Þóra Karítas Árnadóttir sendi frá sér sína fyrstu skáldsögu í síðasta jólabókaflóð, bókina Blóðberg. Áður hefur hún sent frá sér bókina Mörk, sögu móður hennar. Blóðberg segir af hinni ungu Þórdísi Halldórsdóttur sem sver árið 1608 að hún sé hrein mey til að kveða niður kvitt um að hún sængi með mági sínum, sem var refsivert með stóradómi. Fimm mánuðum eftir að eiðurinn er svarinn eignast Þórdís barn og augljóst að hún hefur logið við eiðtökuna.

Byrjum á endinum

Þóra Karítas spinnur hér vef Þórdísar Halldórsdóttur, sem var fyrsta konan sem var drekkt í Drekkingarhyl á Þingvöllum 1618. Öðrum kynsystrum hennar hafði þangað til verið drekkt í til dæmis bæjarlækjum fyrir svipaðar sakir og Þórdísi var drekkt fyrir.

Bókin byrjar á endinum, svo lesandi er aldrei í vafa um hvert stefnir. Þórdís sjálf segir sögu sína. Hún málar upp mynd af erfiðri lífsbaráttu, ójafnrétti, mismunun og ótta. Í tíu ár eftir að hún ól barn þurfti hún að fara á hverju sumri á Þingvelli til að standa fyrir dómi, en máli hennar var jafnan vísað aftur í hérað. Þóra Karítast nær að draga upp nokkuð raunsanna mynd af raunum konu sem lifir lífinu með dauðann hangandi yfir sér. Þórdís gat þó ekki sagt sannleikan um tilkomu barnsins, enda við ofurefli að etja og orð konu mátti sín lítils.

Stendur vel fyrir sínu

Bókin er nokkuð klassísk í uppbyggingu sem söguleg skáldsaga. Þetta er saga þar sem aðalpersónan er sterk kona sem þarf að glíma við miklar raunir. Hún er saga af baráttu og lífsvilja. En það angraði mig þó að sjá að hugsanir Þórdísar voru stundum allt of femínískar fyrir konu á þessum tíma, þegar margar þeirra hugmynda sem hún er látin hafa voru ekki einu sinni komnar fram. Einnig hefði ég viljað að umhverfi, klæðnaði og aðbúnaði Þórdísar á hverju heimili fyrir sig hefði verið lýst betur.

Þóra Karítas gefur konunum sem drekkt var í Drekkingarhyl gaum með þessari skáldsögu. Það er undarlegt að ekki sé minnisvarði við Drekkingarhyl, þar sem nöfn kvennanna sem misstu líf sitt þar koma fram. Sögur allra eru án efa sögur af neyð og sorg og svipar eflaust mörgum til sögu Þórdísar.

Sem söguleg skáldsaga, þar sem aðalhetjan upplifir magnað óréttlæti og bíður lægri hlut, var bókin hin besta lesning. Hún stóð vel fyrir sínu. Kápa bókarinnar er einnig bráðfalleg, enda hlaut hún verðlaun bóksala fyrir fegurstu kápuna. Striginn vísar í strigapokann sem konur voru settar þegar þeim var hent í drekkingarhyl.

Lestu þetta næst

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...

Sumarleg og fjörug sandkaka

Sumarleg og fjörug sandkaka

Nýlega kom út Mamma Sandkaka, lífleg og fallega myndlýst barnabók eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur....

Flugur á sad beige vegg

Flugur á sad beige vegg

Við erum stödd á fyrstu frumsýningunni á stóra sviðinu á leikárinu. Það er verið að fara sýna...