Áhrifamikil femínísk ljóðferð

Kona lítur við er önnur ljóðabók Brynju Hjálmsdóttur en hún kom valsandi inn á ritvöllinn með frumrauninni Okfruman sem hlaut tilnefningu til Fjöruverðlaunanna. Brynja fylgir þeirri bók eftir með ekki síður sterku verki. Ljóðabókinni er skipt upp í þrjá hluta, Óramaðurinn, Kona lítur við og Í borg skækjunnar. Hlutarnir þrír eru þó í samtali við hvorn annan og myndar því ljóðabókin áhrifamikla heild að lokum.

Lítum inn um skáargatið

Fyrsti hluti, „Óramaðurinn“, fjallar um óramann sem „dreymir um að vera karl / segja: sei sei sei / já já já / sei sei sei / já“ (bls. 18). Svona eins og við vitum að karlar gera. Kaflinn hefst reyndar á því að vera fær höfnun: „Verkefni stjórnar var ekki auðvelt en hún hefur engu að síður komist að niðurstöðu / Því miður varðst þú ekki fyrir valinu / Við hvetjum þig til dáða við hvetjum þig / til að sækja um að nýju“ (bls. 16). Höfnunarkórinn endurtekur sig í skemmtilegum rytma og veran lítur inn um skáargat þar sem hún sér óramanninn og fylgist með honum. Þennan fyrsta kafla má túlka út frá femínískri greiningu þar sem konu er hafnað og í kjölfarið byrjar hún að óska þess að vera karl þar sem þeim eru enn, því miður, margir vegir færari í samfélaginu okkar í dag: „Dreymir / um að vera maður / með mönnum / sem gera sig gildandi / já þeir eru svo gildir / og gildandi“ (bls. 19).

Femínískur súrrealismi

Næsti hluti ber sama heiti og ljóðabókin sjálf, „Kona lítur við“. Þetta er athyglisverður frasi og hægt að velta sér upp úr því af hverju kona lítur við, fyrsta ljóð kaflans vakti upp hjá mér mynd af konu sem gengur ein um götu og lítur við því hún þarf ávallt að hafa varann á. Þetta þekkir hver ein og einasta kona. Á hárgreiðslustofu lítur kona við og „skiptir hárinu / út // fyrir örmjóa svarta ánamaðka // sem síðasta þróast í volduga höggorma // sem bíta fast / í óvini / sem vilja höggva / konur / í stein“ (bls. 31). Hér öðlast konan sterkt vopn gegn óvinum sem fordæma hana og vanmeta. Á eftir fylgja ljóð þar sem ljóðmælandinn, Konan með stóru K-i, lendir í ýmsu óréttlæti á hinum ýmsu stöðum. Ljóðin varpa ljósi á líf hennar, eru beitt, full af ádeilu og súrrealískum myndum sem vekja sterk áhrif. Konan finnur þó að hún er velkomin í blómabúðinni: „Hún er drottning í þessu ríki“ (bls. 34). Enda blóm oft tengd við tilfinningar og þar með kvenleika. Sum ljóðin eru beint úr hversdagsleikanum en búið er að snúa upp á hann, t.d. er gömul vinkona í ljóðinu „Minni“, „salamandra úr fortíðinni“ þegar hún mætir konunni á förnum vegi og bendir á að hún hefur grennst. Konan „segir: takk / hársbreidd frá markmiðinu fyrirgefðu mér / að ég sé hér enn / að enn sjáist móta fyrir mér // tvívíðri mannleysu í þrívíðri borg“ (bls. 49). Hér er verið að leika sér að því að konur eigi að láta sem minnst fara fyrir sér, helst vera ósýnilegar, aldrei fyrir neinum og undirgefnar. Í síðasta ljóði kaflans „Geislandi“ má sjá einskonar ummyndun konunnar, endalok hennar jafnvel,, „Kona leggst / til sunds / í geislavirkum polli // horfir á frumurnar / sundrast og raðast / vitlaust saman aftur“ (bls. 56). Hún er með „bikar í hendi sér fullan viðurstyggðar“, og er „ölvuð / af blóði hinna heilögu“. Er búið að gera útaf við konuna sem er uppfull af hatri á sinni stöðu og hlutverki sem er þröngvað upp á hana?

Þriðja augað

Heiti þriðja kaflans „Í borg skækjunnar“ kallast á við tilvitnun úr Biblíunni sem má finna í upphafi verksins. Einnig birtist hér veran aftur úr fyrsta kafla ljóðabókarinnar. Hún hefur fundið „réttu skrána / […] / opnar þriðja augað / og veit“ (bls. 61) og gengur inn í borg Skækjunnar. Þessi borg má sjá sem einskonar útópíu, „Í borg Skækjunnar er alltaf heitt á könnunni / og alltaf standa dyrnar opnar // Allar segja jú / komdu inn elskan / komdu bara inn / og vertu ekkert að fara úr skónum“ (bls. 62). Þarna má aðeins finna konur, enga karla: „Öll hús eru þiljuð […] / svo aldrei koma nein / sei sei sei næðandi / inn um holur“ (bls. 62) Í borg skækjunnar eru ekki borgarbúar heldur „borgarbúur“, þar „þarf aldrei að vaska upp“ og þar „mjólka konur sig sjálfar þurfa enga hjálp“. (bls. 64-66). Að lokum hrópar veran, ljóðmælandi, upp yfir sig: „Ó! Ef þið gætuð bara séð hana / litið þar við // litið inn / um einmitt réttu skrána / með öll augu opin / upp á gátt“ (bls. 72.)

Hrífandi og metnaðarfull

Ljóðabókin er hrífandi, myndmálið og metnaðurinn sem hefur verið lagður í alla umgjörð hennar og uppbyggingu vekur aðdáun. Ég var með nokkuð miklar vætingar til þessarar bókar og varð svo sannarlega ekki fyrir vonbrigðum. Meginhugmyndin þótti mér góð og er þetta frábær bók að lesa til að geta kjamsað svolítið á hverju ljóði.

Kona lítur við er sannkölluð femínísk ljóðferð um líf konu í nútímasamfélagi. Raunveruleikinn er framandgerður og súrrealískt myndmál tekur völdin til að ná fram beittri ádeilu og vekja hughrif. Kona lítur við er heildstætt og metnaðarfullt ljóðverk sem á erindi til allra ljóðunnenda.

Lestu þetta næst

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...

Heillandi jóladraumar

Heillandi jóladraumar

Íslenski dansflokkurinn býður upp á Jóladrauma þessa aðventu. Um er að ræða danssýningu fyrir börn...

Næturbrölt

Næturbrölt

Í fyrra lásum ég og drengurinn minn bókina Tannburstunardagurinn mikli og vorum hæstánægð. Næsta...

Að ánetjast eldri konum

Að ánetjast eldri konum

Ég hef verið áðdáandi Evu Rúnar núna í þónokkur ár. Ljóðabækurnar hennar og örsagnasöfn hafa verið...