Eitt sem góðar bækur gera er að láta lesandann velta fyrir sér fyrir þýðingu orða sem honum eru allajafnan svo töm að hann hugsar aldrei neitt sérstaklega út í þau. Titill og innihald nýrrar skáldsögu Fríðu Ísberg, Merking, sendi mig í dálítinn leiðangur hvað þetta varðar. Merking: Við búum til merkingu með því að setja mörk og með því að merkja. Ekkert hefur neina merkingu í tómarúmi—sérstaklega ekki hvað siðferðið varðar. Gott og illt skapast af mörkum og merkimiðum; við búum okkur til einhver ákveðin mörk góðs og ills, og við merkjum hluti og fólk eftir mati okkar á stöðu þeirra á þeim ás. Baráttan um merkingu snýst þannig alltaf um þetta: Hver fer með valdið til að setja mörk og til að merkja út frá þeim?

Merkingþ.e. bókin—er sjaldséð fyrirbæri í íslenskri bókaútgáfu: Dystópísk vísindaskáldsaga. Það er sérstaklega seinna orðið sem er framandi hérlendis; í nýlegu Kiljuviðtali við höfund bókarinnar var vissulega talað um hana sem dystópíu, en v-orðið var ekki nefnt. Það er eins og það þyki eitthvað viðkvæmt að nota þetta heiti í bókmenntaumræðu hérlendis, næstum eins og það geti aðeins merkt ódýrar kiljur á ensku sem eru seldar í Nexus, ekki harðspjalda listrænar íslenskar skáldsögur sem eru seldar í Eymundsson á sjöþúsundkall. Annað er fyrir ólæsa PISA-drengi; hitt er fyrir íslenska góðborgara.

En nei, Merking er sci-fi, rétt eins og önnur nýleg íslensk bók, Nornin eftir Hildi Knútsdóttur. Báðar eiga það sameiginlegt að gerast í Reykjavík sem hefur breyst í kjölfar loftslagsbreytinga, en á meðan sú breyting er helsta einkennismerki heims Nornarinnar er það eins og óhugnanlegt smáatriði í Merkingu: Fólk hefur vanist loftslagsbreytingunum eins og öðru, það er bara partur af lífinu, eitthvað sem þú leiðir sjaldan hugann að. Ég veit eiginlega ekki hvort er óhugnanlegri sýn. En aðaleinkenni sci-fi-heimsins í Merkingu er að þar hefur verið fundið upp á tækni sem sér um það fyrir okkur að setja mörk og merkja: Vél sem skannar fólk og prófar og ákveður hvort það sé gott eða illt, með samkennd eða siðblint.

Þetta kynni að hljóma eins og grafalvarlegt efni, sem það er, en bókin er líka lúmskt fyndin, á svipaðan hátt og hinar margverðlaunuðu smásögur Fríðu í bókinni Kláða (2018). Það má meðal annars sjá á stórkostlegum nöfnum karakteranna, sem eru ákveðnar framtíðarspár byggðar á núríkjandi nafnatrendum, bara teknum lengra. Þá má sömuleiðis sjá gráglettni í þeirri atburðarás sem hrindir öllu af stað í sögunni. Sakleysisleg lög eru sett á Alþingi sem gera sálfræðitíma gjaldfrjálsa fyrir alla. Íslendingar verða skjótt sálgreindir til óbóta og hefur það sín áhrif þegar stóri gagnalekinn skellur á og það verður búsáhaldabylting. Ný ríkisstjórn er mynduð eftir kröfu sálfræðiþjóðarinnar, ríkisstjórn sem öll þarf að gangast undir próf tækninnar um hvort meðlimir hennar séu siðblindir eður ei, og krafan um notkun prófsins til að bæta samfélagið vex og vex.

Að þetta spretti alltsaman úr þeirri kröfu sem er svo hávær hjá ungu fólki núna, að það eigi að hafa auðvelt aðgengi að sálfræðingum, er bæði skondið og beitt. Þótt Fríða passi sig á að predika ekki, þá finnst mér hér bera á ákveðnum skeptisisma á sálfræðinga og aðferðir þeirra til að bæta fólk. Tækið sem skannar fólk eftir siðblindu minnir mig á tilraunir kenndar við rússneska sálfræðinginn Jarbus sem voru gerðar á 6. áratugnum. Þær fólust í að sýna fólki myndir sem áttu að vekja tilfinningaleg viðbrögð, en í stað þess að spyrja fólk út í tilfinningar sínar var fylgst með augnhreyfingum þess og þær greindar til að leita svara. Tilgangurinn var að sleppa undan hinu vitsmunalega svari fólksins, sem sálfræðingarnir töldu að væri ekki treystandi, enda gætu þar leynst blekkingar og óheiðarleiki; þess í staðinn átti að komast beint að heilanum, fá hinn hreina sannleika um raunverulegar tilfinningar fólks, milliliðalaust. Ekki var tekið neitt tillit til þess að hreinn aðgangur að heilanum kemur kannski sálfræðingum ekkert við, og að þeir myndu ekki skilja þann aðgang ef þeir öðluðust hann—að hérna sé komið enn eitt dæmið um hættulega yfirburðahyggju lækna gagnvart sjúklingum sínum, sem hefur leitt til ótal hörmunga í gegnum aldirnar.

