„Okfruma er boðskort í hólmgöngu“

Á þessari mynd má sjá gitta í eina teikningu Brynju inn í bókinni.

Það eru ávallt spennandi fréttir þegar ný skáld ryðja sér til rúms í jólabókaflóðinu. Ljóðabókin Okfruman eftir Brynju Hjálmsdóttur er fyrsta verk höfundar en áður hafa verk eftir hana birst í bókmenntatímaritum og safnbókum. Una útgáfuhús gefur út bókina og hægt er að næla sér í eintak hér eða í betri bókabúðum bæjarins. Bókin er einstaklega fallega hönnuð, bæði kápan og innihald, en í gegnum verkið eru teikningar sem mér skilst að séu eftir Brynju sjálfa. Kjartan Hreinsson sá svo um hönnun og umbrot.

Okfruman er heildstætt verk sem fylgir stúlku frá því hún er okfruma til fullorðinsára. Upphaf bókarinnar er einstaklega sterkt þar sem upphafi lífsins er lýst á skapandi hátt. Ljóðin um barnæsku ljóðmælanda eru eins og martraðarkennd ævintýri, „Í rigningunni er malbikið / glitrandi hreistur // Þess vegna veitir því enginn athygli / þegar gríðarstór svört slanga / skríður upp úr hafinu / og hringar sig utan um flugvöllinn í Skerjafirði“ (bls. 11) Höfundur leikur sér með mörk raunveruleikans, varpar upp súrrealískum og óhugnanlegum myndum.

Brynja er bóksali og skáld.

Dauðinn er sífellt nálægur, stúlkan „lærir allt áður en hún fyllir upp í skálastærð A // Dauðinn kemur barni til manns“ (bls. 18) Athyglisvert fannst mér minnið um Grámann í Garðshorni sem er gamalt ævintýri sem ég kannaðist hreinlega ekki við. Grámann er einhverskonar djöfull eða myrkravera sem ásækir ljóðmælanda í gegnum uppvöxtinn. Hægt er að velta fyrir sér hvort að hann sé táknmynd þunglyndis og kvíða, grámans sem virðist hanga yfir stúlkunni. „Vaknar um nótt öll / blaut skelfingu lostin sér / að hún hefur gjört í rúmið blóð / úti um allt skilur allt / í einu auðvitað kom Grámann / með rauðgraut í dálítilli skjólu / og lét drjúpa á rekkjuvoðirnar hún / fleygir öllu fram á gólf og sofnar / aftur“ (bls. 35) Hér er ónotaleg lýsing af fyrstu blæðingum stúlkunnar sem hún tengir við ævintýrið um Grámann líkt og svo margt annað í lífinu. Rauðgrauturinn er svo endurtekið stef í bókinni.

Velta má fyrir sér hvort að niðurstaða bókarinnar sé sú að lífið sé stanslaust ok frá fyrstu okfrumu til dauða, „Okfruma er boðskort í hólmgöngu / barist upp á líf og dauða / okfruma er rauðgrautur í klósetti / okfruma er undanfari bálfarar / okfruma er innsiglaður samningur / um að allt springi í loft upp“ (bls. 49)

Okfruman fannst mér einstaklega spennandi og skapandi frumraun. Það sem hreif mig mest er að bókin er samfelld saga þar sem sjá má úrvinnslu minna og tákna gegnumgangandi. Formið er brotið upp, sum ljóð eru heildstæð, önnur aðeins ein lína. Teikningarnar bæta við upplifunina, eru óræðar og hringlaga eins og okfruman.

Lestu þetta næst

Lygar eða skemmtisögur?

Lygar eða skemmtisögur?

Í seríunni um Bekkinn minn eftir Yrsu Þöll Gylfadóttur er íslenskur raunveruleiki eins og hann...

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...