Íslenskur broddborgari flæktur í barnamorðmál

Ásdís Halla Bragadóttir hefur sent frá sér sína fimmtu bók en þetta er þriðja bókin þar sem umfjöllunarefnið eru skyldmenni Ásdísar. Bókin heitir Læknirinn í Englaverksmiðjunni og er það bókaútgáfan Bjartur Veröld sem gefur út. Fyrri bækur Ásdísar sem fjalla einnig um skyldmenni hennar eru Tvísaga, sem fjallar um móðurfjölskyldu hennar og svo Hornauga sem fjallar um tengsl hennar við blóðföður sinn og hans fjölskyldu en Ásdís var orðin fullorðin er hún komst að því að hún væri rangfeðruð.

Í þessari bók heldur Ásdís áfram að fræða okkur um fjölskyldu blóðföðurs síns en Læknirinn í Englaverksmiðjunni segir sögu Dr. Moritz Halldórssonar, bróður langalangafa Ásdísar og íslensks læknis sem starfaði fyrst í Kaupmannahöfn og síðar í Vesturheimi en lítið er rætt um. Þegar Ásdís hóf að grennslast fyrir um þennan ættingja sinn meðal skyldmenna var fátt um svör svo hún lagði upp í heimildaleit þar sem hún viðaði að sér gögnum frá fjórum löndum og sviptir hér hulunni af ævintýralegri sögu hans.

Broddborgarasonur flækist í morðmál

Dr. Moritz, sem upphaflega hét Dr. Moritz Friðriksson, átti hreint ótrúlega ævi. Hann var af íslenskum broddborgurum kominn en foreldrar hans voru Halldór Friðriksson, yfirkennari Lærða skólans í Reykjavík og Leopoldína Friðriksson, sem var dönsk og mikil áhugakona um garðrækt. Moritz hélt ungur til Kaupmannahafnar þar sem hann lærði til læknis, kynntist danskri konu sem síðar varð eiginkona hans og starfaði svo í Kaupmannahöfn sem læknir. Þar flæktist hann inn í ótrúlegt mál, mál sem talið er vera eitt af verstu morðmálum í sögu Danmerkur – umfangsmikil barnamorð í Kaupmannahöfn. Moritz var handtekinn, fangelsaður og grunaður um aðild að þeim. Ekki var mikið fjallað um þessi mál hér á Íslandi, líklega af tillitssemi við fjölskyldu hans en í Danmörku fékk málið gríðarlega umfjöllun á sínum tíma og er þekkt þar. Það er þó ekki bara þetta mál sem fléttast inn í söguna heldur kemur sjálfstæðisbarátta Íslendinga einnig við sögu sem og tengsl við helstu ráðamenn Íslands á þessum tíma sem og Kristján IX Danakonung.

Bókina skrifar Ásdís ekki eins og klassíska ævisögu, þar sem vísað er stíft í heimildir í textanum með hnausþykka heimildaskrá aftast, ritaða eftir kúnstarinnar reglum heimildaskráningarkerfis, heldur er sagan kannski meira skrifuð eins og einhverskonar útgáfa af sögulegri skáldsögu. Höfundur styðst við heimildir en tekur sér skáldaleyfi með ýmis samtöl og aðstæður. Hún hefur nefnt það sjálf bæði í viðtölum og svo í eftirmála bókarinnar að hún hafi tekið þá ákvörðun að skrifa ekki þessa klassísku ævisögu út frá efninu því slíkt form hefði truflað flæði sögunnar og ég verð að taka undir það. Ákvörðun hennar að skrifa bókina eins og hún gerir var að mínu mati hárrétt því saga Moritz hefði klárlega liðið fyrir það. Þetta söguform gerir hinum almenna lesanda auðveldara að tengjast persónum og lífi þeirra, sagan verður einlægari.

Ég er sjálf þó heimildasjúkur bókasafnsfræðingur svo vísanir í heimildir eru ávallt efst í huga mér og var það þannig við lesturinn. Mér fannst stundum mjög sérstakt hvað hún vissi mikið um sögu Moritz og hans skoðanir og var hreint handviss á tímabili að Ásdís væri að taka sér aðeins of mikið skáldaleyfi en hún hrakti burt þær hugmyndir mínar í eftirmála bókarinnar. Þar rekur hún ítarlega allar þær heimildir sem hún studdist við í hverjum kafla fyrir sig og er hreint magnað hversu mikið efni hún náði að finna um Moritz og samferðamenn hans.

Grípandi og fræðandi

Það verður ekki tekið af Ásdísi að hún er virkilega góður penni sem hefur gríðarlega hæfileika í að skrifa góðar fjölskyldusögur. Saga Moritz er hádramatísk saga sem náði mér á fyrstu blaðsíðum bókarinnar og hélst ég það vel við lesturinn að ég kláraði hana á einu kvöldi. Ég gat ekki lagt bókina frá mér, ég varð að vita hvernig Moritz flæktist inn í þetta danska barnamorðmál og hvernig í ósköpunum hann endar á þeim stað sem hann er á í byrjun bókar ef allt sem á undan er gengið í hans lífi gerist í Kaupmannahöfn? Læknirinn í Englaverksmiðjunni er fræðandi og spennandi bók sem kitlar þá lesendur sem elska sögulegt efni en vilja líka hafa smá spennu og snúning í söguþræði bókanna sem þeir lesa. Það eina sem ég saknaði eftir að ég lokaði bókinni var að ég hefði viljað aðeins meiri upplýsingar um hvernig eiginkonu Moritz og afkomendum vegnaði eftir hans dag.

 

Lestu þetta næst

Aðferðir til að lifa af

Aðferðir til að lifa af

Gáfaða dýrið er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur en bókin kom út núna á vormánuðum 2024. Sæunn er...

Verur sem þjást

Verur sem þjást

Dani er venjuleg kona. Hún er komin níu mánuði á leið með dóttur sína Lotte, hún var að flytja...

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.