Rithornið: Hinn réttsýni foringi

Hinn réttsýni foringi

Eftir Fjalar Sigurðarson

 

Það rignir.

Dúfan breiðir vængi sína hljóðlega út,

 

Það var orðið áliðið og skuggarnir komu sér gætilega fyrir í hverju skúmaskoti stofunnar. Choe hafði kveikt á fátæklegum kertisstubb til að klára síðustu setningarnar svo honum væri ekkert að vanbúnaði við birtingu næsta morgun. Kertið ósaði og það kom stækja af því svo hann opnaði rifu á glugga sem næstur var skrifborðinu. Svalt vetrarloftið bar með sér daun af kolareyk og brenndum við. Í fallegri bókahillu, haglega smíðaðri af föður Choe, sátu fjársjóðir hans vel með farnir; öll átta bindin af endurminningum Foringjans ásamt ljóðabókum sem hann hafði fengið þann dýrðlega heiður að semja og gefa Foringjanum, hinum góða og miskunnsama, þegar hann og Jong bjuggu í Pyongyang. Á veggnum við hliðina á bókahillunni var svo mynd af hinum mikla Foringja með syni sínum. Guðdómleiki þeirra var nánast lamandi. Hann þurfti að sýna honum í verki að hann væri ástar hans verðugur með þrautseigju og útsjónarsemi. Núna vantaði aðeins nokkrar línur upp á ljóðið og þá yrði Kim birgðastjóri vonandi ánægður. Hann gæti jafnvel greitt fyrir því að þau fengju auka matarskammt við næstu úthlutun í birgðastöðinni.

Hann hafði oft samið fagrar ljóðlínur fyrir Kim sem launaði honum stundum greiðann. Kim var veikur fyrir fallegum konum og notaði ljóðin til að mýkja jarðveginn áður en hann lagði þær konur sem urðu á hans vegi.  Hann var veikgeðja. Þegar kom að úthlutun og Choe sótti matarskammta fjölskyldunnar þá lagði Kim oft inn hjá honum nýja ljóðapöntun. Það var vissara að hafa Kim á sínu bandi og nú var komið að því að leita á hans náðir ef börnin áttu ekki að svelta.

Moon og Park sátu saman í hnipri í hrörlegum stofusófanum og þuldu í hálfum hljóðum upp úr ungdómsriti alþýðunnar. Teppin sem þau vöfðu um sig héldu varla á þeim hita en voru það eina sem þau höfðu fyrir utan fatagarma sem blöktu utan á þeim öllu jafna. Af tvennu illu var kuldinn þó sennilega skárri en hungrið og sem betur fór höfðu þau fengið matarskammta móður sinnar undanfarna daga. Choe horfði á börnin sín döprum þreyttum augum. Hann var stoltari af þeim en orð fengu lýst. Bara að móðir þeirra gæti séð þau núna.

Nýr snjór hafði fallið um nóttina og klæddi hjarnið þannig að allir slóðar voru horfnir. Ferðalag á hjóli inn í þorpið yrði ekki auðvelt. Choe hafði kveikt upp í arninum með örfáum viðarkubbum svo að börnin gætu haft smá yl yfir daginn á meðan hann var í burtu. Á lítið borð í eldhúsinu hafði hann sett tvær skálar með hrísgraut ásamt hluta úr gulrófu í hvora skál.  Allur annar matur var uppurinn svo hann varð að láta sér nægja afganginn af gulrófunni. Það var allur hans matur fyrir daginn. Ef Kim líkaði ljóðið hans þá gæti hann tryggt þeim nægilegan mat fram að næstu skömmtun. Á síðustu vikum höfðu skammtarnir minnkað það mikið að þeir dugðu ekki lengur út vikuna.

Þau voru alltaf svöng. Hann og Jong höfðu sjálf sparað við sig mat eins og mögulegt var svo að börnin syltu ekki. Að þeim degi kom þó að þau gátu ekki meir. Ef börnin áttu að lifa varð annað þeirra að fara. Ef Kim vissi ekki að það vantaði einn fjölskyldumeðlim þá gætu þau tekið við skömmtum fyrir þau öll og tryggt að börnin hefðu nægan mat. Úr varð einn daginn að þau sögðu börnunum að móðir þeirra ætlaði að fara til höfuðborgarinnar, þá um kvöldið, því hún hefði fengið mjög mikilvægt verkefni hjá syni foringjans sem myndi tryggja þeim meiri mat. Um kvöldið hjóluðu þau í átt að þorpinu, svo börnin grunaði ekki neitt misjafnt. Þegar þau voru kominn vel í hvarf þá beygðu þau út af hjólaslóðanum og inn á stíginn sem lá inn í skóglendið. Þau höfðu undirbúið þetta vandlega og valið staðinn vel. Þau voru búin að ákveða hvort þeirra færi. Hann hafði meiri líkur á því að draga fram lífsbjörg fyrir börnin því hún var orðin blind á öðru auga og sá illa með hinu. Ský á augasteini sögðu læknarnir í þorpinu og ástæðan var víst langvarandi vannæring. Þeir gátu ekkert gert, höfðu engin tæki.

