Fríríkið er fyrsta bók Fanneyjar Hrundar Hilmarsdóttur lögfræðings, bónda og nú rithöfundar! Fríríkið er fjörug barna- og ungmennabók sem mun einnig höfða til fullorðinna með húmorinn í lagi (sem ég vona nú að séu allflestir).

Fjöruga fjölskyldan í Fríríkinu

Bókin fjallar um Öllömmu og fjölbreyttu fjölskylduna hennar sem býr á bóndabænum Fríríkinu. Það eru systkinin Alex og Asili en foreldrar þeirra eru læknar sem dvelja langtímum í Afríku. Einnig fær hin fjórtán ára Bella að gista í Fríríkinu af og til vegna þess að móðir hennar er að kljást við alvarleg andleg veikindi og myrkið sem fylgir þeim hefur tekið yfir heimili þeirra mæðgna. Einnig má segja að innan fjölskyldunnar leynist fleiri, bæði dýr og dauðir hlutir. Hundurinn Frændi spilar mikilvægt hlutverk í sögunni og hesturinn Jussi. Svo má ekki gleyma pípunni Gufmundu og traktornum Bauta ásamt vömbinni Vambimar, sem hristist og hossast þegar eitthvað kætir Öllömmu.

Já, hamingja og lífsgleði einkennir heimilishaldið í Fríríkinu en hákarlinn hann Viktor hefur mögulega völdin til að hrifsa alla gleði og fegurð úr Fósturdal. Hann er moldríkur og veður yfir alla þorpsbúa á skítugum skónum. Sonur hans Daríus er harla skárri en hann leggur Asili litlu í hræðilegt einelti í skólanum. Börnin og Allamma komast á snoðir um illt ráðabrugg Viktors og leggja allt undir til að stöðva hann og koma í veg fyrir að hann eyðileggi allt sem þeim er kært. Einnig er eitthvað yfirnáttúrulegt og dularfullt í gangi innst inn í Fósturdal, í fossinum Auði sem Asili dreymir á nóttunni…

Litríkar persónur, litríkur texti

Persónur bókarinnar eru einstaklega fjölbreyttar og vel skapaðar. Börnin þrjú eru aðalsöguhetjurnar og flakkar þriðju persónu sjónarhornið á milli þeirra þannig að lesandinn fær að kynnast þeim vel. Þau innihalda öll mikla dýpt og auðvelt er að halda með þeim og þykja vænt um þau. Allamma er einnig einstök persóna, algjör kvenskörungur en svo ljúf sem lamb fyrir innan hrjúft yfirborðið. Hún gerir allt í sínu valdi til að vernda ungana sína og Fríríkið góða.

Textinn er svo litríkur og orkumikill að stundum hélt ég að orðin ætluðu að stökkva af síðunni. Ég hugsaði oft til þess að ég vildi að ég væri að hlusta á sögu í upplestri en ég sé einnig fyrir mér að henni myndi vegna vel á sviði. Hugmyndaflugið sem einn höfundur hefur! Brandararnir í bókinni eru óteljandi og þetta er svo sannarlega bók sem getur fengið alla fjölskylduna til að hlæja (Fanney fékk þjóðina líklega alla að hlæja hér um daginn líka í Kiljunni…). Ég velti þó fyrir mér stundum hvort að textinn væri mögulega of skreyttur af þungum orðum og sjaldgæfum frösum fyrir yngstu lesendurna. En þá er gott að hafa einhvern hjálpsaman við höndina til að spyrja um orð hér og þar. Það var aðallega byrjun bókarinnar sem var svolítið erfitt að komast í gegnum, þar sem mjög margar persónur (og dýr og dauðir hlutir) voru kynntar á stuttum tíma en textinn byrjaði svo að flæða betur þegar leið á bókina.

 

Niðurstaðan eftir lesturinn er sú að hér er um að ræða virkilega hressandi og metnaðarfulla barnabók sem er uppfull af húmor, einlægni og gleði. Ég tel hana eiga erindi við unga jafnt sem aldna, þar sem hún er einstaklega hentug í lifandi upplestur fyrir börn og barnabörn.

Lestu þetta næst

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...

Sumarleg og fjörug sandkaka

Sumarleg og fjörug sandkaka

Nýlega kom út Mamma Sandkaka, lífleg og fallega myndlýst barnabók eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur....

Flugur á sad beige vegg

Flugur á sad beige vegg

Við erum stödd á fyrstu frumsýningunni á stóra sviðinu á leikárinu. Það er verið að fara sýna...