Fátt er skemmtilegra en að deila bókum með öðrum. Fyrir stuttu síðan sátum við faðir minn við eldhúsborðið á æskuheimili mínu, hann með lesbrettið sitt í hendinni og skrollaði í gegnum safnið af krimmum og vísindaskáldsögum sem hann hefur hlaðið niður á tækið. Hann les nær eingöngu af lesbretti, en lætur sig þó hafa það þegar ég ýti að honum bókum sem mér finnst henta honum. En hingað til hefur það verið einhliða. Þangað til nú!

Eftir því sem hann skrollað lengra og lýsti hverri bókinni á eftir annari kviknaði hjá mér áhugi. Svo úr varð að ég hóf lestur á bókinni Edinburgh Twilight eftir Carole Lawrence, í anda glæpasagnamánaðarins sem er ríkjandi hjá Lestrarklefanum. Bókin kom út árið 2017 og síðan hefur Lawrence bætt við tveimur bókum í seríuna – Edinburgh Dusk og Edinburgh Midnight. 

Sjálfsmorð eða morð?

Ég hef lengi verið áhugasöm um Edinborg og Skotland, áhugi sem magnaðist svo um munar eftir að ég hóf áhorf á sjónvarpsseríunum Outlander (ég á enn eftir að lesa bækurnar). En! Edinburgh Twilight segir sögu rannsóknarlögreglumannsins Ian Hamilton árið 1880. Edinborg er tvístruð milli ríkra og fátækra. Á götum Gamla bæjar (e. Old Town) skríður um alls kyns lýður, vændiskonur, ofbeldismenn, drykkjurútar og ópíumfíklar. Á sama tíma sitja ríkir í þægilegum húsum sínum og njóta lífsins.

Þegar ungur maður finnst látinn við Arthurs seat er fyrsta hugsun allra að hann hafi framið sjálfsmorð og fleygt sér fram af hamrinum. Hamilton er þó ekki sannfærður, hann vill rannsaka málið, þrátt fyrir máttlaus mótmæli Crawfords, yfirmanns hans. Hamilton kemst að því að ungi lögfræðingurinn var alls ekki í sjálfsmorðshugleiðingum, nýbúinn að fá sér hund og var búinn að koma sér vel fyrir bæði í vinnu og húsnæði. Og, til að gera hlutina enn flóknari, þá var hann líklega dauður þegar hann féll. Hefst þá leit að morðingjanum, sem heldur áfram að drepa án mynsturs.

Spilastokkur dauðans

Yfir bókinni ríkir andi örvæntingar. Hamilton á erfitt með að finna morðingjann. En hann veit þó að raðmorðingi gengur laus, því hvert fórnarlamb ber spil úr stokki morðingjans. Nútímarannsóknaraðferðir eru ekki til. Allt byggir á heppni og Hamilton og aðstoðarmaður hans eru ekki heppnir. Edinborg er köld, dimm, rök og skítug. Og morðinginn gengur laus!

Lawrence er ekki alveg laus við húmor, þótt yfir öllu svífi einhvers konar kuldi og raki. Margar persónur eru kómískar, en þó á einhvern tragískan hátt. Svo virðist sem allir í Edinborg eigi sér einhverja hroðalega sögu, en yppa bara öxlum yfir því og hlæja lítillega. Á tímum var eins og sumar persónurnar kveðist á, því það þykir gáfumannlegt að geta vitnað í þekkta höfunda Skotlands eða Shakespear sjálfan. Vani sem öðrum persónum þykir ansi hvimleitt.

Fjöldi látinna yfirgengilegur

Morðinginn svífst einskis, hann þarf að svala dýrslegum þörfum sínum með morðum. Þannig hlaðast upp líkin í líkhúsi Edinborgar. Undir það síðasta þótti mér nóg um. Lawrence breytir ekki leið morðingjans til drápa og þegar allt kom til alls, þá hafði maður litla samúð með morðingjanum. Vissulega hafði hann sína sorgarsögu, en hún komst illa til skila. Bókina hefði mátt stytta töluvert og bjarga þannig nokkrum sálum frá hrottafengnum dauða.

En heilt yfir var bókin þokkalegasta lesning og sögusviðið áhugavert. Hamilton sjálfur er skemmtileg persóna og mér þykir alls ekki ólíklegt að ég lesi fleiri bækur um hann.

Lestu þetta næst

In memoriam

In memoriam

Deyr fé, deyja frændur, deyr sjálfur ið sama. En orðstír deyr aldregi hveim er sér góðan getur (úr...