Feminískar stjörnur sem þú vissir ekki af

Do it Like a Woman: … and Change the World eftir baráttukonuna Caroline Criado-Perez segir sögur stórkostlegra samtíðarkvenna, frumkvöðla sem eru að búa til pláss fyrir konur á öllum sviðum, út um allan heim. Bókin er fjölbreytt og kynnir lesendur meðal annars fyrir konunni sem varð fyrst kvenna til að þvera Suðurskautslandið ein, konu sem hefur barist fyrir því að fljúga í Afganistan, loftslagsbaráttukonu sem klauf nýjar hæðir og meðlim Pussy Riot, svo eitthvað sé nefnt.

Samtöl við kjarnakonur

Ég er mikill aðdáandi bókar Criado-Perez Invisible Women og þegar ég rak nýlega augun í þessa bók vissi ég að ég yrði að kaupa hana. Do it Like a Woman er talsvert frábrugðin þeirri fyrrnefndu. Á meðan Invisible Women er afar fræðileg bók sem byggir einna helst á tölfræði er Do it Like a Woman drifin af samtölum við kjarnakonurnar sem Criado-Perez kynnir lesendur fyrir. Bókinni er skipt í fimm hluta: Doing It Like A Woman, Speaking Like A Woman, Leading Like A Woman, Advocating Like A Woman og Choosing Like A Woman og gefa titlar kaflanna til kynna hver rauði þráðurinn í hverjum þeirra er.

Andsvar við framsetningu kvenna

Bókinni er að sögn höfundarins ætlað að vera andsvar við það hvernig konur eru settar fram í fjölmiðlum, bókum og sjónvarpsefni; sem aukapersónur sem sjaldnast eru í hringamiðu spennunar. Criado-Perez er orðin þjóðþekkt í Bretlandi sem baráttukona fyrir kvenréttindum og hefur meðal annars barist fyrir því (og fengið það í gegn) að hafa konu á peningaseðli í Bretlandi (það var útlit fyrir að það yrðu einungis karlar á öllum peningaseðlunum í umferð fyrir ekki svo löngu síðan). Í þessu verki sínu  beinir hún kastljósinu að konum sem eru að brjóta staðalímyndir og með því vill hún hafa áhrif á það hvað konur telja sig geta áorkað, en tilvist kvenfyrirmynda skiptir þar lykilmáli. Do it Like a Woman er því í hnotskurn bók um það sem konur í nútímanum eru að áorka.

Fókus á fjölbreyttar konur

Do it Like a Woman er bók sem óhætt er að mæla með. Mér þótti mjög skemmtilegt að lesa hana og kynnast í gegnum hana nýjum feminískum kjarnakonum sem ég hafði aldrei heyrt um áður. Konur sem verðskulda það að við þekkjum nöfn þeirra: Felicity, Aston, Masha Gessen, Latifa Nabizada auk margra annarra. Criado-Perez á sérstaklega lof skilið fyrir að falla ekki í þá gryfju að einblína á vestrænar hvítar konur, heldur einmitt draga fram og segja sögur kvenna sem eru að brjóta staðalímyndir út um allan heiminn.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...