Það má með sanni segja að heimurinn hafi minnkað töluvert í pestarástandinu sem ríkir í heiminum. Ferðalög á milli landa liggja niðri að mestu og sjálf hef ég ekki ferðast út fyrir Íslandsstrendur síðan 2019, eins og eflaust flestir landsmenn. Það því dýrmætt að geta ferðast í huganum í gegnum bækur.

Til Víetnam

Yfir hálfan hnöttinn er þriðja skáldsaga Ásu Marinar, hinar tvær heita Vegur vindsins og Og aftur deyr hún. Þar fyrir utan hefur Ása Marin gefið út fjölda ljóðabóka og námsefni fyrir grunnskólanemendur. Í nýjustu skáldsögunni fer hún með lesandann til Víetnam og lesturinn er vægast sagt skemmtilegur.

Einn daginn finnur Júlía miða á eldhúsborðinu frá Ara, kærasta hennar. Á miðanum eru nokkkuð óræð skilaboð sem Júlía túlkar sem svo að Ari sé að lokka hana í ratleik, sem leiðir hana til Víetnam. Án þess að skemma bókina fyrir öðrum lesendum þá get ég sagt að skilaboðin á miðanum þýddu ekki ratleikur. En nú er Júlía í Víetnam, ein. Fyrir algjöra heppni dettur hún inn í hópferð sem stefnir á níu daga ferðalag um Víetnam, þar sem skoðaðar verða helstu perlur landsins og fræðst um menningu og sögu.

Þroskasaga og tilvistarkreppa

Ása Marin skrifar á aðgengilegan hátt og lesandinn gleymir algjörlega hvar hann er. Í huganum er hann að borða pho með Júlíu, skoða ómetanleg menningarverðmæti og engjast í ástarsorg. Í gegnum söguna kynnist maður Júlíu betur, sem og samferðafólki hennar. Júlía á í uppgjöri við sjálfa sig og samband hennar og Ara. Í gegnum minningarbrot hennar kynnumst við sambandi þeirra betur hægt og rólega í gegnum bókina. En inn í söguna stígur líka ný ást, pælingar um sjálfstraust, sjálfsást og þakklæti. Bókin er þroskasaga Júlíu, sem á í djúpri tilvistarkreppu eftir sambandsslitin.

Persóna Júlíu er djúp og maður kynnist henni vel, þótt maður sé ekki alltaf sammála henni. Hún hefur sína skapgerðarbresti. Lesandinn fær líka að kynnast samferðafólki Júlíu að einhverju leiti. Allir hafa sögu og það var gaman að fá að kynnast þeim með Júlíu. Óhjákvæmilega fer manni að þykja vænt um þau. Sumum hefði ég þó viljað kynnast betur og fá betri útskýringu á hegðun þeirra.

Víetnömsk matargerð

Í bókinni eru all oft ítarlegar lýsingar á mat og matargerð Víetnama. Lýsingarnar eru hver annari girnilegri og ég sé fram á að gera tilraunir með víetnamska matargerð á komandi vikum. Það kemur sér því stórvel að nokkrum uppskriftum hefur bætt við aftast í bókina, sem og listum sem lesandinn getur fyllt upp í. Þannig fær bókin lesandann til að hugsa um ferðalög á öðru stigi, því það er vel hægt að ferðast heima og smakka matargerð annarra menningarheima í sínu eigin eldhúsi.

Ég naut þess að lesa söguna. Bókin ber sterkan keim af því vera skvísubók af bestu gerð og ferðasaga. Ég gleymdi mér algjörlega við lesturinn og í ferðalaginu til Víetnam. Eftir lesturinn get ég sagt með fullri vissu að Víetnam er komin á listann yfir lönd sem vert er að heimsækja. Yfir hálfan hnöttinn er fullkominn sumarsmellur!

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...

Þörf bók um missi

Þörf bók um missi

Núna á dögunum kom út íslensk þýðing á barnabók eftir John Dougherty og Thomas Docherty...