Bambalína drottning getur… næstum allt

Gunnar Helgason og Rán Fygenring leiða saman hesta sína í nýrri barnabók um Bambalínu drottningu. Gunnar Helgason er einn ástsælasti barnabókahöfundur landsins og hefur hingað til skrifað bækur fyrir börn frá 9 ára aldri. Nú breytir hann þó um og skrifar bók fyrir yngri börn. Rán Flygenring hefur vakið mikla athygli fyrir myndlýsingar sínar í bókunum Hestar og Fuglar og fyrir bókina verðlaunabókina Vigdís – sagan af fyrsta konuforsetanum.

Hvað kann hún ekki?

Drottningin sem kunni allt nema segir af hinni hæfileikaríku drottningu Bambalínu sem getur allt, nema eitthvað eitt. Útlit hennar og annarra í kringum hana er augljóslega fengið frá bresku konungsfjölskyldunni. Bambalína kann allt! Eða næstum allt virðist vera. Í gegnum bókina fær lesandinn að fylgjast með Bambalínu klæða sig alveg sjálf, hún borðar sjálf, opnar leikskóla alveg sjálf og heldur ræður. Hún gerir meira að segja við hestvagninn alveg sjálf! (Því auðvitað notast drottningar bara við hestvagna). En það er eitthvað eitt sem hún kann ekki og lesandinn þrusar í gegnum alla bókina til þess að komast að því hvað þessi hæfileikaríka kona kann ekki.

Myndir og texti ein heild

Sagan er gersemi uppfull af húmor og glettni, en væri lítið án myndanna. Myndirnar spila raunar svo stóran part í frásögninni allri að án þeirra væri sagan mun litlausari. Texti Gunnars er litríkur en með teikningum Ránar verður bókin ein litasprengja, flugeldasýning. Texti og myndir tengjast órjúfanlegum böndum og magna upp glettnina svo fullorðnir jafnt sem börn skella upp úr við lesturinn. Meira að segja mállausir fara að tala í bókinni og taka þátt í sögunni í gegnum myndirnar – hundur drottningarinnar er stór persóna í bókinni með engar línur. Börn geta setið með bókina og flett í gegnum myndirnar og hlegið áfram að skoplegum teikningum Ránar eftir fyrsta lestur. Á hverri síðu eru smáatriði sem hægt er að rýna í.

Það var ögn þvælingslegt að lesa bókina upphátt fyrir ungan fjögurra ára dreng. Sá getur ekki fylgt eftir textanum og því er best að benda á hvar maður er að lesa. Þá er líka hægt að leyfa barninu að fylgja eftir lestrinum með myndlestri, og til þess er bókin tilvalin. Börn eru jú mjög myndlæs í dag. Ég skemmti mér ómælanlega yfir bókinni með drengjunum mínum. Best tel ég þó að börn lesi bókina sjálf fyrir sig og rýni í myndirnar á sama tíma.

Drottningin sem kunni allt nema…  er bráðfyndin bók, uppfull af smáatriðum sem hægt er að gleyma sér í. Húmorinn er í hávegum hafður. Bókin hentar einstaklega vel fyrir börn á aldrinum 5-9 ára.

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...