Á dögunum bar Katrín Júlíusdóttir sigur úr býtum í glæpasagnasamkeppninni Svartfuglinum með bókinni Sykur. Bókin segir frá morði á hinum virta og dáða embættismanni Óttari. Lögreglan er í fyrstu ráðþrota yfir málinu en þegar hin unga lögreglukona Sigurdís finnur falið öryggishólf í íbúð hins látna hefst rannsókn málsins fyrir alvöru. Vísbendingar liggja í allar áttir en Sigurdís nær með einstakri næmni að aðstoða kollega sína við að leysa ráðgátuna. Bókin er hin besta lesning með öllu því sem einkennir góða glæpasögu: dularfullt líf hins látna, vísbendingar sem benda í fjölmargar áttir og marga sem hafa ástæðu til að hafa ráðið Óttari bana.

Á dauðann líklega skilið

Sykur hefst á stuttri lýsingu frá hinum látna meðan hann liggur við grafarbakkann og viðurkennir sjálfur að hann eigi dauða sinn líklega skilið. Sagan hefst svo á því að kona að nafni Erla er að undirbúa óvænta veislu í tilefni fimmtugsafmæli Óttars kærasta síns. Hún hefur lagt mikið í veisluna og smám saman fara gestir að týnast inn, heiðursgestinn er þó hvergi að finna og klukkan níu að kvöldi gefast gestirnir upp og fara heim. Fljótlega kemur í ljós að Óttar hefur verið myrtur kvöldið áður og fer lögreglan í að rannsaka morðmálið. Söguhetja bókarinnar, hin tæplega þrítuga Sigurdís, hefur verið sett tímabundið í leiðinleg skriffinsku verk hjá lögreglunni en fær óvænt tækifæri til að taka þátt í rannsókninni. Hún verður smám saman heltekin af málinu og leggur sig fram við að komast í rannsóknarteymið. Snemma í rannsókninni finnur Sigurdís öryggishólf í íbúð Óttars sem bendir til þess að embættismaðurinn í fjármálaráðuneytinu hafi ekki verið allur sem hann var séður; skjöl sem benda til viðskipta í aflandsfélögum og reglulegra greiðslna til Bandaríkjanna. Eitthvað undarlegt hefur þó einnig einkennt persónulegt líf hins látna og losnar Sigurdís ekki við þá tilfinningu að rannsóknin sé að stefna í ranga átt.

Andstæða hins hefðbundna lögreglumanns

Sykur er bók sem erfitt er að leggja frá sér eftir að lestur hefst. Það var áhugavert að fyrrum ráðherra skyldi sigra þessa glæpasagnakeppni en Katrín lætur einmitt þekkingu sína af embættismannakerfinu og stjórnmálum njóta sín með vali sínu á fórnarlambi. Bókin er vel uppbyggð en höfundur viðheldur spennu í textanum með því að stinga stöðugt inn nýjum vísbendingum sem benda í mismunandi áttir. Inn á milli koma kaflar um baksögu Sigurdísar og hennar persónulega líf sem eru ekki síður áhugaverðir. Persónusköpunin er einnig góð, Sigurdís er andstæða hins hefðbundna eldri drykkfellda lögreglumanns, hún drekkur meira að segja bara kók þegar hún fer út á lífið. Hún þarf þó að takast á við erfiðleika sem eiga sér rætur í brotinni æsku hennar í gegnum bókina. Hún er hins vegar umvafin góðu fólki og vill einlæg hjálpa öðrum í gegnum starf sitt. Aðrar persónur eru fyrirferðaminni en þó vel skapaðar, sér í lagi teymi Sigurdísar hjá lögreglunni og veltir því undirrituð fyrir sér hvort um nýja glæpaseríu sé að ræða hjá höfundinum.

Mér þótti bókin afbragðsgóð fyrsta glæpasaga höfundar og fannst margt frumlegt í sögunni. Það verður spennandi að sjá hvort þetta sé upphaf rithöfundaferils hjá Katrínu Júlíusdóttur en hún sagði í viðtali í Fréttablaðinu á dögunum að hún útiloki ekki að hún muni halda áfram á glæpabrautinni.

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...