Fjölskyldulíf í sjö töktum er undirtitill bókarinnar Strendingar eftir Yrsu Þöll Gylfadóttur sem kom út á síðasta ári hjá bókaforlaginu Bjarti. Þessi undirtitill vakti athygli mína á annars óáhugaverðri bókakápu, svona við fyrstu sýn. En þegar betur er að gáð leynast skondnar teikningar eftir Katrínu Helenu Jónsdóttur og Ólaf Þór Kristinsson, teikningar sem veita manni innsýn inn í eril stórrar fjölskyldu við kvöldmatarborðið. En aftur að þessum sjö töktum. Sagan er sögð í fyrstu persónu frásögn frá sjónarhóli sjö persóna. Við fáum innsýn inn í líf hjónanna Péturs og Evu, barnanna þeirra þriggja, Silju, Steinars og Ólafíu, föðurafans Bergs og heimiliskattarins Mjálmars.
Einstakar raddir
Fjölskyldan býr í litlu sjávarplássi, glímir þar við áskoranir og hindranir og gætu margir eflaust sett sig í sporin þeirra. Þegar sagan hefst er Eva að hefja störf á ný eftir fæðingarorlof. Hún er byggingarfulltrúi í sveitarfélaginu og lendir fljótlega upp á kant, bæði við sína yfirmenn sem og sóknarnefnd staðarins. Hennar barátta er bæði þessi týpíska innri barátta konu sem þarf að skipuleggja líf sitt sem útivinnandi kona og sem móðir lítils barns sem er enn á brjósti, finnst hún vera að vanrækja skyldur sínar á hvorn veginn sem er. Og svo barátta hennar við kerfið og frændhygli þeirra sem telja sig mikilsmetna og yfir aðra hafna, jafnvel lög og rétt. Pétur er aftur á móti kominn í fæðingarorlof og hefur hug á því að nota tímann til að finna sig sem skáld og listamann. Hans barátta snýr að tilvistarkreppu miðaldra manns sem finnst hann vera að missa lífið úr höndunum og draumar og þrár láta í minni hlutann fyrir praktískum skyldum fjölskylduföðurs.
Silja, unglingsstúlkan á heimilinu, er barn móður sinnar úr fyrra sambandi. Hún er í takmörkuðum og erfiðum samskiptum við blóðföður sinn sem setur móðurina í þá stöðu að þurfa að „taka slaginn“ við blóðföðurinn ef svo má að orði komast. Silja er dæmigerður unglingur, með brothætta sjálfsmynd og skapsveiflur unglingsáranna. Miðjubarnið, Steinar er sex ára, hvatvís og oft á tíðum misskilinn og á í deilum við skólafélaga sína. Ekki liggur alveg ljóst fyrir hvort hann sé fórnarlamb eineltis eða gerandi eða jafnvel bæði. Heimiliskötturinn sýnir á sér skemmtilegar hliðar í samskiptum sínum við mannfólkið. Líka hann lendir í áföllum og streituvaldandi aðstæðum sem margar hverjar eru jafnvel lífshættulegar ketti. Bergur, faðir Péturs, er langskemmtilegasta og athyglisverðasta persóna bókarinnar. Hann er búinn að missa konuna sína, er farinn að þjást af elliglöpum og hættur að geta séð um sig sjálfur. Hann ruglar tíma og rúmi, hann talar við uppkominn soninn sem sonurinn væri tíu ára og spjallar við látna eiginkonuna um daginn og veginn. Svo að lokum er það yngsti fjölskyldumeðlimurinn, Ólafía sem er á öðru ári og fær sína rödd í lok bókarinnar. Sú rödd á eflaust að sýna inn í hugarheim barns sem er að fóta sig í nýrri tilveru en þar finnst mér höfundi ekki takast sem skyldi og rödd barnsins kemst ekki á flug.
