Loksins er kominn lokahnykkurinn á ævintýri Kötlu Þórdísar- og Ugludóttur! Í Nornasögu 3: Þrettándinn lýkur þríleiknum með hvelli þar sem Katla, Máni og síamskötturinn hans, Dreki, flækjast inn í Goðheima og lenda þar í allskyns vandræðum.
Hasar og lífsháski
Katla og Máni eru í Goðheimum fyrst og fremst til að fara á fund örlaganornanna þriggja, Urðar, Verðandi og Skuld. Sú síðastnefnda á að geta skorið á galdrafjötur sem tengir Kötlu við hina illu nörn, Gullveigu. Gullveig hefur valdið óskunda í lífi Kötlu frá fyrstu bókinni þar sem lesandinn kynnist henni og hennar illvirkjum allvel. Í Goðheimum hittir Katla meðal annars Þór, Óðinn, Frigg og Freyju, þessi heimsfrægu goð sem mannabörn lesa aðeins um í bókum … og kvikmyndum Marvel. Kristin Ragna nýtir sagnaarfinn út í ystu æsar í þessari bók en hinar bækurnar gerast í mannheimum þannig að hér er sögusviðið töluvert ævintýralegra en áður.
Hasarinn byrjar á fyrstu blaðsíðu, bækur Kristínar Rögnu eiga það sammerkt að gerast allar hratt og eru gífurlega spennandi. Katla þarf að kljást við vitneskjuna um hver faðir hennar er og hvort hann vilji eitthvað með hana að gera. Hún þarf einnig að velta fyrir sér siðferðislegum spurningum, ber hún ábyrgðum á gjörðum hans? Er hún eitthvað verri fyrir að vera dóttir hans? Börnin lenda sífellt í lífsháska og þurfa að bjarga bæði nornum, börnum, hundum og köttum úr allskonar klandri. Katla er svo sannarlega aðdáunarverð og hugrökk söguhetja þó að hún sé eilítið klaufsk.
Ný stjórnarskrá!
Alltaf laumast örlítil samfélagsádeila inn í bækur þessa bókaflokks, en í þetta sinn verður til einskonar mæðraveldi í lok bókar þar sem nornir goðheima krefjast nýrrar stjórnarskrár og jafnrétti kynjanna. Óðni er steypt af stóli og arftaki hans er engin önnur en konan hans, Frigg. Þetta hef ég alltaf kunnað að meta við bækur Kristínar Rögnu en auðvitað á tenging við raunveruleikann og íslenskt samfélag alltaf við í öllum bókum, þá mögulega alveg sérstaklega barnabókum þar sem börnin hafa yfirleitt meira að leggja til málanna en við gerum okkur grein fyrir.
Myndir Kristínar Rögnu er eins og alltaf, stórkostlegar. Myndirnar inni í bókinni eru í lit og er textinn brotinn upp nánast á hverri síðu með myndlýsingu, feitletrun eða jafnvel litasprengju á bakvið orðin. Þetta gerir lesninguna virkilega lifandi og hefur Nornasaga frá upphafi smá forskot á aðrar bækur vegna þessa, þar sem myndlýsingar eru nánast alltaf svarthvítar fyrir þennan aldurshóp.
Nornasaga 3: Þrettándinn er virkilega spennandi lokahnykkur á virkilega vel heppnuðum þríleik úr smiðju Kristínar Rögnu. Myndlýsingar hennar eru firnasterkar og fá söguna til að lifna við á stórkostlegan hátt.