Þrjár bækur frá Blekfjelaginu: „Mikill styrkur að vinna þetta saman“

Þrjár nýjar bækur komu út í haust á vegum bókaútgáfu Blekfjelagsins. Á bakvið útgáfuna eru núverandi og útskrifaðir nemar í ritlist. Haustið 2020 komu út þrjár ljóðabækur, í vor komu út tvær skáldsögur. Í þetta sinn er útgáfan mjög fjölbreytt, þar má finna skáldsöguna Haustið 82 eftir Ásdísi Ingólfsdóttur, ungmennabókina Með skuggann á hælunum eftir Guðrúnu Rannveigu Stefánsdóttur og ljóðsöguna Loddaralíðan eftir Berglindi Ósk. Höfundarnir þrír sátu fyrir svörum þegar Lestrarklefinn sem fékk að forvitnast um bækurnar og útgáfuferlið. 

Hér má sjá (frá vinstri) Guðrúnu, Berglindi og Ásdísi.

Hvernig nýttist ritlistarnámið ykkur við útgáfu þessara bóka?

„Hluti textans hafði orðið til í ritlistarnáminu, reyndar mjög lítill hluti hans. Svo hafði ég verið í Á þrykk svo ég þekkti ferlið,“ segir Ásdís og á þá við áfanga sem ritlistar- og ritstjórnarnemar taka á lokaárinu í ritlist. Þar vinna þau saman að útgáfu bókar, nú síðast kom út Þægindarammgerðin

Berglind var búin að vera að vinna í verkinu lengi. „Ég var búin að ströggla við að skrifa bók um loddaralíðan sem sjálfshjálparbók byggða á fyrirlestrum sem ég var að halda en ég var komin með alveg upp í kok af því, fannst það svo leiðinlegt að skrifa og hugsaði að þá yrði það líka leiðinlegt að lesa. Það var svo í áfanga hjá Rúnari Helga í ritlistinni þar sem við vorum að skoða ljóðræna esseyju þar sem ég fór að leika mér með lista og hugleiðingar og allskonar „óvenjuleg” form af ljóðum og þá byrjaði bókin í þessari mynd.“

Guðrún tekur undir að áfanginn Á þrykk hafi verið mjög hjálpsamlegur. „Það er margt sem ég lærði í ritlistarnáminu sem kom að góðum notum við skrif bókarinnar. Grunnurinn varð til í náminu en síðan var ýmislegt sem breyttist á leiðinni að útgáfu. Það að fá yfirlestur og ábendingar frá hvort öðru var eitthvað sem við lærðum í ritlistinni og t.d. var áfanginn Á þrykk, þar sem við gáfum út bók, mjög lærdómsríkur.“

 

Af hverju ákváðu þið að gefa út hjá Blekfjelaginu?

„Í fullri hreinskilni, af því að ég var búin að fá neitanir frá nokkrum forlögum. Það var reyndar af eldri gerð af handriti, en mig langaði ekki að senda uppfært handrit og eiga á hættu að fá aftur neitun, það er bara svo og svo mikið af neitunum fyrir eitt verk sem maður getur höndlað,“ segir Berglind einlæg, en þetta er auðvitað eitthvað sem margir höfundar hafa kljást við. 

Hjá Ásdísi skiptu tímasetingar miklu máli við val á útgáfu. „Tímasetningar, þ.e. Hversu snarplega var gengið til verka. Hjá öðrum útgáfum hefði þetta tekið miklu lengri tíma. Og svo var það ritstýringin, mér fannst mjög eftirsóknarvert að fá skelegga ritstýringu og það samstarf stóð svo sannarlega undir væntingum.“

Guðrún er einnig sammála því að gott sé að fá spark í rassinn til að fullvinna handrit. „Þessi hugmynd að gefa út í samfloti við aðra sem koma úr ritlistinni fannst mér heillandi og mér fannst þetta kjörið tækifæri til þess að stíga skrefið og fullvinna handritið sem hafði verið í biðstöðu í nokkurn tíma.“

 

Hvernig hafa viðtökurnar verið?

Allar eru þær sammála að bókunum hafi gengið stórvel þennan fyrsta mánuð. „Bókin hefur runnið út!“ segir Ásdís. „Ég hef þurft að fara með viðbótareintök,“ bætir hún við. Berglind er einnig ánægð með viðtökurnar. „Það tengja svo margir við efnið, þess vegna taka margir bókina upp held ég. Kápan hefur líka vakið mikla lukku. Ég sé alveg fram á að prenta fleiri eintök en ég lagði upprunalega upp með, svo ég kalla það góðan árangur.“ Guðrún stefnir líka á endurprentun á sinni bók: „Viðtökurnar hafa verið góðar, ég er að láta prenta fleiri eintök núna.“

 

Hvernig finnst ykkur að taka þátt í jólabókaflóðinu? 

„Það er skemmtilegt. Það er mjög mikið af bókum að koma út núna þannig að það er eiginlega stórstreymi af bókum fyrir þessi jól og við berumst bara með straumnum,“ segir Guðrún og Ásdís bendir þá á að það komi á óvart hversu margar bækur hafi komið út snemma í ár. „Ég átti ekki von á að allt væri komið á fullt svona snemma, hélt að við yrðum með fyrri skipunum en svo var alls ekki. Allt er komið á fullann skrið og mjög gaman að upplifa það. Reyndar finnst mér Bókatíðindi koma svolítið seint miðað við hversu allt er komið á fullt. Það nýtist kannski ekki eins vel og ég vonaði, nú þegar allir eru að auglýsa á öllum miðlum. Það bókstaflega dynja á okkur bókaauglýsingar.“ Berglind tekur undir orð Ásdísar, „Sammála Ásdísi, ég hélt að við myndum vera að ríða á vaðið í flóðinu en svo fór allt á fullt þarna rétt á undan okkur! Nú er bara að stíga ölduna og sjá hvert flóðið leiðir mann!“

 

Hafið þið lesið bækur hinna rithöfundanna? Eru þið í einhverju samstarfi?

Berglind segir að samstarfið hafi einmitt verið mjög mikið síðustu mánuði: „Það skemmtilega og gagnlega við Blekfjelagsútgáfuna að við allar þrjár sem gáfum út á sama tíma vorum í miklu samstarfi, auk ritstjóra og prófarkalesara Blekfjelags útgáfunnar. Við lásum yfir hjá hvor annarri og hjálpuðust að með dreifingu og markaðsstarf. Það var mjög gefandi og mikill styrkur í að vinna þetta svona saman.“ Hinar tvær taka undir, þakklátar fyrir gott samstarf. 

 

Áhugasamir um bækurnar og bókaútgáfu Blekfjelagsins geta lagt leið sína á upplestarkvöld á vegum þeirra í Gunnarshúsi þann 6. desember kl. 20-22. Bækur Berglindar, Ásdísar og Guðrúnar er hægt að kaupa víða, t.d. Eymundsson, hjá Bókakaffi í Ármúla og á Selfossi og í Bóksölu Stúdenta.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...