Í Merkingu er einn aðalkarakterinn einmitt sálfræðingur sem fer fyrir baráttunni um að gera siðferðisprófið að skyldu, maður með hið stórkostlega nafn Ólafur Tandri. Hann er mjúki, passív-agressívi maðurinn uppmálaður og ásamt mjúkum kollegum sínum í félaginu SÁL rekur hann umhyggjusama herferð á samfélagsmiðlum um nauðsyn þess að sigta út glæpamenn áður en þeir brjóta af sér og veita þeim—hvað annað?—sálfræðimeðferð. Andstæðingar hans eru hinsvegar í félagi sem heitir KALL, og eru eins og nafnið bendir til flestir karlmenn af gamla skólanum sem taka upp málstað þeirra sem falla á prófinu eða neita að gangast undir það—sem eru ofar öllu ungir, illa menntaðir og illa áttaðir strákar: PISA-drengir. Áhugaverðasti karakter sögunnar er einmitt einn slíkur, Tristan Máni (annað stórkostlegt nafn!)

Í Tristani birtist rödd sem ég held að hafi ekki birst áður í íslenskum bókmenntum, eða allavega ekki á svona áhugaverðan hátt: Rödd þess sem sjaldan eða aldrei les, rödd þess sem íslenskar bókmenntir útiloka og líta raunar á sem sína helstu ógn, sbr. endalaus lestrarátök undanfarins áratugs. Hann hrærist í málheimi sem er bæði enskur og íslenskur í senn og sérhver setning er blanda af málunum tveimur. Þannig er sjálfur tjáningarmáti hans til að auka fyrirlitningu góðborgaranna á honum og eykur enn á löngun þeirra til að setja hann í prófið, í löngun til að sjá hann falla á því (og lesandinn getur speglað sig í þessari fordæmingu). En Tristan harðneitar að taka prófið og myndar þannig óþægilegt ljón í vegi sálfræðinganna sem vilja laga hann að hinu góða samfélagi.

Fríða passar hins vegar að birta enga einfalda mynd af þeirri dílemmu sem sálfræðiprófið skapar. Aðrar aðalsöguhetjur eru kona að nafni Vetur (!) sem hefur góða ástæðu til að vilja sjá prófinu beitt í samfélaginu, en hún reiðir sig á það til að halda ofbeldismanni í seilingarfjarlægð frá sér. Svo fáum við að fylgjast með konu í heimi viðskipta sem er siðblind í gegn, sem stöðvar hana náttúrulega ekki í því að reyna að koma sér áfram í hinum siðhreina nýja heimi með allskyns fyndum og skelfilegum brögðum. Loks er frásögnin römmuð inn með tölvupóstsamskiptum tveggja vinkvenna á sitt hvorum pól umræðunnar um sálfræðiprófið, samskipti sem virðast ætla að rekast á ókleyfan vegg sem hefur risið milli fólks í samfélaginu, en gefa að lokum einhverja von um hægt sé að mætast einhversstaðar og ræða saman eins og manneskjur en ekki merkimiðar.

En eru það þá öll skilaboðin—tölum saman, elsku vinir? Þau skilaboð eru vissulega góð en ef það væri allt sem bókin væri að reyna að segja væri kannski ekki mikið varið í hana. En það er meira sem liggur undir hér. Útilokun annars fólks frá manni sjálfum er nefnilega verjanleg undir mörgum kringumstæðum og það er alls ekki alltaf þörf á samtali; t.d. er það réttlætanlegt að fá nálgunarbann á ofbeldismenn og að hafna fólki sem lætur manni líða illa úr vina- eða fjölskylduhóp. En slík mörk og slíkar merkingar verður maður að taka ábyrgð á sjálfur, prívat og persónulega: Enginn og ekkert getur gert þetta fyrir mann, og núningurinn sem verður milli fólks sem setur mörk og merkir á sinn margvíslega hátt er óhjákvæmilegur, raunar þáttur í því að vera manneskjur í samfélagi. Það má kannski segja að Merking sýni vel að tilraunir til að draga úr þeim núningi með aðferðum tækninnar eða valdboðs að ofan eru dæmdar til að mistakast.

Merking er þannig margslungin bók, til skiptis og í senn heimspekileg, alvarleg, spennandi og fyndin. Karakterarnir eru ekki bara skrifaðir af því sálfræðilega innsæi sem einnig einkenndi Kláða, heldur eru þeir líka óvenjulegir og kærkomnir inn í hinn fremur sjálfhverfa heim íslenskra bókmennta. Loks táknar bókin vonandi að vísindaskáldskapur sé að ryðja sér til rúms hérlendis, sem enn og aftur gerir hana að ferskum andblæ. Ég vona að hún opni dyrnar fyrir fleiri verk af sama tagi: Hér er allavega komin framúrskarandi fyrirmynd.

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...