Bækur í einni setu

Stutta skáldsagan hefur rutt sér til rúms hér á Íslandi en margar skáldsögur sem komu út í síðasta flóði voru í styttri kantinum. Þetta er þróun sem hefur verið í gangi síðustu ár en oft eru þessar bækur kallaðar nóvellur, ef þið spyrjið bókmenntafræðing. Hér eru nokkrar stuttar bækur úr nýloknu flóði sem lesendur geta jafnvel klárað í einni setu.

[hr gap=“40″]

Konan hans Sverris

Konan hans Sverris er ein af bestu bókum flóðsins að mínu mati. Bókin fjallar um Hildi, konuna hans Sverris, og Sverri, manninn hennar Hildar. Það þarf ekki að tala undir rós um það að Sverrir beitir Hildi andlegu, og stundum líkamlegu, ofbeldi innan heimilisins. Bókin er uppgjör Hildar á þeirra stormasama sambandi og hjónabandi en hún var aðeins 17 ára þegar þau kynntust fyrst en hún slapp ekki frá honum fyrr en um fertugt. Bókin er einstaklega vel skrifuð og af mikilli næmni, auðvelt er að mæla með þessarri bók.

 

 

 

Tilfinningar eru fyrir aumingja

Tilfinningar eru fyrir aumingja er hálfgerð skemmtisaga um vinahóp sem ákveður að stofna saman metal hljómsveit. Það gengur ekki betur en svo að hljómsveitaræfingar verða afsökun til að hittast og drekka saman. Sagan er frá sögð sjónarhorni Höllu sem er einhleyp og er stöðugt að lenda í vandræðalegum atvikum og að eltast við menn. Mér finnst í rauninni frásögnin vera samansafn sagna úr lífi vinahópsins, þráður skáldsögunnar er ekki mjög sterkur en sögurnar sem byggja upp bókina eru heilstæðar og oft drepfyndnar. Létt og þægileg lesning um fólk í krísu sem er að skríða á fimmtugsaldurinn.

 

 

 

Haustið 82

Haustið 82 eftir Ásdísi Ingólfsdóttur fjallar um unga konu, Möggu, sem stundar nám í efnafræði við háskólann og býr með vinkonum sínum í Reykjavík. Hún og vinkona hennar verða fyrir áföllum sem valda því að haustið ’82 verður talsvert krefjandi. Magga er samviskusöm og dugleg við að halda öllum boltum á lofti en rétt fyrir jól ákveður hún að fara til Bandaríkjanna þó að hún sé nánast á kúpunni. Frásögnin er full af hlýju og næmni, lesandanum finnst fljótt vænt um Möggu og vinkonur hennar. Mjög góð lesning á vetrarkvöldi.

 

 

 

 

 

Óskilamunir

Óskilamunir eftir Evu Rún Snorradóttur er í raun ekki skáldsaga heldur safn stuttra sagna, kannski meira örsagnasafn með örfáum ljóðum og myndum úr safni höfundar. Hún fær samt að vera með því hún er algjör gullmoli. Ljóðmælandi eða sögumælandi er sama konan og fléttast því sögurnar vel saman. Bókin er launfyndin, sögurnar vekja margar kátínu á meðan aðrar fjalla um alvarlegri málefni. Sögurnar eru ekki í tímaröð og eru frá öllum lífsskeiðum konunnar. Sumar frá því hún er ung á djamminu, aðrar þegar hún er gift konu og er að ganga í gegnum skilnað. Það er mikið hjarta í sögunum sem veldur því að bókin skilur mikið eftir.

 

 

 

 

Hugfanginn

Fyrsti sigurvegari Sparibollans, nýrrar keppni um fallegustu ástarsöguna, var bókin Hugfanginn eftir Önnu Rögnu Fossberg. Þetta er hennar önnur skáldsaga en áður hefur komið út bókin Auðna. Hugfanginn fylgir Smára, manni sem er nýbúinn að komast að því að hann er með alvarlegan hjartagalla. Einnig fer hann að grafast um örlög foreldra hans sem létust í bílslysi þegar hann var barn. Bókin gerist á einum degi, jafnvel aðeins nokkrum klukkutímum þar sem hann gengur um æskuslóðirnar á leiðinni að hitta æskuvinkonu sína, Þórgunni. Á röltinu rifjar hann upp fortíðina og er gangan einskonar uppgjör við æskuárin sem hann eyddi flestum í að bera út dagblöð. Endirinn kemur á óvart og bindur bókina fallega saman. Bókin er lágstemmd og auðvelt er að líta yfir liðna tíð með Smára.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...