Furðusagan Ljósberi hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin þetta árið. Höfundur bókarinnar er íslenskum lesendum góðkunnur en hann Ólafur Gunnar Guðlaugsson færði okkur Benedikt búálf sem er enn að gera það gott, m.a. með geysivinsælli uppsetningu Leikfélags Akureyrar.

Ljósberi, með yfirheitinu Síðasti seiðskrattinn, er bók fyrir eldri lesendur, ungmenni og upp myndi ég segja. Þetta er furðusaga í ætt við Harry Potter og Artemis Fowl þar sem fjórir unglingar þurfa að koma saman og nota skyggnigáfur sínar til að rannsaka dularfullt morð. Það skemmtilega við bókina er að þetta eru alíslenskir unglingar og sögusviðið er Vesturbær Reykjavíkur!

Yfirnáttúrulegir hæfileikar

Sjónarhornið flakkar á milli unglinganna, lesandinn kynnist fyrst Bjarna sem er nýbúinn að uppgötva skyggnigáfu sína og fær aðstoð Hannesar frænda síns til að þjálfa hana. Stuttu seinna kynnist hann bekkjarsystkinum sínum sem hafa einnig sömu gáfu en eru búin að hafa lengri tíma til að æfa hana og slípa. Þetta eru þau Baldur, hávaxinn albínói; Theódóra eða Tóta, mislynd emo stelpa; og Hildur, dularfull og falleg stúlka sem Bjarni hrífst strax að. Öll fjögur eiga þau sér sína myrku baksögu en það er ekki alltaf dans á rósum að vera öðruvísi og yfirnáttúrulegum hæfileikum gæddur.

Barist við djöfullegar verur

Hannes er lærimeistari þeirra allra og hefur þjálfað Baldur og Tótu frá barnsaldri í fjölkynngi. Bjarni og Hildur eru nýliðar og vita minna og þurfa að vera snögg að læra. Hræðilegir atburðir eiga sér stað innan veggja grunnskólans þeirra, í nærumhverfi þeirra í Vesturbænum og meira að segja á leikvelli þar sem finnst dularfullur haugur. Lýsingarnar í bókinni eru oft á tíðum grimmar og ógeðslegar þegar sagt er frá djöfullegum verum og illum göldrum en inn á milli eiga unglingarnir sér ósköp venjulegt táningslíf. Ljúga að foreldrum sínum, sinna heimavinnu, verða skotin í hvort öðru … En stundum velti ég fyrir mér hvort persónurnar hegðuðu sér svolítið eins og þær væri 2-3 árum yngri en þær eru látnar vera í bókinni. Þau áttu mjög auðvelt með að fara að hágráta snögglega og hugsanir þeirra uppfullar af upphrópunarmerkjum. Mögulega aðeins á skjön við alvarleika og fullorðinslegar lýsingar af óvættunum sem ásóttu þau.

Sterk ungmenni

Kostur bókarinnar er hversu sterk og sjálfstæð þessir ungmenni eru. Þau eiga að fá stuðning og aðstoð frá Reglunni, hópi fólks sem vinnur með Hannesi en eru ekki með yfirnáttúrulega hæfileika. Þetta eru áberandi einstaklingar úr samfélaginu eins og Sonja Grettis, flottasta bardagakona landsins, og Rósa, barmbesta og hljómfegursta óperusöngkona landsins. Það er þó ekki mikil hjálp í þeim og börnin þurfa svolítið að taka málin í sínar hendur, enda eru það þau sem þurfa að læra að beita hæfileikum sínum og berjast gegn illum öflum. Í bókinni þroskast þau og vinátta þeirra styrkist þrátt fyrir hversu ólík þau eru. Þar sem Ljósberi er fyrsta bókin úr flokknum Síðasti seiðskrattinn endar bókin snögglega því von er á framhaldi innan skamms.

Ljósberi er spennandi og sterk furðusaga sem hefur þann kost að gerast í Reykjavík. Bókin er mikilvæg viðbót í flóru ungmennabókmennta og ég vona að hún nái til sem flestra lesenda.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...