Þegar kveðjustundin kom, þá voru þau hljóð. Þau höfðu sagt allt sem segja þurfti. Hún var klædd í sín skástu föt og sína bestu skó sem mörgum sinnum höfðu verið bættir en litu samt út sem nýir. Þau horfðust í augu, djúpt og lengi. Sorg og einmanaleiki barðist innra með Choe. Jong, æskuástin hans og móðir barnanna þeirra, hafði aldrei verið fallegri en akkúrat núna. Hún rauf augnsambandið og sneri sér rólega við. Þó tárin rynnu niður vanga hennar þá passaði hún sig á að láta hann ekki heyra neinn grátur. Hún féll á kné. Choe tók utan um háls hennar með báðum höndum og klemmdi þær saman af öllu afli. Hún streittist ekki á móti. Líflaus líkami hennar féll að lokum niður í grunna gröf sem þau höfðu bæði unnið að nokkrum dögum áður. Þau höfðu gert það sem þau gátu með eina skóflu og frosna jörð. Hann dysjaði hana eins vel og hann gat, stóð hjá og grét lengi áður en hann sneri aftur heim til barnanna. Þarna áttu þau meiri möguleika á lífi en hungurdauða en það hafði ekki enst lengi. Nú varð hann að treysta á Kim.

Choe kvaddi börnin og bað þau að hleypa engum inn sem þau þekktu ekki. Þau höfðu ekki mikið annað fyrir stafni en að lesa bækur sem Foringinn hafði gefið og halda á sér hita. Choe gaumgæfði samanbrotið blað sem hann hafði stungið inn á sig. Ljóðið var á sínum stað. Hann tók reiðhjólið og teymdi það í gegnum þungan snjóinn. Gangan sóttist hægt og langvarandi hungrið var farið að ná tökum á huga hans. Á leið sinni gekk hann fram hjá slóðanum inn í skóglendið eins og ávallt þegar hann átti erindi í þorpið. Það var aðeins um mánuður frá því þau kvöddust. Sársaukinn risti ennþá djúpt og stóð eins og sverð í hjarta hans. Hann stoppaði örstutta stund, kastaði mæðinni og horfði upp eftir stígnum.

,,Börnin okkar skulu ekki svelta …” sagði hann við trén, umhverfið og minninguna um hana, móður barnanna, sem  hvíldi í frosinni jörð í rjóðri við enda stígsins. Hann laut höfði og hélt áfram göngunni. Það var ekki löng leið eftir í þorpið.

Fáir voru á ferli þegar hann gekk niður aðalgötuna og nálgaðist torg hins réttsýna og miskunnsama Foringja. Á því miðju var Foringinn sjálfur í öllu sínu veldi, sex metra há bronsstytta sem sonur Foringjans hafði gefið þorpinu. Raðir af blómvöndum lágu fyrir neðan fótstall Foringjans eins og lög gerðu ráð fyrir í landinu.

Tveir rússneskir trukkar frá hernum stóðu fyrir framan birgðastöðina og voru einu bílarnir sem Choe hafði séð á allri sinni göngu þennan morguninn. Eldsneyti var af mjög skornum skammti, þökk sé helvítis Ameríkönunum og kúgunartilraunum þeirra.

Í afgreiðslu birgðastöðvarinnar voru hermenn sem stóðu vopnaðan vörð og fylgdust með hverri hreyfingu þeirra sem inn komu. Röðin við innskráninguna var ekki ýkja löng en þangað þurfti Choe að fara í hvert skipti sem mat var úthlutað. Kim var venjulega aldrei langt undan og kallaði hann iðulega inn á skrifstofu til sín þegar röðin kom að honum. Þar sem hann beið í röðinni sá hann Kim aftur á móti hvergi bregða fyrir.

,,Næsti,” var kallað þurri eintóna röddu. Skráningarstjórinn var kona á miðjum aldri í formlegum herbúningi. Hún hafði verið skráningarstjóri alveg síðan hann og Jong höfðu neyðst til að flytja frá Pyongyang. ,,Sýndu mér fjölskylduskráninguna þína,” bætti hún við án þess að líta upp á Choe.

,,Afsakið, er birgðastjórinn við, Kim Ji Hwan? Get ég nokkuð fengið að hitta hann?” Choe var órólegur því lítið þurfti til að reita starfsfólkið hér til reiði. Hann varð að vera klókur. Hann beygði sig og bugtaði og gætti þess að horfa ekki framan í skráningarstjórann ef hún skyldi líta upp. Hann hafði aldrei áður þurft að biðja um viðtal við Kim.

,,Hvað varðar þig um hann? Af hverju heldurðu að hann vilji eitthvað tala við þig?” spurði hún önug. ,,Þú ert að tefja fyrir öðrum hér.” Tónninn í rödd hennar jaðraði við fjandsemi. Útundan sér sá Choe hreyfingu.

