Kim Stone og fyrsta málið

Angela Marsons skrifar bækurnar um Kim Stone rannsóknarfulltrúa frá West Midlands á Englandi. Eflaust eru margir kunnir Stone enda hafa bækurnar um hana verið þýddar á 28 tungumál og þar á meðal yfir á íslensku af hinni hæfileikaríku Ingunni Snædal. Bækurnar um Kim Stone eru orðnar 13 á frummálinu, sú fjórtánda er í smíðum og áætlað að þegar Marsons ljúki sagnabálki sínum um Stone verði bækurnar orðnar 25. Það er nokkuð vel af sér vikið fyrir höfund sem gaf fyrstu bækurnar sínar út sjálf á rafrænu formi þar sem ekkert bókaforlagið vildi taka við henni til að byrja með.

Óhugnanlegt morð

Í mars kom út bókin Fyrsta málið á íslensku. Ég hugsaði með mér að bókin væri tilvalin til að kynnast Kim Stone og liðinu hennar, þar sem ég hef enn ekki lesið neitt um hana.

Lesandinn kynnist ungri rannsóknarlögreglu sem hefur fengið alla upp á móti sér, enda er hún með eindæmum hranaleg, stundum ósamvinnuþýð og þrjósk. Ekki beint besti samstarfsfélaginn. Á sama tíma er augljóst að hún er hæfileikaríkur lögreglumaður. Í byrjun bókarinnar hittir Kim Woodward lögreglustjóra sem lætur hana fá nýtt lið; hina óreyndu Stacey, hinn drambsama Dawson og hinn trausta og trygga Bryant. Þetta óreynda lið fær á borð sitt hrottaleg morðmál þar sem kynfæralimlestingar eru helsti samnefnarinn.

Augljós sögulok

Í anda þess sem #páskakrimminn boðar setti ég mig í stellingar til að lesa bókina. Marsons virðist mikið í mun að lesandinn kynnist hverjum og einum í liði Stone til hlýtar, læri um fjölskylduhagi og heimilisaðstæður. Fyrir lesanda sem er að kynnast Kim Stone og liði hennar þá er þetta ágætist kynning. En maður rennir samt sem áður hratt í gegnum þá kafla, enda langar mann helst af öllu til að komast að því hver framdi morðið.

Það fyrsta sem ég tók eftir við bókina er að hún er 300 blaðsíðna bók í dulargervi 200 blaðsíðna bókar. Blaðsíðurnar eru þunnar og margar og fyrir vikið var ég einhvern veginn enn lengur að lesa hana í gegn. Bókin var fremur hæg framan af og morðmálin voru einhvern veginn ekki nægilega dul til að geta haldið mér. Strax frá fyrsta fórnarlambi þóttist ég vita hvernig í málunum lá og hvers vegna maðurinn lá þarna dauður. Bókin var því ögn fyrirsjáanleg. Það var ekki fyrr en í blálokin sem eitthvað fútt komst í söguþráðinn og sat ég þá límd yfir bókinni. En morðinginn var mér nokkuð ljós frá miðri bók.

Hin fráhrindandi lögreglukona

Kim Stone starfar í West Midlands í Bretlandi. Persóna hennar er fráhrindandi, hún á ekki marga vini og minnir óþægilega mikið á Lisbet Salander hans Stiegs Larsson. Stone elskar mótorhjól, er dökkhræður harðjaxl og er á mörkum þess að vera með Asperger. Stone á sársaukafulla fortíð, líkt og Salander, þar sem ástvinir brugðust henni heiftarlega. Líkindin á milli þessara tveggja persóna þykja mér helst til mikil. En líklega er Marsons að fylgja viðtekinni formúlu við sköpun lögreglukonu. Þær verða að vera harðar af sér. Lesandinn veit fyrir vikið við hverju má búast. Stone mun alltaf gera nákvæmlega það sem hún telur rétt að í hvaða aðstæðum sem er, innan ramma laganna að sjálfsögðu.

Fyrsta málið er góður byrjunarpunktur á Kim Stone bókum Angelu Marsons. Þrátt fyrir örlítið fyrirsjáanlegan söguþráð gefur bókin lesandanum tækifæri til að kynnast persónum í bókunum mjög vel.

Lestu þetta næst

In memoriam

In memoriam

Deyr fé, deyja frændur, deyr sjálfur ið sama. En orðstír deyr aldregi hveim er sér góðan getur (úr...