Draugagangur og piparkökuhús – léttlestrarbækur

Ævar Þór Benediktsson er líklega einn afkastamesti íslenski barnabókahöfundurinn í dag. Hann hefur sent frá sér hvorki meira né minna en fjórar bækur það sem af er þessu ári. Hann var tilefndur til minningarverðlauna Astridar Lindgren á síðasta ári fyrir að vera lestrarhvetjari, titil sem hann hefur sjálfur tekið opnum örmum og ég sjálf tel mikið réttnefni á þennan ötula höfund.

Í júní sendi Ævar frá sér tvær nýjar léttlestrarbækur byggðar á “þín eigin”-bókunum sem hafa verið metsölubækur síðustu ár. Nú er það Þín eigin hrollvekja og Þitt eigið ævintýri sem eru aðlagaðar að léttlestrarforminu fyrir yngri lesendur og heita Þín eigin saga: Piparkökuhúsið og Þín eigin saga: Draugagangur. Bækurnar eru myndskreyttar af Evönu Kisu, sem hefur einstakt lag á að túlka texta Ævars og setja hann fram í ævintýralegum myndum. Til dæmis fannst mér brjóstsykursklósettið ansi girnilegt, á mjög svo ógirnilegan hátt (hver vill sleikja brjóstsykur sem búið er að pissa á?). Ég ætla ekki að tíunda hvernig bækurnar virka, enda ættu flestir að vera komnir með það á hreint núna.

Prumpandi draugar og dulbúnar nornir

Í Draugagangi nær Ævar að byggja um magnaða spennu í nokkrum orðum. Lesandi gengur inn í hús sem augljóslega er draugahús. Sjálf myndi ég aldrei ganga inn í svona hús í lífandi lífi, svo ég gekk inn um framdyrnar við fyrsta lestur. Ég komst mjög fljótlega að því að ég er algjör heigull, en myndi að sama skapi líklega lifa af hvaða hryllingsmynd sem er. Lesandi getur valið nokkrar leiðir í gegnum húsið; hliðarherbergi eða upp stiga, inn í eldhúsið eða niður í kjallarann. Og það fer algjörlega eftir leiðinni sem lesandi velur hvort allt fer illa eða vel, hvort hann hittir hrikalegar brúður, afturgengin matvæli eða draugalegar tvíburasystur. Skemmtilegastur fannst mér draugagangurinn, þar sem draugar svífa um sofandi. Ég hló upphátt. Hins vegar hef ég ekki fengið syni mína til að kíkja á bókina, enda eru þeir synir móður sinnar og annálaðir heiglar (hræddir við drauga, sjáið til, liggur í genunum). Brúðurnar eru þó líklega ógnvænlegastar, en lesi maður textann með myndunum kemur fljótt í ljós að sumt sem maður óttast er ekkert endilega hræðilegt. Eða þið vitið, ekki alltaf. Það fer eftir leiðinni sem lesandi velur í gegnum bókina.

Sá sjö ára var þó til í að lesa með mér Piparkökuhúsið. Þar þarf lesandinn að glíma við nornina úr Hans og Grétu og jafnvel frelsa þau systkini úr prísund, velji lesandi þá leið. Húmor Ævars fékk að njóta sín vel. Til dæmis gefst lesanda tækifæri til að borða klósett eða breyta norninni í vegan norn. Sá sjö ára gaf bókinn skínandi dóma, fannst hún passa fullkomlega í sumarlesturinn sem er framundan og ætlar að reyna að lesa að minnsta kosti eina sögu til enda á hverjum degi. Hvor bók um sig er með tíu endalok og því ætti sá stuttu að geta lesið eitthvað í sumar.

orðmargar léttlestrarbækur

Samspil mynda Evönu Kisu og Ævars vinna saman að því að gera þessar  léttlestrarbækur stórskemmtilegar, bráðfyndnar og listilega fallegar. Þó verður að hafa í huga að það er enginn að fara að stíga fyrstu skrefin í lestri með þessum bókum, þær henta mun frekar þeim sem eru á millibils stiginu á milli lengri bóka og léttlestrarbóka. Til allrar hamingju þá eru til bækur eftir Ævar þegar haldið er lengra inn í lesturinn, en enn hefur Ævar ekki skrifað unglingabók (sem ég bíð spennt eftir að gerist (reyndar veit ég að sumir unglingar lesa “Þín eigin”-bækurnar hans)). Ævar er margorður höfundur en nær að fækka orðum duglega í þessum bókun. Hann er með mikinn húmor og nær vel til krakka.

Ef ég ætti að finna þessum léttlestrarbókum eitthvað til ama, þá myndi það sennilega vera það að þær eru stundum ögn ógnvekjandi þannig að viðkvæmari krakkar gætu veigrað sér við að lesa þær, sérstaklega Draugagangur. Svo eru aðrir krakkar sem láta ekki nokkra drauga stoppa sig frá því að lesa næstu Ævars-bók.

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...