,,Komdu út úr röðinni, hérna til hliðar” kallaði skipandi karlmannsrödd sem Choe þekkti ekki. ,,Hvaða erindi áttu við Kim?” spurði háttsettur einkennisklæddur maður sem stóð hinum megin við lágreistan vegg sem skildi afgreiðsluna frá móttökusalnum. Choe tvísté en nálgaðist manninn varlega.

,,Ég kem til að færa honum ljóð”. Choe stakk hendinni ofan í  vasa innan á úlpunni sinni og dró fram vandlega samanbrotið blað og rétti manninum. Maðurinn tók við blaðinu, opnaði það hratt og örugglega og gaumgæfði. Það vottaði fyrir vanþóknun í svip hans. Hann las ljóðið í hljóði og hló svo tröllslegum hlátri. ,,Hvaða sorp er þetta eiginlega?” spurði hann. ,,Heldurðu að einhver hafi áhuga á svona óskapnaði?” Choe vissi ekki hvernig hann átti að bregðast við og horfði því bara niður og þagði.

,,Þú ert heppinn að ég er hérna núna, því ég ætla að leyfa þér að fara án þess að henda þér í fangelsi fyrir þetta klám sem þú kallar ljóð. Kim myndi skjóta þig í portinu hérna fyrir aftan ef hann væri hér núna.” Maðurinn virtist njóta þess að níðast á honum. Hann horfði aftur vandlætingarfullum augum á ljóðið og síðan á Choe um leið og hann krumpaði það snöggt saman og henti því fyrir fætur hans. Með snöggri hreyfingu tók Choe blaðið upp og stakk í annan buxnavasann. Choe gjóaði augunum í áttina til mannsins en einblíndi annars stíft á gólfið. Það var öruggast úr því sem komið var.

,,Komdu þér út! Burt með þig! Láttu þig ekki dreyma um neinn mat.” Maðurinn vísaði Choe á dyrnar og gretti sig grimmilega. Choe leit á hann eldsnöggt en hraðaði sér síðan út undir dynjandi hlátrasköllum þeirra sem inni voru. Hann hafði verið niðurlægður og var auk þess matarlaus.

Í örvinglun og tímaleysi ráfaði Choe um þorpið. Mannandskotinn var að dæma fjölskyldu hans til dauða. Næsti úthlutunardagur var eftir viku og hann gat þá komið aftur í von um að Kim væri kominn aftur. En þangað til höfðu þau engan mat. Ekkert. Hann gat mögulega reynt að grafa eftir rótum í skóginum en það var ógurleg vinna meðan jörðin var frosin. Hann dræpist sennilega sjálfur áður en nokkuð fengist út úr því.

Uppgjöf og hungurdoði lögðust yfir hann þar sem hann teymdi hjólið áfram í ómarkvissa hringi. Áður en hann vissi af var hann kominn út úr bænum og stefndi heim. Hann hafði lofað Jong að börnin skyldu ekki svelta. Hann hafði líka lofað henni að ef hann stæði frammi fyrir því þá væri einungis eitt eftir að gera. Lítið glas var í skrifborðsskúffunni heima hjá þeim sem hann gat notað fyrir þau öll. Hann skjögraði áfram með reiðhjólið og grét er hann hugsaði til þess sem hann yrði að gera. Það var ekkert annað í stöðunni. Enginn átti mat. Hann gat ekki hugsað sér annað en að taka tvær nýjar grafir fyrir þau við hlið Jong. Síðan gæfi hann Moon og Park restina af mat móður þeirra, blandaðan með dreitli úr glasinu. Restina myndi hann svo nota sjálfur þegar hann hefði lagt systkinin saman í eina gröf og hulið þau.

Hann var kominn aftur að stígnum inn í skóglendið. Hann horfði upp eftir honum. Sólarglæta hafði brotist í gegnum þungbúin skýin og lýsti upp hluta stígsins. Andartakið greip hann. Hann leitaði í vasanum að blaðinu með ljóðinu. Varlega opnaði hann krumpað blaðið, slétti úr því og las ljóðið aftur yfir.

 

Það rignir.

Dúfan breiðir vængi sína hljóðlega út,

Og siglir yfir skýin,

Á leið sinni til hins réttsýna föður,

Hins mikla foringja.

 

Miskunn hann deilir.

Jafnt með sínum, fjölskyldu, fólki,

Svo dropar himinsins gráta,

Og gárur vatnsins dansa,

Líkami hans er þeirra, sál hans er eilíf.

 

Þökk sé Jong og frosthörkum vetrarins þá vissi Choe hvað hann varð að gera til að bjarga börnunum, allavega fram að næstu matarskömmtun. Skóflan var sennilega ennþá hjá gröfinni. Hann tók stefnuna upp stíginn.

 

[hr gap=“50″]

 

Fjalar Sigurðarson er mikill listaunnandi, með ritlistargráðu frá HÍ í farteskinu og alls konar hugmyndir í kollinum. Furðusögur eru honum einkar hugleiknar og vonast hann til að geta lagt sitt lóð á vogarskálar þess afkima bókmenntalandslagsins á næstu árum. Hann bindur sig þó ekki við furðusögur heldur bara allskonar, eins og þessi saga hér að ofan er dæmi um.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...