Rauðhetta, úlfurinn, amman eða skógurinn?

Nýjasta viðbótin í flóru Þín eigin bóka Ævars Þórs Benediktssonar er Þín eigin saga: Rauðhetta sem kom út hjá Máli og menningu snemma í haust. Í bókunum velur lesandinn sína eigin leið í gegnum söguna. Af og til býður höfundurinn lesandanum að velja á milli nokkurra valkosta og sagan getur endað vel eða mjög illa. Bækurnar eru jafnan gríðarlega vinsælar hjá yngri lesendum. Það mætti segja að bækurnar sem bera yfirtitilinn Þín eigin saga séu þjálfunarbúðir nýrra lesenda fyrir þyngri og lengri bækurnar sem Þín eigin bækurnar eru.

Frá hvaða sjónarhorni?

Ævar hefur áður skrifað léttlestrarbækurnar upp úr þræði úr stærri bókum sínum. Hér virðist mér hann skrifa upp úr Þitt eigin ævintýri en upp úr þeirri bók hefur líka sprottið Þín eigin saga: Piparkökuhúsið. Hann aðlagar söguna um Rauðhettu að nýjum lesendum, snýr upp á þekkt ævintýri og kemur á óvart með húmor og hugmyndaauðgi. Í Þín eigin saga: Rauðhetta fær lesandinn að velja á milli fjögurra söguþráða. Viltu lesa söguna sem Rauðhetta sjálf, úlfurinn, amma eða skógurinn? Ævar býður lesandanum að setja sig í spor allra sem koma að sögunni um Rauðhettu, nema veiðimannsins. Það er kannski ágætis æfing í að setja sig í spor annara?

Stuttir og langir söguþræðir

Ungu mennirnir sem ég las bókina með völdu að sjálfsögðu strax að lesa söguna með augum úlfins. Það er spennandi að vita að framundan er mannát og grimmd! Þeir voru sammála um að úlfurinn væri skemmtilegasti söguþráðurinn. Hann er líka lengsti söguþráðurinn og mest kjöt í honum (bæði hvað varðar söguþráð og mannát).

Undarlegasti söguþráðurinn í bókinni er án efa söguþráðurinn með skóginum. Hann er stuttur og laggóður og þreyttir foreldrar sem hafa lofað barninu sínu einum söguþræði er ráðlagt að velja skóginn. Að sama skapi, ef barnið lofar að lesa heilan söguþráð þá skaltu vera vakandi yfir því hvort það velji alltaf að lesa með augum skógarins, það gæti verið að svíkjast undan.

Töffararnir Rauðhetta og amma

Eins og áður er stutt í húmorinn í bókum Ævars. Amman dansar dans Daða og Gagnamagnsins í maga úlfsins til að fá hann til að æla, veiðimaðurinn mætir á vitlausum tíma og Rauðhetta bítur úlfinn. Þetta vakti lukku meðal samlesenda minna, fjögurra ára og níu ára.

Evana Kisa sér um myndlýsingu bókarinnar, líkt og í öðurm Þín eigin bókum. Stíll hennar er litríkur og kvenpersónur verða alla jafnan algjörir töffarar í hennar meðförum. Þannig er amman ekki veikburða gamalmenni, heldur hörkukerling, þrátt fyrir pestina. Rauðhetta tekur sig líka vel út í karatestellingum. Með myndlýsingunni kemst dansinn hans Daða til skila. Myndir eru nauðsynlegur partur af léttlestrarbókum og veita börnunum velkomna pásu frá lestrinum, sem getur stundum verið erfiður. Það gleður mig að sjá smáum teikningum stráð um alla bókina. Það er mynd á hverri einustu blaðsíðu!

Í Þín eigin saga: Rauðhetta tekur Ævar gamla ævintýrið um Rauðhettu, kafar dýpra í það, snýr upp á það og stráir yfir með húmor. Söguþræðirnir eru hæfilega fyrirsjáanlegir, svo ungir lesendur rata í gegnum söguna en vita líka hvert á að fara til að fá skemmtilegan óvæntan endi.

 

 

Lestu þetta næst

Föst í Hulduheimi

Föst í Hulduheimi

Það er farið að líða á haustið. Úti er rökkur, rakt og kalt. Náttúran fellur í dvala og sjálf...

Drekar, dauði og erótík

Drekar, dauði og erótík

Hafi man eitthvað fylgst með bókaumræðum á samfélagsmiðlum á þessu ári þá er ansi líklegt að man...

Bækur inn um lúgu

Bækur inn um lúgu

Það er eitthvað fallegt við að fá póstsendingu inn um lúguna. Þá meina ég ekki auglýsingabæklinga...