Gunilla Bergström hefur fylgt mér frá því að ég var lítil í sveitinni og fékk mínar fyrstu barnabækur. Ég var orðin sjö ára þegar ég fékk bókina Góða nótt Einar Áskell í jólagjöf frá aldraðri frænku minni sem hafði ekki alveg raunhæfa sýn á hvað litla frænka var orðin stór. En bókin kom sér vel, ég átti lítinn frænda og las þessa bók fyrir hann spjaldanna á milli. Í þessari fyrstu og einu bók sem ég eignaðist um Einar Áskel var hann uppátækjasamur, vildi ekki fara að sofa, var ekkert nema óþægðin, þurfti oft að pissa, fá sér vatn, gleymdi að bursta tennurnar o.sfrv. Og ég átti eftir að lesa þessar bækur allar. Nú, þrjátíu árum síðar og fjórum börnum ríkari er mér það morgunljóst hvað Gunilla hafði næma sýn á hvernig það er að vera lítill.
En samt er margt skrýtið í bókunum um Einar. Þeir eru bara tveir, hann og pabbinn sem reykir pípu, er hálf þegjandalegur og eilítið strangur. Mamman er hvergi sjáanleg, aldrei er minnst á hana fyrr en löngu seinna en þá mjög lítið og án þess að gefa lesandanum neina innsýn inn í hvar hún hafi verið. Lengst af virðist Einar hreinlega hafa verið eingetinn. Pabbinn virðist sjá um uppeldið á einkasyninum aleinn og óstuddur sem hefur eflaust þótt framúrstefnulegt eldra fólki árið 1971 þegar fyrsta bókin um Einar kom út. Samt er eins og Gunilla geti ekki alveg stigið skrefið til fulls. Því alltaf þegar mikið liggur við eru konurnar kallaðar til. Í bókinni Höldum veislu Einar Áskell mætir Fía frænka til leiks þegar halda þarf upp á afmæli Einars. Persóna hennar er þó stjórnsöm og frek, hún tekur af skarið, heldur veislu í óþökk Einars og krakkarnir virðast lítið hafa gaman af hennar veislustjórnun. Bókin endar svo á því að Einar heldur aðra veislu, sjálfur með þeim gestum sem hann hefði sjálfur viljað bjóða og með sínu lagi. Amma Einars mætir stundum á svæðið til að sjá um tiltekt og þvotta og laga fatnað og annað slíkt. Hvað gerir þá pabbi Einars? Hann er utan við sig, einrænn svo að jafnvel jaðrar við að vera barnaverndarmál. Hann hummar og dæsir, jánkar og neitar án þess að vera með athyglina á syninum sem stundum gengur á lagið og laumast í það sem er forboðið í skjóli þess að pabbinn er niðursokkinn í aðra hluti, dagblaðið. Eins og t.d sögina góðu sem ekki má snerta en Einar þarf nauðsynlega að nota. Það er greinilega gömul saga og ný að eitthvað sé það sem glepji huga þeirra fullorðnu frá börnum og barnauppeldinu. Núna er það skjárinn á símanum, áður fyrr voru það fréttirnar í dagblöðunum, tvenns konar miðlar sem samt gleypa til sín alla athygli. Að þessu sögðu verður samt að segjast eins og er að krakkarnir elska Einar, teikningar Gunillu eru einfaldar og lifandi og bækurnar virðast hafa elst vel. Því enn les ég þessar bækur á skólabókasafninu þar sem ég vinn, fyrir elsta leikskólaárganginn. Og á dánardegi Gunillu lásum við einmitt bókina Höldum veislu Einar Áskell.
Gunilla lést 79 ára gömul þann 25. ágúst, eftir að hafa lengi glímt við alvarleg veikindi. Góða nótt, Gunilla Bergström, vonandi dreymir þig vel og vonandi hefurðu munað að bursta tennurnar og fá þér vatnsglas.