Páskakrimminn snýr aftur

28. mars 2021

Það er rúmlega ár síðan COVID 19 faraldurinn skall á með fullum þunga hér á landi og líf okkar allra hefur tekið stakkaskiptum síðan þá. Líkt og í fyrra verða páskarnir í ár frábrugðnir fyrri árum. Það verður lítið um páskaboð, fáir munu leggja land undir fót og skíðaferðir innanlands verða ekki í boði. Páskakrimminn verður þó á sínum stað hjá Lestrarklefanum!

Líkt og við höfum áður rifjað upp eru krimmar fyrir Norðmönnum jafn ómissandi og súkkulaðiegg eru okkur Íslendingum yfir páskana. Norðmenn einfaldlega verða að fá sinn krimma, sína ráðgátu og jafnvel morð. Allir skulu glugga í glæpasögu og hafa það kósý um páskana. Þess vegna finnst okkur tilefni til að herma eftir frændum okkar, Norðmönnunum, þegar kemur að hefðinni í kringum páska.

Á vorin á Íslandi eru glæpasögur í miklum meirihluta þeirra bóka sem eru gefnar út og því tilvalið að næla sér í nýja glæpasögu, sér í lagi þar sem bókabúðir bjóða upp á netverslun í auknum mæli.

Hvar sem þið verðið um páskana hvetjum við ykkur til að krækja ykkur í krimma, hvort sem það er klassík eftir Agöthu Christie eða nýleg íslensk glæpasaga. Leysið ráðgátu á milli súkkulaðibita!

#Páskakrimminn #Glæpasögur

Lestu þetta næst

Óskar er einhverfur

Óskar er einhverfur

Óskar elskar lestir: Bróðir minn er einhverfur eftir Ernu Sigurðardóttir Hvernig myndi þér líða ef...

Í dótaheimi

Í dótaheimi

Fyrir mörgum árum síðan, í fyrndinni, las ég sjálf ljóð Þórarins Eldjárns. Þegar ég eignaðist mín...