Raunsæ saga fjölskyldu
Saga þessarar fjölskyldu er saga margra fjölskyldna sem þurfa að takast á við krefjandi og oft á tímum ófjölskylduvænar aðstæður bæði í atvinnu- og einkalífinu. Veikur elliær afinn sem þarf að flytja tímabundið inn á son sinn og hans stóru fjölskyldu sem svo finnur til vanmáttar gagnvart þessum sjúkdómi, er mjög raunsætt dæmi úr nútímanum. Flestar fjölskyldur hafa þurft að spyrja þessarrar spurningar „hvað á að gera við afa? Eða ömmu?“ Móðirin lendir á vegg bæði í vinnu sem og einkalífinu, ætlar sér um of eða að henni er ætlað um of, stundum er ekki ljóst hver veldur. Glíma hennar við kerfið í sínum litla bæ, þar sem allir þekkja alla og eru tengdir hinum og þessum, einnig þetta er afar kunnuglegt þeim sem einhvern tímann hafa prófað að búa sem utanaðkomandi í litlu samfélagi. Og svo er það auðvitað fjölskyldufaðirinn sem í upphafi bókarinnar skapar sér örlitla andúð hjá lesandanum með því að þurfa endilega að velja sér mesta háanna tíma heimilisins til að fara í slökunarbað. Öll þekkjum við þessar týpur, sem einhvern veginn lauma sér undan ábyrgðinni með skotheldri afsökun þegar mest á reynir. Það er jú ekkert hægt að trufla mann sem er í baði!
Þetta er heilsteypt og skemmtilega skrifuð bók, raunsæ fjölskyldusaga um dæmigert líf, bæði hæðir og lægðir. Kynþroski, veikindi, tilvistarkreppa, togstreyta gamla tímans og þess nýja – þessu er öllu fléttað saman svo úr verður áhugaverð lesning sem er brotin upp með ólíkum röddum sögupersóna hverju sinni. Persónusköpunin er vel gerð, sérstaklega afinn og unglingsstúlkan. Höfundur nær að fanga þetta skrýtna skeið unglingsáranna sem samanstendur af hormónasveiflum, fullorðinslegum kenndum en um leið svo barnalegum tilsvörum og hugsunarhætti. Yrsa Þöll gerir þetta ágætlega og hún jafnframt fær mann til að spegla sig í þessum persónum. Sérstaklega átti ég erfitt með mig þegar pælingar þeirra fullorðnu um tölvuleiki báru á góma eða þegar pabbinn var með tungumálið á heilanum, hvað væri rétt að segja og hvað ekki, vandað mál eða óvandað. Ég fann líka afskaplega mikinn samhljóm með mömmunni í baráttu hennar við samfélagið í sjávarplássinu. Þegar maður hefur búið í einu svona plássi hefur maður, þannig séð, búið í þeim öllum og þar er yfirleitt ekki svigrúm til að misstíga sig samfélagslega. Gildir þá einu hvort misfellan í götunni sé af þínum eigin völdum eða annarra. Þess vegna hefði ég viljað sjá annan endi hjá Evu. Því eins og bókin er raunsæ og lýsir á raunsæjan hátt sigrum og ósigrum í lífinu þá er það að mínu mati afar óraunsætt að kona í þeirri stöðu sem móðirin er í bókinni, eftir niðurbrot og taugaáfall og með bæði sveitarstjórn, sóknarnefnd og nánast alla íbúa á móti sér, nái að snúa aftur í sitt fyrra starf, fái viðurkenningu á að hún hafi haft rétt fyrir sér og afsökunarbeiðni í þokkabót. Í íslenskum veruleika myndi slíkt aldrei nokkurn tímann gerast.
Að þessu öllu sögðu, heilt yfir þá er bókin Strendingar með betri bókum ársins 2020, af þeim sem ég hef lesið, hún er klárlega í topp tíu hjá mér og þar sem þetta er þriðja bók höfundar er ég strax búin að verða mér úti um fyrri skáldsögur Yrsu Þallar. Að endingu vil ég vekja athygli á barnabókum Yrsu, þær er allrar athygli virði og kærkomin viðbót fyrir unga lestrarhesta sem eru að byrja að fóta sig í lestrinum.