Hnitmiðuð kínversk-ensk orðabók fyrir elskendur eftir Xiaolu Guo kom fyrst út á ensku árið 2007 en kom út í þýðingu Ingunnar Snædal í áskriftarröð Angústúru árið 2019. Áður hefur komið út bókin Einu sinni var í austri eftir Guo í sömu áskriftarröð.
Bókin er skáldsaga sem segir frá Zhuang ungri kínverskri konu sem flytur til Lundúna til að læra ensku. Stuttu eftir komu hennar þangað, kynnist hún töluvert eldri enskum manni og hefja þau samband sem mun breyta lífi og heimssýn þeirra beggja.
Orðaforðinn eykst meðfram sögunni
Bókin er ekki hefðbundin skáldsaga að því leyti að sagan er sögð frá sjónarhorni Zhuang í stuttum dagbókarfærslum með þeim orðaforða sem hún hefur tileinkað sér í ensku að hverju sinni. Bókinni er skipt upp í hluta eftir mánuðum yfir árið sem Zhuang eyðir í borginni. Eftir því sem söguhetjan bætir sig í enskunni í málaskólanum batnar textinn í bókinni og villum fer fækkandi. Guo heldur þó í húmorinn í gegnum textann. Þetta hlýtur að vera með erfiðari texta sem þýðandi þarf að kljást við, og tekst Ingunni Snædal snilldarlega til. Líkt og kemur fram í eftirmála þýðanda er ekki hægt að þýða villurnar beint því það hljómar óeðlilega á íslensku, þýðandinn reyndi því að gera villurnar eðlilegar á íslensku og tók Ingunn mið af máltöku barna og hvernig útlendingar tala íslensku þegar hún vann þýðinguna.
Hrædd og ótalandi í Lundúnum
Við upphaf sögu er hin rétt rúmlega tvítuga Zhuang á leiðinni frá Peking til Lundúna. Þá kemur fram að foreldrar hennar hafi alist upp í fátækt en efnast á fullorðinsaldri. Þau vilja að hún fari út fyrir landssteina til að læra ensku. Zhuang hefur þó lítinn áhuga á slíku, finnst tilgangslaust að fara til vesturs og hræðist það hvað bíði hennar. Hún gengur um með Hnitmiðaða kínversk-enska orðabók sér til halds og trausts. Strax á öðrum mánuði í landinu hittir hún mann í bíó og þannig hefst ástarsamband þeirra. Menningarárekstrar og misskilningur fylgja eiginlega um leið og á kómískan hátt eru þau snemma byrjuð að búa saman sökum misskilnings:
Þannig byrja allt. Frá misskilningi. Þegar þú segja „velkomin“, ég held þú meina ég geta búið heima hjá þér. Viku síðar flytja ég út frá kínverska leigusala. (bls. 64)
Mesti fókusinn í sögunni er á þessu ástarsambandi, en einnig lýsir Zhuang oft því sem henni þykir furðuleg hegðun Lundúnarbúa. Ástarsambandinu fylgir sem fyrr segir átök sökum mismunandi menningarheima elskendanna, en einnig vegna aldursmunar og lífsreynslu. Bókin nær ákveðnum dramatískum hápunkti þegar maðurinn sendir Zhuang í interrail lestarferð um Evrópu til að skoða heiminn, en rétt eins og í byrjun sögu vill Zhuang ekkert fara. Ljóst er að brestir eru í sambandinu sem hefur líklega þurft að þola fleiri deilur en flest önnur á fyrstu mánuðunum.
Bókin er tiltölulega auðlesin en það getur tekið smá tíma að komast inn í hana sökum undarlegs textans í brotinni íslensku í upphafi. Mér þótti á endanum umgjörðin, þessi snilldar nálgun á tungumálið sjálft sem stafaði af því að Guo nýtti sér lélega enskukunnáttu sína í listsköpun, sem og hugmyndin um að veita innsýn í hugarheim einhvers í menningarsjokki, áhugaverðari en söguþráðurinn sjálfur. Engu að síður fannst mér, líkt og með aðrar bækur sem Angústúra hefur gefið út, dýrmætt að fá innsýn sem vestrænn lesandi inn í allt aðra menningu og öðlast betri skilning á því hvernig getur verið fyrir Kínverja að koma til Evrópu í fyrsta sinn. Angústúra gaf einnig út endurminningar Xiaolu Guo, Einu sinni var í austri, þar sem er fjallað um tilurð þessarar bókar og er ég spennt fyrir að lesa hana og kynnast betur höfundinum og skilja betur þetta sköpunarferli.