins eru öll börnin hvít og íslensk, en sem fullorðinni manneskju finnst mér fallegt að sjá að eitt barnanna er í hjólastól og annað með gleraugu. Hjólastóllinn verður að skemmtilegu leiktæki sem tengir eiganda hans við önnur börn, ólíkt Gunnhildi sem er einangruð í depurð sinni.

Myndirnar í bókinni eru, ef eitthvað er, enn betri en textinn. Þegar bókin kom út 1985 var sérstaklega tekið fram aftan á kápunni að annar myndhöfundurinn, Terry Burton, væri búsettur í London. Mér finnst mjög forvitnilegt hvernig samstarfi teiknaranna hefur verið háttað, því myndirnar í bókinni eru eins reykvískar og orðið getur. Það er kannski helst að mér detti í hug að þessi breski teiknari eigi einhvern þátt í því að mörg barnanna undir lok bókarinnar eru úti að leika sér í strigaskóm og úlpu, flest berhöfðuð og vettlingalaus og enginn nema Gunnhildur í pollabuxum. En hvað um það, myndirnar í þessari bók eru stórkostlegar. Öfugt við texta bókarinnar, þá staðsetja þær söguna rækilega í fortíðinni, en líklega eru það bara foreldrar með nostalgíu sem taka eftir því. Að mínu mati er þessi nostalgía stór bónus.

Kvarthornið

Einnig verð ég að benda á þetta hræðilega leiðinlega slys sem hefur orðið við prentunina, vonandi bara á mínu eintaki, en samt.

Hins vegar verð ég að segja eins og er, að mér finnst þessi endurútgáfa ekki gera myndunum nægilega vel skil. Upphaflega var bókin prentuð á glansandi pappír en endurútgáfan er prentuð á mattan pappír. Í fyrstu leist mér bara vel á þetta, mattur pappír er mjög fallegur og glanspappír kannski eitthvað hallærislega eitís. En ég var fljót að skipta um skoðun. Þessar myndir eru gerðar fyrir glans. Tárin hennar Gunnhildar, glampinn á regnstígvélunum, geislasteinarnir hans Glóa, snjóbráð á björtum degi í mars, ég gæti haldið endalaust áfram. Þessi sérstaki ljómi sem heillaði mig sem barn er ekki lengur til staðar í bókinni. Þess í stað eru myndirnar orðnar of dökkar. Ef upprunalega bókin gerðist í mars þá gerist endurútgáfan í nóvember. Sums staðar verður áferðin á myndunum beinlínis pixluð. Allra verst er myndin þar sem mamman kemur að sækja Gunnhildi í leikskólanum. Þessi bjarti hápunktur sögunnar er ekki svipur hjá sjón.

 

Þó ég geti ekki annað en glaðst yfir því að vera aftur búin að eignast þetta grundvallarrit á heimili mitt, og hvatt alla sem ekki þekkja Gunnhildi og Glóa til að bæta úr því, þá held ég að ég muni ekki hætta að svipast um eftir upprunalegu útgáfunni í Kolaportinu.

Lestu þetta næst

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...

Heillandi jóladraumar

Heillandi jóladraumar

Íslenski dansflokkurinn býður upp á Jóladrauma þessa aðventu. Um er að ræða danssýningu fyrir börn...

Næturbrölt

Næturbrölt

Í fyrra lásum ég og drengurinn minn bókina Tannburstunardagurinn mikli og vorum hæstánægð. Næsta...

Að ánetjast eldri konum

Að ánetjast eldri konum

Ég hef verið áðdáandi Evu Rúnar núna í þónokkur ár. Ljóðabækurnar hennar og örsagnasöfn hafa verið...